Skip to main content

S pánverjar almennt eru furðu lítið fyrir að ræða fortíðina. Margir þeirra beinlínis skammast sín og ein afleiðing af því er að unga fólkið í landinu er oft á tíðum æði fáfrótt um liðna tíð og tíma.

Einn er þó staður alræmdur sem hver einasti Spánverji með snefil af langtímaminni þekkir mætavel en það má þó eiginlega þakka listamanninum Pablo Picasso meira en sögubókum. Það er smábærinn Guernica eða Gernika á máli Baska.

Bærinn sá er höfuðstaður Biskaya héraðs í Baskalandi en bærinn sem er fallega staðsettur í fjallasal sem kenndur er við ánna Oka. Í grenndinni er náttúruverndarsvæðið Urdaibai  sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem merkilegt náttúrusvæði.

Fáfróður ferðamaður á leið um bæinn í dag myndi líklega ekki gera sér grein fyrir að þann 26.apríl 1937 varð gerð svo heiftarleg fjögurra klukkustunda stanslaus sprengjuárás á bæinn að hér stóð bókstaflega ekki steinn yfir steini neins staðar. Hafa söguskýrendur ýmsir gegnum tíðina skeggrætt sín á milli að hafi einhver einn bær eða borg nánast að öllu leyti verið sprengdur af yfirborði jarðar þá taki Guernica þar fyrsta sætið að frátöldum aðeins Hiroshima og Nagasaki í Japan. Hvorki Dresden né Berlín hafi verið eyðilagðar hlutfallslega jafn mikið og Guernica.

Árásin var framkvæmd af sprengjuflugsveitum Þjóðverja sem voru að aðstoða fasistann Franco í stríði hans gegn Lýðveldissinnum en hann hafði aukinheldur sérstakt horn í síðu Baska vegna sjálfstæðisbaráttu þeirra. Árásin átti þannig að kenna þeim aldeilis sína lexíu. Tæplega 1800 einstaklingar féllu í árásinni.

Þetta þýðir auðvitað að það er afskaplega takmarkað að sjá og skoða hér en ritstjórn Fararheill mælir engu að síður með stoppi og það dagsstund eða svo milli stríða.

Til og frá

Til Guernica er aðeins komist keyrandi með bíl, rútu eða lest en næsti flugvöllur er völlurinn í Bilbao sem aðeins er í rúmlega 30 mínútna fjarlægð.

Lestir fara reglulega hingað frá Bilbao á klukkustundarfresti virka daga frá Abando stöðinni og rútuferðir á milli eru einnig algengar daglega.

Góð hugmynd er líka að leigja bíl hér. Umferðin engin martröð á þessum slóðum og Baskaland er svo fallegt að það er frábært að geta stoppað hvar sem hentar.

Loftslag og ljúflegheit

Rigning er algengari við Biskaya flóann en annars staðar á Íberíu skaganum og kaldara er hér á veturna en sunnar í landinu. En yfir sumarmánuðina er hér frábært að vera því hitinn verður afar sjaldan kæfandi eins og raunin er annars staðar. Það helgast af kældum andvara af hafi sem eru kjöraðstæður fyrir Íslendinga sem þola illa mikla hita dag eftir dag.

Almennt talað fer hitastigið niður í fimm til sex gráður í janúar og febrúar en rúllar í afskaplega þægilegan 24 til 26 gráðu hita yfir sumartímann.

Söfn og sjónarspil

>> Eikartré Guernica (Gernikako Arbola) – Sennilega það markverðasta í bænum öllum er alls ekki allra svo undarlega sem það hljómar. Í garði Casa de Juntas, fyrrum baskneska þinghúsið, stendur eikartré eitt sem dregur að hvern einasta mann af baskaættum sem heimsækir Guernica. Ekki vegna þess að tréð per se sé ýkja merkilegt heldur vegna þess sem það stendur fyrir. Það stendur nefninlega fyrir sjálfstæði fólks við Biskaya flóann og þess vegna sömuleiðis fyrir alla baska. Ástæða þessa er sú að forðum sóru ráðamenn héraðsins að meðtöldum konungi Spánar að virða að fullu og alla tíð frjálsræði fólks á þessum slóðum. Í kjölfarið hittust baskneskir leiðtogar hér og kváðu upp uÞetta er semsagt einn helgasti staður allra Baska en lítið að sjá eða upplifa fyrir aðra.

