Skip to main content

Að ganga um í hinum fræga lystigarði Gaudi, Parc Güell, í Barcelóna nú og fyrir örfáum árum má heita að sé svart og hvítt. Frá byrjun árs 2014 hafa fjöldatakmarkanir verið í gildi í garðinum, heimsóknum snarfækkað og heimamenn afar ánægðir með allt saman.

Breyttir tímar í Parc Güell í Barcelóna. Mynd Allison Fender

Breyttir tímar í Parc Güell í Barcelóna. Mynd Allison Fender

Garðurinn frægi, eða sá hluti hans þar sem listaverk og skúlptúrar Antoni Gaudi standa hefur verið lokaður af og frá árinu 2014 gestir þurft að greiða sérstakan aðgangseyri til að spássera þar um. Ástæðan sú að aðsókn var einfaldlega of mikil til að hægt væri að gæta vel að þeim gersemum sem hér eru en garðurinn allur er á heimsminjaskrá sem arfur mannkyns og er það sannarlega.

Ekki aðeins kostar nú tæpar þúsund krónur að labba þar inn heldur er aðeins takmörkuðum fjölda hleypt inn hverja klukkustund eða að hámarki 400 manns. Sem gerir upplifun þeirra sem þar inn fara mun betri en ella og raunverulega hægt að skoða verk Gaudi án þess að troðast um mann og annan. Á móti kemur að hér eru líka langar raðir að komast inn á annatímum sem er auðvitað mínus á móti fyrir þá sem enn hafa ekki rölt hér um.

Svo mjög hefur þetta dregið úr heimsóknum að árið 2013 komu hér níu milljónir gesta en gestafjöldinn á síðasta ári „aðeins„ 2,3 milljónir. Heimamenn himinlifandi með þann árangur.