Óhætt er að segja að enginn skortur er á vefmiðlum þarna úti sem streitast við að hjálpa ferðafólki að finna mestu og bestu hótel og gististaði erlendis. TripAdvisor þar langstærst allra en nú gæti verið kominn fram alvarlegur nýr keppinautur.
TripExpert heitir sá og gengur út á að hjálpa fólki að finna réttu gistinguna rétt eins og TripAdvisor. Munurinn hins vegar sá að þessi nýi sýnir ekki hvað notendum finnst um þennan og hinn gististaðinn heldur aðeins hvaða álit ferðasérfræðingar hafa á viðkomandi stöðum. Þeir draga sem sagt saman álit ferðamiðla og stórra dagblaða í stað einstaklinga.
Einhver kann að spyrja hvers vegna það eigi að heita betri upplýsingar en hjá TripAdvisor til dæmis.
Meginástæðan kannski sú að enginn veit hversu mikið er hægt að treysta á álit fólks á TripAdvisor. Vel þekktir eru aðilar sem sérhæfa sig í að bjóða hótelum og gististöðum þá þjónustu að gefa góðar einkunnir gegn greiðslu eða gefa samkeppnisaðilum slæma útreið og það einnig gegn greiðslu. Vel þekkt einnig eru fyrsta flokks einkunnir sem koma frá starfsfólki sjálfu.
TripAdvisor hefur reynt að vinna bug á slíku til dæmis með því að hafna einkunnum þeirra sem ekki geta sannað að þeir hafi raunverulega gist á þeim stað sem þeir gagnrýna. Það hefur gengið upp og niður og óvíst hvort það gengur til lengdar enda kallar það á meiri vinnu af hálfu almennings og hótelanna sjálfra og upphaflega hugmyndin með TripAdvisor var að gera fólki kleift að gefa sitt álit fljótt og örugglega.
Vant ferðafólk notar gjarnan þá aðferð að taka út allra bestu og allra verstu einkunnir hótels eða gististaðar og þannig draga ályktun um gæðin. Sem er ágæt aðferð en það er Krísuvíkurleið sem tekur tíma og tími eitt það dýrmætasta sem við eigum.
Kannski tekst TripExpert að koma við kaunin á TripAdvisor sem margir gagnrýna líka fyrir stærð en fyrirtækið ber höfuð og herðar yfir aðra slíkar einkunnasíður og er hægt og bítandi að kaupa upp hugsanlega samkeppnisaðila svo lítið beri á.
Svo er hitt hvort almenningur ætti fremur að treysta ferðablaðamönnum New York Times, Lonely Planet, Fodor´s, Condé Nast eða Times þegar kemur að hótelum. Það er jú ekki óþekkt að hægt er að kaupa betri umfjöllun hjá rislitlum blaðamönnum og margir fá þeir alla þjónustu algjörlega ókeypis líka.