Ein allra litríkasta og líflegasta borg heimsins er þessi Miðjarðarhafsperla sem gengur undir nafninu Barcelóna. Borg með gnótt af skemmtunum, dásemdum fyrir augað, þúsundum veitinga- og smáréttastaða sem hver er öðrum betri og margir bjóða enn rétti og drykki sem rætur eiga í gamalli menningu Katalóna og Spánverja.

Þrátt fyrir að eiga sín há- og glerhýsi heldur Barcelóna enn öllum sérkennum sínum og er ekki fórnarlamb nútímavæðingar eða niðurrifsafla eins og raunin er með margar aðrar borgir heims.

Ferðamannatíminn í Barcelóna er í raun allt árið. Yfir hásumarið skartar borgin vissulega sínu besta að margra mati en hitinn getur orðið óbærilegur rauðþrútnum Norðurlandabúum. Þá er borgin ennfremur pökkuð af ferðafólki og löng bið og raðir á helstu perlur borgarinnar en milli fimm og sjö milljónir ferðamanna sækja borgina heim á sumrin. Vænlegast er að eyða þar tíma í apríl – maí eða september-október þegar hitastigið er enn þægilegt en stórir skarar ferðamanna orðnir fáséðir.

Hingað geta allir aldurshópar sótt slökun og afþreyingu. Menningarvitar og sögusnúðar gleyma sér auðveldlega í hverjum kima borgarinnar á fætur öðrum. Hér er falleg strönd og margs konar afþreying fyrir börnin sé hugmyndin að slaka á. Eldri borgurum getur ómögulega leiðst hér og einu vandræði unga fólksins er að ákveða hvaða tónleika eða skemmtistað á að velja úr hundruðum slíkra í borginni.

Að mati ritstjórnar Fararheill.is njóta sín allir í Barcelona nema dauðir séu eða nýkomnir úr heilaskurðaðgerð sem mistókst hrapallega.

Það er margt sem gerir Barcelóna að fyrsta flokks dvalarstað í fríinu. Miðað við aðrar borgir er verðlagið mjög hagstætt fyrir Íslendinga. Þótt heimamenn eigi máltækið: Barcelona és bona si la bossa sona (Barcelóna er góð ef buddan er góð) er til að mynda hægt að fá sér góðan kvöldverð með víni á góðum stað fyrir sama verð og heimsend pizza kostar á Íslandi. Það fer seint í bækur sem okurverð meðal íslenskra neytenda.

Söfn mörg eru hér í heimsklassa og sama má segja um marga veitingastaði. Hún hefur sína eigin sandströnd í göngufæri frá miðbænum. Sjálf er borgin að mörgu leyti eitt listaverk eins og gamli hlutinn, barrio Gotico, ber vitni um. Síðast en ekki síst má ekki gleyma meistaranum Gaudí en byggingalistaverk eftir hann má finna víða í borginni og eru hvert öðru merkilegra.

Annað sem gefur borginni stóran plús í kladdann er að þó ferðaiðnaður sé mikilvægur hluti þá ganga menn ekki fram úr hófi að laga allt eftir höfði túristans. Ef frá er talin hin fjöruga og skemmtilega Rambla þar sem hver reynir í kapp við annan að pranga einhverju inn á ferðamenn fá ferðamenn annars staðar sömu þjónustu á sömu verðum og aðrir borgarbúar.

Borgarbúar eru hrifnir af hvers kyns uppákomum og eins og ekki sé nóg að skoða og sjá í Barcelóna fer þar fram fjöldi hátíða og sýninga sem setur punktinn yfir i-ið á stórkostlegri ferð. Dæmi um slíkar hátíðir er Fiesta de San Medir, hátíð heilags Medir, sem fram fer í byrjun mars ár hvert.

Snöggsoðin sagan

Goðsagnir skýra frá því að enginn annar en Herkúles hinn firnasterki hafi fyrstur manna sett upp búðir í Barcelóna og þar með skapað vísi að þeirri borg er hún síðar varð. Það voru Karþagóar sem gáfu henni nafnið Barcino eftir hinum mikla hershöfðingja Hamilcar Barca en sá drottnaði yfir þessum hluta Spánar 230 árum fyrir Kristsburð. Það var sonur hans, hinn frægi Hannibal, sem missti borgina og héraðið allt svo í hendur Rómverjum 20 árum síðar í seinna púnverska stríðinu.

Rómverjar sátu sem fastast í Katalóníu næstu tvær aldir en Barcino varð aldrei höfuðstaður þeirra á þeim tíma. Sá heiður féll í skaut Taracco sem í dag heitir Tarragona. Má enn finna þar heilllegar rómverskar rústir frá þessum tíma öfugt við Barcelóna þar sem lítið er um slíkar minjar.

