Skip to main content

Flugfélagið Icelandair hefur aldrei kunnað að láta útbúa auglýsingar sem bragð er að og er skemmst að minnast „Dirty Weekend“ auglýsinga fyrirtækisins þar sem markmiðið var að fá graða erlenda karlmenn til landsins í massavís.

Ein auglýsing sem nú dynur yfir landann í flestum fjölmiðlum, en merkilegt nokk sýnu mest í miðli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem var einn af þeim sem næstum settu sama fyrirtæki á hausinn, sýnir þrjár stúlkur sem fljúga til erlendrar stórborgar, velja fimm stjörnu hótelbar til að djúsa, eins og engir séu milljón frábærir barir og klúbbar í erlendum stórborgum, og hverfa svo sætar og sexí út í nóttina.

Látum vera að tvítugar íslenskar stúlkur séu ekki mikið að stúta fokdýrum kokteilum á gullskreyttum hótelbörum en verra að auglýsingin gefur í skyn að ferðin sé í boði vildarpunkta.

Það er langt undir belti af hálfu Icelandair. Hvað eru vildarpunktar annað en hlunnindi viðskiptavinar af því að beina viðskiptum sínum á ákveðna staði og jafnvel gera sér sérstaka ferð til verslana sem vildarpunkta bjóða.

Það er því engin ferð í BOÐI VILDARPUNKTA! Ferðin er keypt fyrir vildarpunkta sem fólk hefur orðið að greiða fé fyrir og haft misjafnlega mikið fyrir. Það er lítilsvirðing að gefa í skyn að ferð sé í boði vildarpunkta. Nema vildarpunktar séu farnir að bjóða fólki hingað og þangað og þá pant ritstjórn Fararheill fara á gestalistann.

Kjánalegt í meira lagi.