Seljalandsfoss er svo gærdags. Svo ekki sé talað um Dómkirkjuna. Brúðkaup þar jafn algeng og bleyjur á börnum. En hvernig hljómar að pússa sig saman í hinu magnaða rómverska hringleikahúsi Coliseum?

Hér geta áhugasamir líklega gift sig með pompi í framtíðinni. Mynd vgm8383

Hér geta áhugasamir líklega gift sig með pompi í framtíðinni. Mynd vgm8383

Það verður brátt hægt því borgaryfirvöld í bláfátækri Rómarborg hafa samþykkt að leyfa giftingar inni í hringleikahúsinu.

Þessi ákvörðun er ekki tekin af léttúð þó reyndar ítalskir pólitíkusar hafi almennt gegnum tíðina ekki sett margt fyrir sig þegar kemur að ákvarðanatöku. Rómarborg er á bólakafi í skuldum og borgarráðsmenn íhuga nú allar hugsanlegar leiðir til að fá peninga í kassann.

Vitað er að áhugi fólks að setja hring á fingur í Coliseum er mikill enda hringleikahúsið heimsþekkt og glæsilegt ennþá. Það er heldur ekki eini heimsfrægi staðurinn í Róm sem opnaður verður fyrir athafnir á borð við brúðkaup. Ólympíuleikvangurinn kemur líka til greina að sögn ítalskra fjölmiðla og einnig hefur Pantheon komið til tals þó það þyki reyndar of mikið af því góða.

Ekki hafa neinar upphæðir verið nefndar en gera má ráð fyrir að ekki verði á allra færi að segja já við maka sinn í Coliseum. Líklega aðeins þeirra efnaðri.

Sérstaklega eftirminnilegt að gifta sig á leikvangi þar sem blóð tugþúsunda litar grunn byggingarinnar. Eins og gifting sé ekki alltaf eftirminnileg þó fram fari í tjaldi á Kópaskeri…