Yfirráð yfir svæðinu og borginni breyttist ört eftir að rómverska heimsveldið liðaðist í sundur. Visigotar náðu því fyrst á sitt vald en voru hraktir þaðan af Márum sem svo voru sjálfur reknir á braut af Louis syni Karlamagnúsar Frankakonungs. Það voru þeir sem sköpuðu undirstöður verslunar og þjónustu á svæðinu með úthlutun landssvæða allt kringum borgina sem þannig skapaði afbragðs varnir gegn Márum sem ekki voru langt undan. Það var svo árið 8878 sem greifanum Villa Loðna (Wilfred the Hairy) tókst að sameina landssvæðin í eitt og þar situr nútímaborgin Barcelona.

Atvikin höguðu því svo til að á fjórtándu öld var Spánn að heita sameinaður undir konungsdæminu í Kastillu og þar á bæ þótti mikilvægi Barcelóna lítið og borgin fékk því aldrei notið þeirrar gósentíðar sem fór í hönd þegar spænskir landkönnuðir komu heim drekkhlaðnir verðmætum varningu frá Nýja Heiminum.

Konungsdæmið eyddi miklum fjárhæðum í hin og þessi stríðin þegar fram liðu stundir og að því kom að leggja skyldi skatta á alla Katalóna. Því undu menn ekki og hófu heimamenn uppreisn gegn konungsstjórninni með stuðningi Frakkakonungs. Veðjuðu þeir á rangan hest og 1652 gafst Barcelóna upp fyrir spænsku herjunum. Innan við 50 árum síðar gerðu Katalónar sömu mistök aftur þegar þeir studdu ranga aðila þegar upplausn varð meðal konungsdæmisins. Enn og aftur voru þeir yfirbugaðir.

Íbúar fengu þriðja tækifærið til að losna undan oki Kastillu þegar Napóleón óskaði stuðnings Katalóníu í stríði sínu gegn Spáni1808 en því var hafnað. Náði Napóleón að leggja musterið í Montserrat í rúst en sprengjur hans náðu ekki til borgarinnar sjálfrar.

Barcelóna náði sér undrafljótt á strik eftir þetta og varð snemma vagga iðnbyltingar í landinu. Mikill útflutningur var á ólífuolíu, vínum og klæðum. Ávallt sauð þó aðeins undir niðri meðal íbúanna og voru fjölmargar smærri uppreisnir bældar harkalega niður. 1854 braust borgin loks úr ánauð sinni þegar virkisveggir þeir er lokað höfðu borgina af síðan á fjórtándu öld voru brotnir niður. Nýr borgarhluti, Eixample, reis þar í staðinn.

Það er til marks um uppgang borgarinnar að Barcelóna hélt Heimssýninguna árið 1888 en mikil uppbygging átti sér stað í aðdragandi þeirrar sýningar. Leikinn endurtóku þeir 1929 þegar önnur slík Heimssýning var haldin þar og aftur var borgin fegruð og nútímavædd af tilefninu. Meðal annars var neðanjarðarlestarkerfið opnað.

1930 lýsti Katalónía yfir sjálfstæði sínu frá Spáni en eldfimt pólitískt ástandið á þeim tíma í landinu öllu var sem gjöf í hendur Francisco Franco hershöfðingja sem 1936 tók völdin með aðstoð hersins. Katalónar héldu andstöðu sinni áfram fram til ársins 1939 þegar herir Franco létu sprengjum rigna yfir borgina. Yfir tvö þúsund byggingar eyðilögðust og heimamenn gáfust upp. Menning þeirra og tungumál var bannað í kjölfarið.

Með dauða Franco 1975 reis Barcelóna hratt úr öskunni og vakti heimsathygli þegar borgin var valin til að halda Ólympíuleikanna árið 1992. Tækifærið var nýtt enn á ný til að fegra og fínisera og reist var Port Olímpic sem tengdi fyrsta sinni borginar við ströndina og sjóinn.

Til og frá

Strangt til tekið er aðeins einn alþjóðaflugvöllur í Barcelóna. Sá heitir Aeropuerto de Barcelona en þekktari sem El Prat og er í átján kílómetra fjarlægð frá miðborginni. Hann er stór og þægilegur og úrval verslana og veitingastaða fínt. Sökum umferðar tekur þó milli 20 og 30 mínútur að fara á milli.

Sökum nálægðar við borgina er langódýrast að taka strætó inn í miðbæinn. Nokkrar leiðir eru í boði. Annars vegar hefðbundnir strætisvagnar en þar fer númer 46 á milli Plaça Espanya í miðborginni og flugvallarins á sextán mínútna fresti. Þrír aðrir strætisvagnar fara milli borgarinnar og flugvallarins. Leiðir 195, L77 og L99 fara frá El Prat inn í aðra borgarhluta en miðborgina. Miðaverð með strætó er 170 krónur.

