Skip to main content
Tíðindi

Er að marka stjörnugjöf ferðaskrifstofa?

  11/02/2012desember 23rd, 2014No Comments

Það er dálítið merkilegt að íslenskar ferðaskrifstofur virðast lítt hirða um að færa rök fyrir stjörnugjöf sinni á þeim hótelum sem ferðaskrifstofurnar bjóða í pakkaferðum sínum. Leit ritstjórnar í bæklingum og á heimasíðum flestra leiða ekkert í ljós hvernig ferðaskrifstofurnar kveða upp dóm sinn um ágæti gististaða sinna.

Slíkt þykir sjálfsagt meðal erlendra ferðaskrifstofa sem margar hverjar gefa sína eigin einkunn og lætur nærri að gististaðirnir fá flestir betri einkunn en verri enda vandséð að hótel sem fær ekki góða umsögn vilji eiga viðskipti við viðkomandi ferðaskrifstofu.

Þess vegna eru hótelvefir á borð við Tripadvisor og fleiri slíkir mikilvægir en þar eru það notendur þjónustunnar sem gefa einkunn sína. Getur enda skipt verulegu máli hvort hótel og þjónusta er í lagi ef njóta á ferðalags á erlendri grundu.

En eru þær íslensku að ýkja mikið eða reyna þær að gefa virkilega réttar upplýsingar?

Ritstjórn Fararheill.is tók nokkrar handahófskenndar stikkprufur á heimasíðum íslenskra ferðaskrifstofa og bar saman við umsagnir ferðalanga sem prófað hafa viðkomandi gististaði og látið álit sitt í ljós á vef Tripadvisor.

Heimsferðir brúka sólarstjörnur til að meta gististaði. Best eru fimm sólir.

Mallorca / Cala d´Or / Club Martha´s  >> Íbúðahótel Mörtu á Mallorca fær rúmlega meðallagseinkunn eða þrjár og hálfa sól hjá Heimsferðum en þó segir í texta um hótelið atarna að það sé „frábær valkostur sem býður einstaka umgjörð.“ Ætti ekki frábær valkostur með einstakri umgjörð að fá fimm sólir?  Á vef Tripadvisor fær hótelið fína einkunn eða fjórar stjörnur af fimm.

Tenerife / Playa de las Americas / Bahia Principe  >> Þetta er með betri hótelum sem Heimsferðir bjóða viðskiptavinum sínum á Tenerife. Fjórar og hálfa sól fær þessi staður hjá matsmönnum Heimsferða og sömu einkunn hjá ferðalöngum á vef Tripadvisor.

Benidorm / Levante / Buenavista  >>  Ódýrt íbúðahótel við Levante ströndina á Benídorm. Heimsferðir gefa þessu hóteli þrjár sólir eða rétt yfir meðallagi meðan notendur vefs Tripadvisor gefa því einnig þrjá stjörnur.

Vita Ferðir notast við stjörnur og fimm stjörnur þar besta einkunn.

Gran Canaria / Mogan / Cordial Mogan Valle  >>  Matsmaður Vita á Kanaríeyjum er harður í horn að taka. Hér fær Cordial Mogan Valle aðeins þrjár stjörnur af fimm mögulegum. Þeir sem prófað hafa og tjá sig á vef Tripadvisor gefa þessu hóteli næstum fullt hús eða fjórar og hálfa stjörnu.

Bodrum / Turgutreis / Armonia  >>  Hvað ritstjórn Fararheill viðkemur minnir þetta nafn töluvert á ammoníak en það er önnur saga. Vita ferðir gefa þessu hóteli fullt hús eða fimm stjörnur. Notendur eru hrifnir en ekki jafn mikið og Vitamenn. Fær þetta fjórar og hálfa stjörnu samkvæmt vef Tripadvisor.

Algarve / Guia / Grande Hotel Salgados  >>  Vita ferðir hafa kynnt duglega ferðir sínar til Portúgal og gefa gististöðum sínum þar fullt hús. Sama gera notendur á vef Tripadvisor.

Sumarferðir notast eins og aðrir við stjörnugjöf þar sem fimman er toppurinn

Almería / Roquetas de Mar /Mediterraneo Park  >>  Þetta hótel nálægt ströndinni í Roquetas de Mar fær fjóra í einkunn hjá Sumarferðum. Umsagnir ferðalanga eru aðeins lakari eða þrjár og hálf stjarna á vef Tripadvisor.

Mallorca / Alcudia / Apartamentos Solecito  >> Þriggja stjörnu hótel samkvæmt bókum Sumarferðafólks en notendur eru því ósammála og gefa þessum hótelíbúðum heilar fjórar stjörnur á vef Tripadvisor

Gran Canaria / Maspalomas / H10 Playa Meloneras Palace  >>  Stórglæsilegt hótel sem slegið hefur í gegn segir á vef Sumarferða sem eru ekki í vandræðum með fimm stjörnur hér. Þeir sem prófað hafa eru ekki jafn yfir sig hrifnir og fær H1ö aðeins þrjár og hálfa stjörnu hjá Tripadvisor.

Úrval Útsýn brúka sömuleiðis stjörnur og ekkert er betra en fimm þar á bæ

Costa Blanca / Albir / Albir Playa  >>  Fjórar stjörnur fær þetta hótel í smábænum Albir skammt frá Benídorm samkvæmt vef ÚÚ. Þeirri einkunn eru notendur á vef Tripadvisor sammála.

Tenerife / Playa de las Americas / Hotel Bitacora  >>  Opinberlega fjögurra stjörnu hótel og stendur undir því bæði hjá matsmönnum Úrval Útsýn sem og notendum á vef Tripadvisor.

Gran Canaria / Playa del Ingles / Sol Barbacan  >> Þetta gamalkunna hótel þekkja margir Íslendingar af góðu einu og undir það tekur Úrval Útsýn sem veitir fjórar stjörnur hér. Umsagnir á vef Tripadvisor eru á sömu lund.

Niðurstaðan er því að treysta má stjörnugjöf íslenskra ferðaskrifstofa. Vera má að þær notist sjálfar við Tripadvisor við val sitt á hótelum og það útskýri hvers vegna stjörnugjöf þeirra íslensku er að mestu leyti keimlík umsögnum notenda.