Skip to main content

Nákvæmlega þriggja stunda seinkun á flugi Icelandair frá Gatwick til Keflavíkur þennan daginn eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti. Hver einasti farþegi um borð gæti átt rétt á hreint ágætum bótum.

Við segjum „gæti” sökum þess að svo virðist sem rellan atarna hafi lent í Keflavík nákvæmlega 180 mínútum á eftir áætlun. Áætlun gerði ráð fyrir að lent yrði frá London klukkan 15.10 í dag en raunin varð að lent var klukkan 18.10 samkvæmt vef Ísavía.

Samkvæmt Evrópulögum eiga flugfarþegar bótakröfu á flugfélag þegar um meira en þriggja stunda töf er að ræða en fá ekki krónu ef töfin er innan við þrjár stundir.

Nú er það svo að það eru flugfélögin sjálf sem mata Keflavíkurflugvöll á komu- og brottfarartímum. Með tilliti til þess að Icelandair vill ábyggilega eyða sem minnstum fjármunum í bætur er ekki fráleitt að ætla að rellan hafi mögulega lent klukkan 18.12. Flugfélagið bara gefið Ísavía aðeins ýktar tölur með það að markmiði að snupra farþega sína um hugsanlegar bætur. Bótum sem nema tæplega 53 þúsund krónum á hvern kjaft um borð!

Sjálfsagt að láta reyna á bótakröfu með skeyti til Icelandair og svo til Samgöngustofu ef flugfélagið er ósamvinnuþýtt. Að okkar mati eru líkurnar meiri en minni að farþegarnir eigi inni feita seðla.