Nafnið Ericeira klingir líklega ekki mörgum bjöllum hjá Íslendingum enda aldrei verið boðið upp á ferðir þangað að hálfu íslenskra ferðaskrifstofa. Annað gildir um ferðaskrifstofur annars staðar í Evrópu og bærinn atarna er nú að verða sérstaklega frægur fyrir eðal öldugang sem svifbrettakappar lofa í hástert. Munu alls vera í grennd við bæinn einar 40 mismunandi strendur þar sem öldugangur þykir því sem næst fyrsta flokks til brettaleikja.
Ýmsir staðir í Portúgal eru almennt taldir meðal þeirra allra bestu í Evrópu til svifbrettasiglinga og er þar fremstur meðal jafningja bærinn Sagres á suðvesturodda landsins. En Ericeira er staðsett öllu ofar á kortinu en Sagres eða um tæplega klukkustundar akstur til norðurs frá Lissabon.
Fyrir þá sem ekki telja ýkja göfugt né merkilegt að planta rassi á svifbretti og bíða eftir stórum öldum til að leika sér er bærinn þó fínt stopp. Ekki síst fyrir þær sakir að ferðamennska er tiltölulega ný útgerð hér og því enn hægt að upplifa bæinn sem lítinn og að langmestu leyti óbreyttan fiskimannabæ. Það er meira en margir staðir í Portúgal geta státað af.
Hann er þó ekki nógu stór né fjölbreyttur til að sinna þörfum ferðalanga sem ekki hafa nennu til að marinerast í sandi og sól frá átta á morgnana til kvölds. En dagur eða tveir hér á ferð um landið er fyrirtak.
Til og frá
Til Ericeira er aðeins komist bílandi. Hingað fara engar lestir né flugvélar og því einfaldast að fljúga til hinnar skemmtilegu Lissabon og annaðhvort leigja bíl eða taka rútu. Túr hingað með rútu aðra leiðina kostar á mann um 1.600 krónur.
Söfn og sjónarspil
Ericeira státar ekki af mörgum merkilegum minjum þó bærinn hafi verið stofnsettur á tólftu öld. Heillandi eru hér, sem annars staðar í svo gömlum bæjum, þröngar og litríkar götur en vegna þess að túrismi, að frátöldum svifbrettahnökkum, hefur ekki enn tekið yfir allt eru hér fá söfn eða aðrir þeir staðir sem reyna að höfða sérstaklega til ferðafólks.
Þrjár strendur norður af bænum eru á sérstökum lista Alþjóðasamtaka svifbrettakappa. Þykja þeir þrír staðir svo merkilegir og mikilvægir fyrir þann hóp fólks að lögð er sérstök áhersla á að vernda þá eins og kostur er. Aðeins tveir staðir í heiminum hafa hlotið þann heiður meðal svifkappanna; Ericeira og Malibu í Kaliforníu.
Sem fiskimannabær verður enginn svikinn af því að setjast inn í einn af yfir 30 sjávarréttastöðum í bænum. Þeir eru flestir hverjir „alvöru“ og ekki eingöngu opnaðir vegna ferðamannastraumsins.
Hafi einhver hug á að læra brettaiðkun af alvöru eru hér nú yfir 30 brettaskólar og til marks um hversu Ericeira er merkilegur í huga brimbrettafólks nægir líklega að geta þess að stærsta verslun Quiksilver brettaframleiðandans í heiminum í staðsett í þessum smábæ.
Verslun og viðskipti
Sé það ekki tengt brimbrettum er ekki mikið að versla hér í bæ. Nær lagi er að gera kaupin í Lissabon þar sem úrval er feykigott og verðlag ekki mikið hærra en annars staðar í landinu.
Líf og limir
Alles gut hér í bæ. Stöku veskjaþjófar inn á milli og kæruleysi mun kosta sitt eins og annars staðar.
Annars er líklega hættulegast að buslast á bretti fyrir ströndum Ericeira. Sumar strendurnar eru ansi klettóttar og því stórhættulegar fari fólk of nálægt. Ráð er fyrir óvana að skella sér rakleitt á námskeið áður en bretti er keypt eða leigt og látið góssa.
View Ericeira í Portúgal in a larger map