Fararheill fjallaði nýlega um þá staðreynd að þau þrjú flugfélög sem fljúga milli Keflavíkur og Billund í sumar bjóða öll upp á afskaplega leiðinlegar tímasetningar fyrir viðskiptavini sína eins og sjá má hér. Það er þó nánast hátíð miðað við það sem í boði er til og frá Alicante á Spáni.
Einir fjórir valkostir eru í boði fyrir Íslendinginn langi hann beinustu leið til Alicante á Spáni sem er jú í grennd við eina stærstu Íslendinganýlendu heimsins í Torrevieja. Til Alicante þetta sumarið fara Heimsferðir, Icelandair, Iceland Express og Wow Air og hefur úrval ferða eða samkeppni á þessari leið aldrei verið meiri.
En hvað veldur því að hvert einasta þeirra býður upp á tímasetningar sem verða að teljast fráleitar fyrir flesta og engin önnur flugfélög annars staðar bjóða sínum farþegum upp á?
ICELANDAIR flýgur á milli í vor og sumar og fara vélar flugfélagsins frá Keflavík klukkan 16:30. Lending í Alicante er því klukkan 23 að staðartíma. Brottförin frá Alicante í boði klukkan 23.55 og lent í Keflavík 02:25 um nóttina.
WOW AIR býður sínum farþegum flug frá Keflavík klukkan 17 einu sinni í viku. Lending í Alicante klukkan 23:30. Til baka er komist 00:30 eftir miðnætti og lent á Fróni laust eftir klukkan þrjú um nóttina.
ICELAND EXPRESS fer í flestum tilvikum á loft með sína farþega frá Íslandi klukkan 18 og eru vélar þess ekki lentar í Alicante fyrr 00:30 eftir miðnætti. Enn verra á heimleiðinni aftur því tímasetning á heimleiðinni er 01:30 eftir miðnætti og lent í Keflavík 04:25. Hins vegar býður Iceland Express býður einnig júní, júlí og ágúst miðvikudagsferðir frá Keflavík klukkan 9:30 og er þá lent í Keflavík aftur laust fyrir 20 um kvöldið.
HEIMSFERÐIR er býður flug til Alicante á mismunandi tímum í sumar. Geta farþegar þeirra tekið flugið héðan í einstöku brottförum klukkan 06:25 og 09:30 um morguninn. Lending því um hádegið á áfangastað. Þær ferðir eru þó í minnihluta því langflestar brottfarir Heimsferða eru klukkan 17:45 sem aftur þýðir lendingu í Alicante klukkan 00:05 eftir miðnætti.
Skoðun ritstjórnar Fararheill leiðir í ljós að engum öðrum flugfélögum dettur í hug að bjóða viðskiptavinum sínum upp á slíkar tímasetningar. Hvorki stóru flugfélögin British Airways, Lufthansa né Air France og heldur ekki lágfargjaldaflugfélögin Ryanair, easyJet, Vueling eða Norwegian. Við leit hjá þessum aðilum eru farþegarnir í allra seinasta lagi lentir í Alicante fyrir klukkan 23 á kvöldin.
Fyrir flesta er ekki draumastaðan að ferðast og þvælast um miðja nótt auk þess sem stór hluti farþega verður að koma sér og farangri sínum af hótelum um hádegisbilið. Viðskiptavinir Iceland Express þurfa til dæmis að eyða þrettán klukkustundum á dólinu meðan beðið er heimferðar flugfélagsins. Það kannski sleppur fyrir þá sem eiga hús á svæðinu en það eru ekki allir. Í þokkabót er ekki mikil þjónusta í flugstöðinni eftir miðnættið og verslanir flestar lokaðar.
Enn verra er að svo seint er komið til Alicante í öllum tilvikum að allar samgöngur eru hættar ef frá eru taldir leigubílar. Engar rútur eru í boði frá flugvellinum eftir miðnættið. Aðeins farþegar Icelandair eiga minnsta möguleika á að taka rútu í bæinn og þá aðeins ef engar tafir eru á að farangur skili sér. Vitaskuld eru leigubílar mun dýrari kostur en rútur nokkru sinni og sem dæmi um kostnaðaraukann má nefna að far með rútu frá flugvellinum til Benídorm kostar aðra leiðina tæpar 1.300 krónur á mann. Fargjaldið með leigubifreið þá leiðina kostar tæpar tólf þúsund krónur plús farangursgjald. Þar munar um minna fyrir alla þá sem ekki hafa hugsað sér að leigja bíl. Meira að segja þar er vandamál því upp og ofan er hvort bílaleigur á flugvellinum eru opnar eftir miðnættið. Oftar er það ekki raunin nema bíll sé pantaður með fyrirvara.
Óskiljanlegt með öllu!