>> Sóknarkirkja heilagrar Maríu (Iglesia de Santa Maria) – Elsta kirkja bæjarins og sú tilþrifamesta af þremur alls er þessi staðsett við Calle Goienkale. Bygging hennar hófst á fimmtándu öld en heil þrjú hundruð ár þurfti til að klára hana alla en hún er bæði í endurreisnar- og gotneskum stíl. Ekkert stórkostleg í neinum skilningi þó enda farin að láta á sjá. Opin mánu- til laugardaga frá sjö á morgnana og frameftir degi. Aðgangur ókeypis.

>> Baskneska safnið (Museo del Euskal Herria) – Ágætt safn tileinkað hinni basknesku þjóð og þeirra lífi og störfum frá aldaöðli. Aftur ekkert til að hrópa húrra fyrir en fantagott fyrir söguþyrsta. Ekki síðra en safnið sjálft er byggingin sem það hýsir. Alegría höllin heitir það og er að flestra mati fallegasta byggingin í bænum. Calle Allende Salazar. Opið daglega yfir sumartímann frá 10 til 19 með lokun yfir hádaginn. Miðaverð 700 krónur.

>> Friðarsafnið (Fundacion Museo de la Paz de Gernika) – Eitt fremsta safn heims tileinkað friði í heiminum öllum og vitaskuld tileinkað minningu þeirra sem hér létust í sprengjuregni Þjóðverjanna 1937. Fjöldi mismunandi sýninga fara hér fram og ráðstefnur um málefnið tíðar. Friður á jörð er alltaf göfugt markmið og hver veit nema heimsókn hingað breyti þinni heimssýn. Plaza de los Fueros. Opið 10 til 20 alla daga nema mánudaga en aðeins yfir sumartímann. Aðgangseyrir 800 krónur. Heimasíðan.

>> Friðargarðurinn (Parque de la Paz) – Tengdur Friðarsafninu er þessi ágæti litli garður sem er bæði fínn til að hvíla bein, kæla sig niður eða dást að nokkrum risaskúlptúrum eftir baskneska listamanninn Eduardo Chillada meðal annarra.

Áhugavert annað

Ef kostur gefst á að vera hér á mánudegi þá endilega látið verða af því. Þá breytist miðbærinn í eitt stórt markaðstorg og bæjarbúar að sama skapi taka illa í að aðstoða þig. Það helgast af því að fólk hér um slóðir hefur haft það sem mottó um aldaraðir að á mánudögum komi enginn neinu í verk og því best að eyða honum bara í að versla. Af því leiðir að hér er stór og mjög góður markaður alla mánudaga.

Hér má einnig finna stærsta pelota völl í heimi. Pelota er basknesk íþrótt þar sem hörðum bolta er barið í vegg og andstæðingurin reynir að svara í sömu mynt. Það sem gerir þetta sérstaklega erfitt, og ritstjórn Fararheill hefur tekið þátt einu sinni, er að aðeins má slá með flötum lófa í harðan boltann. Óvanir menn duga því ekki lengi áður en brennandi sársauki fer að skera verulega í.

Verslun og viðskipti

Að frátöldum mánudagsmarkaðnum er fátt hér um fína drætti verslunarlega séð. Vænlegra sé fólk á ferðinni hér að sinna slíku í Bilbao þar sem úrval er mikið meira.

Annars skal líka hafa í huga að Baskaland er tiltölulega dýrt svæði á spænskan mælikvarða og því lítið um verulega hagkvæm kaup hér.

Matur og mjöður

Enginn bær getur kallað sig baskneskan án þess að hér finnist fínustu veitingastaðir og Guernica stendur undir því nafni. Þrír veitingastaðir sérstaklega þykja framúrskarandi hvort sem forvitnast er hjá heimafólki eða ferðamönnum.

  • Zallo Barri / calle Juan Kaltzada Kalea
  • Carlos Foruria Goicochea / calle Artekalea
  • Maria Jesus Aurre Mandaluniz / calle Askatasun Kalea

Djamm og djúserí

Allnokkrir fínir barir hér og margir bjóða fína smárétti til að skola niður í leiðinni. Baskar skemmta sér duglega og oft heilu fjölskyldurnar saman en tía sig í háttinn þegar líða fer yfir miðnætti.

Líf og limir

Í góðu lagi hér. Ef maður er ekki óhultur í borg friðarins hvar þá? Að þessu sögðu er aldrei góð hugmynd að ræða aðskilnaðarmál við heimamenn í glasi. Þeir eru margir fljótir upp þegar það ber á góma.

View Guernica á Spáni in a larger map