Hins vegar hraðrútur A1 eða A2 milli flugvallarins og Plaça Catalunya sem er einnig í miðborg Barcelóna. Miðaverð aðra leiðina er 800 krónur. Þessir vagnar fara á 15 til 20 mínútna fresti til og frá. Mikilvægt að muna að A1 fer að flugvallarbyggingu A en A2 að byggingu 2. Spottakorn er þarna á milli og því best að taka réttan vagn.

Til umhugsunar: Ef svo ólíklega vill til að lent er hér mjög seint að kvöldi gengur næturvagn alla daga ársins en aðeins á klukkustundarfresti. Strætisvagn N17 fer inn í miðborgina. Miðaverð er tvöfalt dagsverð.

Annar möguleiki er að taka lest inn í miðborg en lest númer R2 fer á 20 mínútna fresti til og frá. Lestin fer að þremur stöðvum í borginni og á öllum er tenging við neðanjarðarlestarkerfið. Um er að ræða Passeig de Gracía sem er tiltölulega miðsvæðis, Barcelona Sants sem er umferðarmiðstöð borgarinnar og Clot sem er nokkuð úr leið fyrir hinn hefðbundna ferðamann.

Leigubílar til og frá miðborg Barcelóna kosta að jafnaði 4.600 aðra leið á dagtaxta.

Það eru tveir aðrir flugvellir í nágrenni borgarinnar, ef svo má að orði komast því báðir eru í hundrað kílómetra fjarlægð, en mörg lágfargjaldaflugfélög og reyndar stöku íslensk ferðaskrifstofa bjóða ferðir til Barcelóna gegnum þá tvo velli.

Hinn fyrri er Girona Costa Brava til norðurs af borginni. Líklegt er að lenda hér ef farið er með breskum lágfargjaldaflugfélögum.

Leigubíll héðan kostar handlegg og fót og töluvert í viðbót og er ekki raunhæft nema peningar séu ekkert vandamál og þá er ekki flogið til Girona á leið til Barcelóna.

Rútur eru eini raunhæfi valkosturinn beint frá flugvellinum en héðan fara rútur að Barcelona Estacio del Nord stöðinni í norðurhluta Barcelóna. Ferðatíminn er klukkustund og fimmtán mínútur að lágmarki. Stakur miði kostar 1900 krónur.

Til umhugsunar: Ef enginn er asinn er ekki fráleitt eftir leiðigjarnt flug að taka rútu inn í bæinn Girona í 20 kílómetra fjarlægð frá vellinum og gista þar eina nótt eða svo áður en haldið er áfram för. Bærinn er lítill en kósí og vel hægt að eyða þar nokkrum klukkustundum án þess að leiðast.

Þriðji flugvöllurinn sem stundum er auglýstur sem flugvöllur Barcelóna er Reus völlur. Þetta er nánast sveitavöllur og einnig notaður töluvert af lágfargjaldaflugfélögum. Hann er einnig í um hundrað kílómetra fjarlægð frá Barcelona en eina og hálfa klukkustund tekur að fara á milli. Hann er eins og nafnið gefur til kynna í grennd við smábæinn Reus.

Hér er sama uppi á teningnum að aðrir farkostir en rútur eru fokdýrir. Rútur fara reglulega á milli og kostar stakur miði 2000 krónur. Rúturnar enda á Barcelona Sants stöðinni.

Einnig er hægt að fara inn í bæinn Reus með flugskutlu sem fer á milli og taka þaðan lest inn til Barcelóna. Einnig fer strætisvagn 50 beina leið á milli flugvallarins og lestarstöðvarinnar. Prísinn fyrir lestartúrinn er misjafn eftir tíma dags og tegund lestar.

Bílaleigur eru hér líka ef fólk fýsir að aka til Barcelóna eða annað.

Hverfi

Barcelóna er stór og mikil og víða hægt að fara um. Þó standa þessi hverfi upp úr hvað viðkemur lífi og áhugaverðum stöðum:

♥  Barrí Gótic / La Ribera – Gotneska hverfið og gamli borgarhlutinn finnst mörgum mest heillandi við borgina. Tugir veitingahúsi og bara við þröngar en hreinar og sjarmerandi götur og mörg söfn hér líka. Byggingarnar sjálfar hverjar söfn líka. Hér byggðu Rómverjar bæinn Barcino sem seinna varð að borginni.

♥  El Raval – Annar gamall borgarhluti sunnanmegun Römblunar en þessi hefur orðið dálítið útundan þar sem hér voru lengi vel, og eru að einhverjum hluta ennþá, allar verstu knæpur og vændisstaðir borgarinnar. Hér hefur verið gert kraftaverk og þessi hluti eigi mikið síðri en Ribera. Hér má jafnvel finna nýja Römblu; göngugötu sem heitir La Rambla del Raval.

