E f Kjörbúðin er eina búllan í plássinu og þú þarft að greiða þúsund prósent meira fyrir kanil og kardemömmudropa en íbúar á höfuðborgarsvæðinu er fátt til ráða annað en taka þann kaktus upp í óæðri endann. Og auðvitað blóta Kjörbúðinni til helvítis eftirleiðis í góðra vina hópi og gefa skítaeinkunn á samfélagsmiðlum.

Barselóna er príma og ekki síður á viðráðanlegu verði.

Það er á þeim forsendum sem við hér mælum eindregið með að fólk hysji upp um sig í hvelli og negli flug með Icelandair til Barselóna í sumar. Úttekt okkar leiðir í ljós að flugfélagið hefur ekki enn selt nein ósköp af þeim ferðum og því komist fram og aftur á sardínufarrými með ekkert meðferðis fyrir rétt tæpan 30 þúsund kall.

Ekkert gefins auðvitað en nokkuð vel gert samt miðað við allt og allt og almenna okurverðlagningu Icelandair. Túrarnir atarna rúmlega 42 þúsund krónur með tösku meðferðis.

Við kíktum á alla brottfarardaga flugfélagsins héðan, laugardagar, og heimflug viku, tveimur eða þremur síðar og allan júlí og allan ágúst má enn finna fargjöld niður í 29.705 krónur. Óhætt að slá föstu að þau fargjöld munu hækka duglega eftirleiðis.

PS: Ef hin dásamlega Barselóna er ekki að gera sig fyrir þig og þína er fjöldi flugfélaga sem fljúga til og frá borginni. Héðan komist til Kanaríeyja fyrir 15 þúsund krónur, til Tyrklands fyrir 25 þúsund, Marokkó fyrir 20 kall og innanlands fást fargjöld niður í fimm til sex þúsund kall. Svo ekkert sé minnst á Mexíkó eins og við fjölluðum um nýlega.