Skip to main content

Neytendavitund okkar Íslendinga er svo lítil og löskuð að við hlaupum hugsunarlítið til um leið og eitthvað glóir eins og gull og höldum okkur hafa himinn höndum tekið. Tugþúsundir golfáhugamanna eru nú að pissa á sig af spenningi eftir að hafa fengið inn um lúguna tímaritið Golf á Íslandi þar sem heilar fimm síður eru tileinkaðar því sem virðist vera hrein kynning á nýjum golfáfangastað á Spáni af hálfu sænsks fyrirtækis með einn íslenskan starfsmann.

Út á þessa grein/kynningu er ýmislegt að setja þegar grannt er skoðað en í grunninn er þarna um að ræða kynningu á lengri dvölum, tvær til fjórar vikur, í litlu þorpi á Spáni yfir vetrarmánuðina þar sem kostnaði er haldið í lágmarki að sögn og ótakmarkað golf á einum nálægum velli er innifalið í verðinu.

Verðið sannarlega spennandi að sjá eða 2.400 evrur fyrir íbúð fyrir tvo plús golfið í heilan mánuð eða sem nemur tæplega 380 þúsund krónum íslenskum miðað við miðgengi dagsins. Þá er auðvitað eftir flug til og frá og að leigja bíl til að koma sér á staðinn. Engu að síður bara skrambi gott ekki satt?

GALLARNIR Á GJÖF NJARÐAR

Í allra fyrsta lagi kemur ekki fram hvort fyrirtækið Nordpoolen eins og það heitir, greiðir fyrir þessa fínu kynningu í þessu vinsæla tímariti. Ýmislegt bendir til að svo sé og þá ekki síst hversu svæsnar lýsingarnar á herlegheitunum eru. Fararheill getur staðfest að svæðið per se er ekkert mjög amalegt en heldur ekki neitt til að skrifa heim um. Nálægt er hinn afar vinsæli Mojácar sumardvalarstaður heimamanna en þar er lítið um að vera yfir vetrartímann.

Í öðru lagi er fyrirtækið Nordpoolen ekki sænskt ef marka má heimasíðu þess sem skráð er í alræmdu skattaskjóli á Kyrrahafseyju. Lítil ástæða er til að skrá veffang þar nema fyrirtækið sé þarlent. Að mati Fararheill er engin ástæða til að versla við skattaskjólsfyrirtæki nema fólk vilji sjá slíkt viðgangast í heiminum.

Í þriðja lagi er „tilboðið“ sem um ræðir kannski ekki svo einstakt eftir allt saman. Fararheill finnur strax gistingu á sama stað á sama íbúðahóteli í heilan mánuð fyrir 132 þúsund krónur fyrir tvo eða um 65 þúsund krónur á mann. Þá er eftir allt golfið og miðað við að hver stakur hringur kostar 90€ eða um 14 þúsund krónur eru menn fljótir upp í tilboð Nordpoolen. Nema, að í boði eru á netinu fjölmargir pakkar á þessum sama velli sem lækkar verð á golfinu verulega eins og sjá má hér og hér og hér.

NIÐURSTAÐAN

Með öðrum orðum þá er pakkinn sem Golf á Íslandi sér ástæðu til að fjalla ítarlega um í víðlesnu tímariti ekki svo einstakur. Fólk þarf samt sem áður að verða sér úti um flug og bíl og ekkert matarkyns er innifalið og bærinn sjálfur, Cuevas del Almazora, er ekki mekka fyrir eitt né neitt. Takmarkað úrval annarrar afþreyingar og barir eða veitingastaðir fáir.

Að því sögðu er tilboð Nordpoolen ekki slæmt en verðskuldar varla slíka ofurúttekt þó hjá fyrirtækinu starfi íslenskur strákur.