♥  Montjuïc – Gyðingafjallið þýðir nafnið og vísar til grafeits gyðinga sem hér var á miðöldum. Hæðin atarna eitt mesta aðdráttarafl borgarinnar með Ólympíumannvirki sín, útsýni yfir höfnina og fjölmargar stórkostlegar byggingar og söfn.

♥  Barceloneta – Hluti af hafnarsvæði borgarinnar en hannað með þarfir gangandi í huga. Verslunarmiðstöðvar, lystisnekkjuhöfn, Sædýrasafnið og gullin ströndin er ómissandi stopp.

♥  Eixample – Til norðurs frá Ribera er Eixample sem er eðalblanda hins gamla og nýja. Falleg íbúðahverfi steypt saman við fjármálamiðstöð Barcelona og inn á milli gersemar eins og Sagrada Família.

♥  Grácia – Enn ofar í borginni en Eixample er Grácia með sinn yfirmáta skemmtilega Parc Güell svo dæmi sé tekið. Hverfinu tilheyrir einnig Tibidabo hæðin með besta útsýni í borginni.

Samgöngur og snatterí

Barcelóna er stórborg og heimsborg og sem slík með eðalfínt samgöngukerfi. Í boði eru strætisvagnar, sporvagnar eða jarðlestir.

Jarðlestarkerfi borgarinnar er ekki ýkja stórt en dugar afar vel til brúksins og bæði stöðvar og lestirnar sjálfar eru tiltölulega öruggar og hreinar frá morgni til kvölds þó eðlilega skuli alltaf hafa varann á sér seint á kvöldin. Jarðlestakerfið er kannski hvað einfaldast og fljótlegast ekki síst þegar umferð er mikil og það er hún meira eða minna alltaf. Leiðakerfið í heild sinni má sjá hér. Um átta línur er að ræða auk ferjukláfs upp Montjuïc fjalls sem tilheyrir sama kerfi. Stakur miði kostar um 250 krónur. Sé dvalist í nokkra daga eru betri kaup í tíu miða spjaldi sem fæst á stöðvum og í sjoppum.

Sama verð er á farmiðum með strætisvögnum og er það um heilar 120 leiðir að velja. Er það kjörin leið til að átta sig á borginni að rúnta um með slíkum farkosti í klukkustund eða svo. Miðar eru seldir um borð. Sjá má leiðakort á heimasíðu TMB sem er samgöngustofnun borgarinnar. Þar er ennfremur fínn vegvísir ef þú þekkir götunöfn.

Sporvagnar ganga hér líka þó þeir séu næsta eingöngu fyrir ferðamenn. Kallast þeir Tramvía Blau á máli innfæddra og er eðalleið til að fara á milli ef nægur er tíminn. Liggur leið þeirra frá Tibidabo og niður að höfninni og tilbaka. Miðaverð er 480 krónur.

Þá eru hér líka hinir hefðbundnu tveggja hæða ferðamannavagnar sem svo víða finnast. Með þeim má skoða flesta helstu staði borgarinnar á sem stystum tíma. Bus Turístic fer víða og stoppistöðvar vel merktar og eru alls staðar í miðbænum. Allt um það hér.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Í borginni er fullt af fínum söfnum en gallinn er sá að yfir sumarmánuði er troðið í þau velflest og langar biðraðir venja fremur en undantekning. Sé því sérstakur áhugi á listum er kjörið að koma hingað á öðrum tímum en yfir sumarið því þá heyra raðir og bið sögunni til. Þá er líka oftast nær töluvert ódýrara inn á söfnin en ella.

>> Míró safnið (Fundació Miró) – Meðal þekktari listamanna Spánar er án efa Joan Miró sem fæddist hér í Barcelona og ánafnaði töluverðum fjölda verka sinna til borgarinnar við andlát sitt. Hönnun hans og list afskaplega sérkennileg en jafnframt skemmtileg og litir og form úr öllum áttum. Safnið er staðsett í Montjuïc garðinum. Strætisvagnar 50 eða 55 að Montjuïc. Opið 10 – 20 alla daga. Aðgangur 1.500 krónur plús aukagjald ef sérstakar sýningar eru í gangi. Heimasíðan.

>> Heimili Gaudí (Casa Museu Gaudí) – Hafi Miró verið frægur er Antonio Gaudí stórstjarna. Þessi mikli sérvitri byggingameistari ber að mörgu leyti einn síns liðs ábyrgð á að milljónir sækja Barcelona heim ár hvert því byggingar hans eru heimsþekktar og vekja aðdáun velflestra sem augu líta. Ekki ætti að koma á óvart að hann bjó sjálfur í litlum bleikum kastala og hann er nú opinn gestum nákvæmlega eins og hann var þegar Gaudí sjálfur bjó hér og vann. Húsið stendur við innganginn í Parc Güell sem Gaudí hannaði líka og byggði. Jarðlest L3 að Lesseps. Opið 10 – 20 daglega yfir sumartímann en skemur á veturna. Aðgangur 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Picasso safnið (Museu Picasso) – Tiltölulega vel falið í La Ribeira hverfinu er þetta fína safn að finna í hinni þröngu Carret Montcada götu. Listmálarinn frægu eyddi hér töluverðum tíma á sínum yngri árum og verkin hér eru að mestu frá þeim tíma. Ekki hans bestu en gott safn engu að síður. Safnið á korti hér. Jarðlest að Arc de Triomf. Opið 10 – 20 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.

