E ngum nema allra færustu leiðsögumönnum dytti í hug að fara með ferðamenn til smábæjarins Port Royal gengt höfuðborginni Kingston á Jamaíka. Ástæðan einföld; þar er fátt eitt að sjá.

Örfá hús hér á strangli frá þeim tíma þegar landið var bresk nýlenda, leifar af gömlu virki, tvær hafnir sem lítt eru notaðar og eina lífið er í börnum bæjarins sem hoppa fram af bryggjunni og synda í tærum sjónum. Reyndar þarf nú ekki annað en sjá bros þeirra og skemmtun til að finnast allt vera í lagi í veröldinni en það breytir því ekki að Port Royal er ekki neitt neitt

…nema þá aðeins að ferðalangurinn þekki söguna.

Saga þessa litla bæjar er nefninlega stórmerkileg en nákvæmlega ekkert bendir til þess. En sagan hefur líka svör við því.

Það ætti að gefa hugmynd um örlög bæjarins í dag að meðal fornleifafræðinga gengur Port Royal undir nafninu „borgin sem sökk.“

Hér var nefninlega tiltölulega stór og vinsæll staður á Jamaíka og sérstaklega var Port Royal athvarf hinna ýmsu sjóræningja sem rændu skip og menn á öldum áður. Ekki nóg með það heldur halda margir fræðingar fram að hér hafi verið stærsta bækistöð sjóræningja á öllu Karíbahafinu lengi vel. Það helgaðist meðal annars af góðu legi en helst þó vegna þess að hér var meginmistöð viðskipta á karabíska hafinu og skip drekkhlaðin munum fóru fram og aftur reglulega.

Þetta var, með öðrum orðum, Babýlon karabíska hafsins. En klukkan 11:43 þann 7. júní 1692 breyttist það.

Þá reið hér yfir öflugur jarðskjálfti og þungamiðja hans nákvæmlega í miðju Port Royal. Skipti engum sköpum að 80 prósent þessa bæjar sem sat og situr að stærstum hluta bara á sandi sökk til botns í einu vetfangi þegar sandurinn gaf eftir og rann út í höfnina í Kingston. Á þessum tíma var þetta rúmlega sex þúsund manna bær en skjálftinn og flóðbylgja sem í kjölfarið fylgdi tortímdu alls fimm þúsund af þeim sex sem hér bjuggu. Bærinn hvarf næstum allur undir sjó á innan við tíu mínútum og flestir íbúarnir með.

Merkileg er sagan af því hvernig menn vita upp á mínútu hvenær skjálftinn reið yfir en ástæðan sú að fundist hefur á hafsbotninum hér úr sem stöðvaðist á þessum tímapunkti þetta ár og er talið fullvíst að það sýni tíma hamfaranna.

Þrátt fyrir minnst tvær tilraunir til endurbyggingar lauk því endanlega þegar annar jarðskjálfti reið yfir svæðið árið 1901 en í millitíðinni höfðu fellibyljir gert þar skráveifu í áraraðir. Í seinni skjálftanum féllu flest þau hús sem höfðu verið endurbyggð og síðan hefur Port Royal varla verið neitt neitt.

Með tveimur undantekningum þó.

Fyrir það fyrsta er staðurinn algjörlega laus við ferðamenn sem er ekki dapurt á slíkum stað enda vel hægt að ímynda sér kristaltæran sjóinn, útsýnið yfir til Kingston og ekki síst fyrsta flokks sandstrendur. Í öðru lagi er það aldeilis ágætur veitingastaður sem reyndar lítur ekki vel út við fyrstu sýn. Þar er eldhúsið við hlið lyktandi útihúss og íturvaxnar heimastúlkur kokka og reiða fram matinn sem er virkilega frábær enda uppskriftir allar heimagerðar. Enginn vandi er að finna staðinn. Hann er sá eini í bænum.

Stjórnvöld í Kingston sem nú hafa yfirráð yfir svæðinu og síðan um aldamót hafa verið uppi áform um að byggja þarna ferðamannaparadís og skemmtiferðaskipahöfn sem eðli málsins samkvæmt eyðileggja allan sjarma Port Royal. Enn hefur lítið orðið af framkvæmdum.

Til gamans má geta þess a að hluti kvikmyndanna Pirates of the Caribbean voru teknar í Port Royal.

Til umhugsunar: Hvar sem gestir gista á eynni verða ávallt hópar manna sem bjóða leiðsögn og ökuferðir hvert sem hjartað lystir. Meirihluti þeirra eru daprir og kunna litla sögu en inn á milli eru kappar sem allt kunna, allt vita og fara varlega. Þeir fara með ferðamenn á staði sem enginn nema heimamenn vita um og samið er um verðið fyrirfram. Best er að nota innsæið þegar valdir eru leiðsögumenn og vona það besta. Brýnið fyrir þeim að fara varlega og leigið þá helst allan daginn því annars flýta þeir sér fram úr hófi sem er slæmt því vegir og umferð á Jamaíka allri er ægileg. Hræðileg slys eru þar daglegt brauð.

View Larger Map