Skip to main content

Vart þarf að rífast yfir að velflestir myndu kjósa sérsniðinn kjól eða jakkaföt í stað þess að punga út fyrir fjöldaframleiddum fatnaði í Hagkaup ef ekki væri himinn og haf á milli í verði. Þeir hinir sömu gætu því lyft brúnum yfir þeim fregnum að nú er nýjasta æðið í skemmtisiglingaheiminum klæðskerasaumaðar ferðir og þær ekki ýkja mikið dýrari en hinar hefðbundu.

Þær hefðbundu, nota bene, eru sígildar siglingar um Karíba- eða Miðjarðarhafið þar sem stoppað er oggustund á nokkrum stöðum í hverri ferð en fólk heldur sig alla jafna um borð og nýtur matar og drykkja, sólbaða og samskipta og þarf ekki að hreyfa legg né lið mikið umfram glasalyftingar.

Reyndin er sú að slíkar ferðir, þó afslappandi séu ef nægir peningar eru fyrir hendi, verða hálfþreyttar eftir ákveðinn tíma. Það eru jú takmörk fyrir hvað hægt er að hanga í sólbaði eða á barnum án þess að brenna eða verða ofurölvi. Þá eru góð ráð dýr.

Ein lausnin gæti verið að fara í klæðskerasiglingu en þær ryðja sér nú mjög til rúms. Um tíma hafa skemmri siglingar þar sem þemað er sérstaklega á mat og drykk notið vaxandi vinsælda. Þar kokka sjónvarpsstjörnur mat fyrir liðið ellegar vínfræðingar fylla á glös farþega af merkisvínum héðan og þaðan. Fararheill hefur farið slíka ferð nýlega og notið vel enda ritstjórn töluvert drykkfelld og skammast sín ekkert fyrir.

Sífellt bætist þó í flóruna af sérstökum siglingum og nú þarf ekki lengi að leita á netinu til að finna siglingar þar sem djassgeggjarar geta notið tónleika hvert kvöld. Í Þýskalandi er troðfullt í þungarokkssiglingar þar sem enginn fær frið fyrir slíku rokki neins staðar á skipinu og myljandi tónleikar haldnir á kvöldin.

Listferðir eru líka á uppleið þar sem listfræðingar setja sig á stall og fræða fólk og stoppað er sérstaklega þar sem finna má merkileg söfn eða merka staði aðra. Enn aðrir bjóða sinfoníuferðir þar sem klassíkin flæðir úr hverjum einasta hátalara skipsins og klassískir listamenn láta til sína taka.

Síðast en ekki síst er vaxtarbroddur í fjölskylduferðum þar sem heilu ættarmótin eru haldin um borð í skemmtiferðarskipi. Hluti almenningsrýmisins er þá stúkaður af fyrir fjölskyldumeðlimi sérstaklega.

Þetta er vel því meira úrval og meiri samkeppni þýðir að verð á slíkum siglingum lækkar okkur í hag. Fararheill er ekki kunnugt um að ferðaskrifstofurnar hérlendis hafi kveikt á þessari peru en fyrir þá sem vilja fræðast meira eru hér þrjár vefsíður erlendra aðila sem sérhæfa sig í slíkum ferðum.