>> Katalónska tónlistarhöllin (Palau de Música Catalana) – Ekki safn í orðsins fyllstu heldur stórglæsilegt tónlistarhús og eitt af táknum borgarinnar. Byggð árið 1908 við Sant Francesc de Paula götu og er klárlega í hópi glæsilegustu tónlistarhalla heims enda á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Stórkostlega að upplifa tónleika hér og mjög oft eitthvað á seyði. Ekki missa heldur af Undrabrunninum, La Font Mágica, sem lýstur er upp yfir sumartímann. Sjálfsagt að skoða höllina þó engir séu tónleikarnir og skoðunarferðir með starfsmann í boði þrisvar á dag fyrir 1.000 krónur. Opnunartími misjafn eftir því hvort eitthvað sé í gangi. Heimasíðan.

>> Barbier-Mueller safnið (Amics del Museu Barnier-Mueller d´Art Precolombí) – Eina safnið í allri Evrópu sem tileinkað er fornum munum frá Suður Ameríku. Munir frá Inkum, Mæjum, Olmekum og Aztekum svo fátt eitt sé nefnt. Safnið sjálft í drungalega en fallegum miðaldarkastala. Ómissandi stopp og ótrúlega margt að sjá, skoða og fræðast um. Jarðlest að Jaime 1.  Opnunartími 11 – 19 alla daga nema mánudaga. Prísinn 850 krónur. Heimasíðan.

>> Grjótnáman (La Pedrera) – Við Passeig de Gracia númer 92 nánar tiltekið er Grjótnáma sem á alls ekkert skylt við grjót né námur. Svo er kallað síðasta íbúðarhús það sem Antoni Gaudí hannaði og byggði áður en hann tileinkaði alla krafta sína að Sagrada Família. Byggingin hefur alfarið verið gerð upp og er vart minna stórkostleg og önnur verk þessa framúrstefnulega hönnuðar. Einnig þekkt sem Casa Milá. Þar gefst gestum færi að heimsækja safn tileinkað Gaudí og byggingu hússins sem sannarlega er völundarsmíð. Þá er á toppnum rekinn bar yfir sumartímann, La Padrera de Nit, þar sem þjóðráð er að velta tilgangi lífsins fyrir sér. Barinn er lítill og þétt setinn og nauðsynlegt að panta borð þar með fyrirvara. Símanúmerið er 902 10 12 12. Jarðlest að Diagonal. Safnið opið daglega milli 10 og 18 en barinn frameftir kvöldi.

>> Þjóðarlistasafnið (Museu Nacional d´Art de Catalunya) – Í tignarlegri byggingu skammt frá Ólympíuleikvanginum er hið stórkostlega Þjóðarlistasafni Katalóna en það er af flestum talið besta listasafn Katalóníu og þótt víðar væri leitað. Meginhluti safnsins samanstendur af verkum frá miðöldum en margir helstu meistarar koma við sögu eins og Goya og Zurbarbán. Jarðlest að Espanya. Opið 10 til 19 daglega. Aðgangur 1400 krónur en frítt fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Heimasíðan.

>> Nýlistasafnið (Museu d´Art Contemporani) – Annað stórglæsilegt listasafn en þetta tileinkað nútímalist í allri sinni mynd. Stórt safn sem þarf góðan tíma sé hugmyndin að skoða í þaula. Fjölbreyttar tímabundnar sýningar algengar. Jarðlest að Catalunya. Opið 11 til 19:30.  Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Sögusafnið (Museu d´Historia de Barcelona) – Þetta safn er stórmerkilegt enda neðanjarðar undir Plaça del Rei torginu. Hér má sjá í návígi leifar rómversks þorps sem hér stóð á sínum tíma. Afar forvitnilegt. Jarðlest að Catalunya. Opið daglega 10 – 20. Aðgangur 1300 krónur. Heimasíðan.

>> Güell garður (Parc Güell) – Stór almenningsgarður á Carmel hæð í Grácia hverfi borgarinnar skreyttur af mikilli snilld af hinum óviðjafnanlega Antoni Gaudí. Staðurinn er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og ekki af ástæðulausu. Bekkir, byggingar og skreytingar a lá Gaudí út um allan garð.  Mosaíkmyndir hafa aldrei litið svona vel út. Garðurinn er nefndur eftir gömlum greifa sem hér vildi reisa mikla íbúðabyggð á sínum tíma. Sá hét Güell og varð ekki kápan úr því klæðinu. Í garðinum er að finna heimili Gaudís og það hægt að skoða gegn gjaldi. Það er þess virði. Aðgangur er annars 1.100 krónur en ókeypis aðgangur á kvöldin og stórfínt útsýni yfir borgina.

>> Sagrada kirkjan (Temple Expiatore de la Sagrada Família) – Allra þekktasta tákn Barcelóna og vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar er þetta stórvirki eftir snillinginn Gaudí sem vart hreyfði legg né lið án þess að snilld fylgdi í kjölfarið. Staðsett í Eixample hverfi borgarinnar eins og fleiri framandleg verk Gaudí. Langfremst þar í flokki hin stórkostlega kirkja Sagrada Familia sem enn er verið að byggja þrátt fyrir að fyrsta skóflustunga hafi verið tekin árið 1882. Ástæða þess hve hægt gengur að klára þetta mikilfenglega guðshús er að kirkjan er byggð alfarið með framlögum almennings og hefur verið það frá upphafi. Sjálfur vildi Gaudí ekki sjá annað. Hún átti að vera kirkja fólksins og endurspegla það öllum stundum. Og kirkjan er listaverk frá A til Ö. Alltof margir láta nægja að fara upp í turna hennar og skoða borgina en rölti maður rólega um má hvarvetna sjá smáatriði sem nostrað hefur verið við af ótrúlegri natni. Þessi kirkja er listaverk í orðsins fyllstu. Gestir geta rölt um kirkjuhúsið sjálft og í kjallara er grafhýsi og safn sem fróðlegt er að líta augum líka. Útsýn úr turnunum er stórkostlegt en þangað er aðeins komist með lyftu nú til dags. Jarðlest að Sagrada Família. Opið 9 – 20 daglega. Aðgangseyrir er 2.400 krónur. Heimasíðan. Sjá nánar um Gaudí hér.

>> Nývangur (Nou Camp) – Einn stærsti knattspyrnuleikvangur heims og heimavöllur hins heimsþekkta liðs Barcelóna vekur mikla athygli ferðamanna. Ef möguleiki er að fara á leik skal ekki sleppa því tækifæri. Það er sönn upplifun jafnvel hörðustu andstæðingum fótbolta. Sé ekkert slíkt í boði er ekki amalegt að skoða stórkostlegan leikvanginn en slíkar ferðir eru í boði og ekki er dapurlegra að skoða sögusafn liðsins. Jarðlest að Maria Cristina. Opið alla daga nema sunnudaga milli 10 og 20 en getur breyst meðan á leiktíð stendur. Skoðunarferð og aðgöngumiði að safninu kostar 3.300 krónur. Heimasíðan.

>> Ramblan (La Rambla) – Ein frægasta gata Evrópu er Ramblan sem svo margir Íslendingar þekkja og vart farið um borgina án þess að rata þangað viljandi eða óviljandi. Fjöldi fólks, fjöldi viðburða, fjöldi sölumanna nánast öllum stundum en hafa ber í huga að verðlag hér gerist ekki hærra í allri borginni. Hafa skal í huga að heimamenn sjálfir tala um Römblurnar í fleirtölu. Það skýrist af því að Ramblan samanstendur af fimm götum.

>> Tibidabo hæð (Tibidabo) – Hæsti tindurinn á hæðagarði þeim er lokar borginni til vesturs er Tibidabo. Þangað fer lest reglulega og þaðan er án efa besta útsýn á þessum slóðum yfir borgina og langt á haf út. Tibidabo er 542 metra hár og þar er margt annað að sjá en aðeins útsýnið. Tvær kirkjur eru hér, þar af önnur svar Barcelona við Sacre Coeur í París. Efst á henni er líkneski af Jesú Kristi. Útsýnispallur 115 metrum hærri en hæðin sjálf er hér ef lofthræðsla er ekki vandamál og síðast en ekki síst er hér skemmtigarðurinn Parc d´Atraccions sem býður upp á tæki og tól sem annaðhvort gleðja börn á öllum aldri eða hræða börn á öllum aldri. Það er þó ekki ókeypis að njóta því aðgangseyrir er 4.500 krónur. Eini sporvagn borgarinnar flytur fólk hálfa leið upp á toppinn gegnum dýrasta hverfi borgarinnar þar sem allir sem eitthvað eru búa. Þaðan er lest upp á toppinn.

>> Montjuïc hæð (Montjuïc) – Önnur merkileg hæð í borginni en þessi hins vegar í suðurhluta borgarinnar. Hér má til að mynda sjá þau mannvirki sem byggð voru fyrir Ólympíuleikana í Barcelona árið 1982 þar á meðan Ólympíuleikvanginn sjálfan. Á þessum slóðum eru nokkur ágæt smærri listasöfn og Joan Miró garðurinn sem er ekki síðri að heimsækja en Parc Güell.

>> Gotneski hlutinn (Barri Gótic) – Elsti borgarhluti Barcelona er Barri Gotic í norðurátt frá Römblunni. Þröngar götur, gömul hús og fjöldi smærri veitingastaða og bara auk mikils lífs skapa hér frábæra stemmningu daginn út og inn. Hér er stuð velflest kvöld ef sá gállinn er á fólki.

>> Dómkirkjan (Catedral de Santa Eululia de Barcelona) – Þessi dómkirkja er mikil smíð og stendur á eðalstað í miðborginni í Barri Gótic hverfinu við Plaça de la Seu torgið. Fallegust er hún að utan en áhugasamir ættu að kíkja inn enda ekki mikið síðri tilfinning. Þar fyrir miðju hvílir fyrsti verndardýrlingur borgarinnar; heilög Eululia. Jarðlest að Liceu. Opið daglega 8 til 19:30. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Borgargarðurinn (Parc de la Ciutadella) – Stærsti almenningsgarður borgarinnar finnst í Barri Gótic. Fallegur og yndislegur á alla kanta og hér er gamall kastali og lítið vatn þar sem gestum gefst kostur á að leigja sér árabáta. Þá eru hér margir merkilegir skúlptúrar meðal annars eftir mjög ungan Antoní Gaudí. Hér finnst ennfremur Þinghús Barcelona og dýragarður borgarinnar sem er með þeim betri í heiminum. Opinn 10 – 20 daglega. Jarðlest að Arc de Triomf.

>> Kólumbus minnismerkið (Monumento a Colón) – Við enda Römblunnar nálægt hafnarsvæðinu er að finna 60 metra hátt minnismerki um landkönnuðinn fræga Kristófer Kólumbus. Borgarbúar eigna sér hluta í karlinum enda kom hann hingað fyrst að lokinni ferð hans þar sem hann fann nýja landið í vestri.

>> Súkkulaðisafnið (Museu de la Xocolata)  –  Hversu vel á það við að taka túr um súkkulaðisafn í Barcelóna? Það eru þó örlitlar ýkjur að kalla þetta safn þó hér megi vissulega sjá ýmsa hluti tengdum súkkulaði og súkkulaðigerð. En hér er aðaláherslan á námskeiðshald. Hér getur hver sem er fengið styttri námskeið í súkkulaðigerð. Allt frá nokkkrum klukkustundum og upp í nokkra daga á viðamestu námskeiðunum. Hér er til dæmis boðið upp á tveggja stunda pakkaferð um verksmiðjuna þar sem fólk fær að vita allt um kakó, kakóbaunir, súkkulaðigerð og tegundir og síðast en ekki síst hvernig mismunandi afbrigði súkkulaðis eru framleidd. Þetta er skemmtilega öðruvísi en margt annað hér í kring. Nauðsynlegt er að panta með góðum fyrirvara bæði túra og námskeið á vefnum. Tveggja tíma námskeiðstúri fyrir tvo fullorðna kostar 9.000 krónur. Aðgengi á safnið sjálft er 800 krónur. Opið 10 til 20 virka daga og 10 til 15 um helgar. Carrer Comerç. Jarðlest L4 að Jaume I. Heimasíðan.

>> Bönkerinn (Refugio 307)  –  Á vegum Borgarminjasafns Barcelóna er rekið sérstakt safn eitt við Carrer Nou de la Rambla götuna. Það er Refugio 307 sem er ekkert annað en 400 metra löng undirgöng við þá götu. Undirgöng sem notuð voru í spænsku borgarastyrjöldinni þegar hér lentu sprengjur í tonnavís. Slík göng finnast víða um alla borg en þetta er hið eina sem ferðafólk má skoða og kynna sér. Hér er aðeins í boði að skoða á eigin spýtur um helgar og aðeins þrjár ferðir á dag: 10:30, 11:30 og 12:30. Undantekningarlaust skal panta miða með fyrirvara. Metro að Paral el. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Borgin morar af skemmtilegum verslunum en hafa ber í huga að til að gera virkilega góð kaup í Barcelóna er nauðsynlegt að yfirgefa Römbluna. Ef frá er talinn markaður Heilags Jósefs, Mercat de Sant Josep, ofarlega á Römblunni eru verslunarmenn við þá götu gjarnir á að leggja extra ofan á verðin.

Sé tíminn fyrir hendi er hægt að finna hundruðir skemmtilegra smærri verslana víðs vegar í borginni og spara þannig töluvert fé sé hugmyndin að versla.

Séu peningar í buddunni er úrvalið óvíða meira en í El Corte Inglés við Plaça de Catalunya og afþreyingarmiðstöðin FNAC er þar líka. Mesta úrval smærri en jafnframt góðra verslana er við Avinguda Diagonal og Passeig de Grácia.

Nóg er annars af skemmtilegum mörkuðum í borginni sem lita þessa litríku borg enn skærari litum. Auðvelt er að fylla matarkistuna eftir ferð á Sant Antoni markaðinn, jarðlest að Sant Antoni, þar sem allt er ferskt og flott og lítið er af ferðamönnum. Við Placa di Pi, jarðlest að Liceu, fyrsta föstudag og laugardag hvern mánuð koma saman bændur utan af landi og selja lífrænt ræktaðar vörur sínar milliliðalaust. Má þar finna ýmislegt sem fyllir vit og angan og maga ef svo ber undir. Nokkrir listamenn úr borginni koma jafnan saman við Placa de Sant Josep Oriol, jarðlest að Liceu, um helgar og selja verk sín. Tveir eru flóamarkaðirnir. Annar á sunnudögum á Placa Reial, jarðlest að Liceu, en hinn stærri á miðviku-, föstu- og laugardögum á Placa de las Glories de Catalanes, jarðlest að Glories. Á báðum má finna allt milli himins og jarðar til sölu. Þá eru og merkilegir jólamarkaðir í borginni í desember.

Ólíkt verslunareigendum hér á okkar ylhýra eru útsölur í Barcelóna sannkallaðar útsölur og ekki óalgengt að lágmarksafsláttur sé 30 – 40 % og alveg upp í 70% af venjulegu verði og það strax á fyrsta degi. Útsölurnar hefjast í byrjun júlí og standa fram í ágúst.Það fer vart framhjá neinum ef útsala er í gangi en sé efi til staðar ætti að sjást í skilti merkt Rebajas eða Rabaixas.

Engar stærri outlet-verslanir eru í borginni sjálfri en finna má slíkar verslanir undir einu þaki í La Roca Village í tæplega 40 mínútna fjarlægð frá borginni. Allar upplýsingar um staðinn og hvernig þangað skal komast má finna á heimasíðu þeirra hér.

Djamm og djúserí

Barcelóna er aðeins eftirbátur Sevilla og Madrid hvað viðkemur fjölda kaffi- og veitingahúsa og bara og skemmtistaða. Þeir eru bókstaflega út um allt. Barri Gótic er afar lifandi þegar degi fer að halla og sömu sögu má segja um hafnarsvæðið Barceloneta. Varla þarf að minnast á Römbluna sem iðar 24 tíma á dag nánast allan ársins hring sem og torgin tvö; Plaça Espanya og Plaça Catalunya. Óhrædd að valsa um því góðir barir finnast á ólíklegustu stöðum.

Klúbbar og skemmtistaðir poppa hér upp og niður eins og gorkúlur en stöku staðir virðast viðhalda fínum stemmara árum saman. Þeir helstu eru:

♥  Mirablau

♥  Otto Zutz

♥  Jamboree

Matur og mjöður

Enginn verður svangur hér nema buddan sé tóm. Smáréttastaðir, tapas, finnast um alla borg og sama má segja um þessa hefðbundnu skyndibitastaði sem allir þekkja.

Verðlag er almennt sæmilegt þrátt fyrir sorglega krónu. Kvöldverður á ágætum stað með víni kostar varla meira en 3 til 5000 krónur.

Fararheill.is hefur það sem markmið að mæla ekki sérstaklega með einum eða neinum matsölustöðum enda bragðskyn fólks mismunandi. Fyrir vandláta eru þó hér fimm veitingastaðir sem ár eftir ár fá fínustu dóma

♥  Els Pescadors

♥  El Bulli

♥  Via Veneto

♥  El Celler de Can Roca

♥  Comerç24

Líf og limir

Hættur eru litlar í Barcelóna almennt en ferðamenn eru þó skotmörk þjófa hér sem annars staðar. Ramblan er nokkuð illræmd fyrir fjölda þeirra enda margt sem glepur augu ferðalanga og þá er auðveldast að læða lófa í vasa. Gott ráð er að vera alls ekki með neitt í vösum við Römbluna og sérstaklega ekki eftir að kvölda tekur.

Hafa skal augun hjá sér þegar farið er yfir götur. Bílstjórar hér eru töluvert annars hugar margir og ákeyrslur algengar. Gefðu þér að bílstjórarnir eigi réttinn þó svo sé í raun ekki.

Þá skal hafa eigur sínar kyrfilega hjá sér á lestar- og rútustöðvum borgarinnar. Bæði við Barcelona Sants og Barcelona de Nord stöðvarnar er að finna fólk sem hefur skrifað utan á sér að það sé að bíða tækifæris til að stela og hlaupa brott.

View Larger Map