Tíðindi

Ekki láta fara svona með ykkur gott fólk!

  12/01/2015No Comments

Eitt er það sérstaklega sem við hjá Fararheill höfum aftur og aftur og aftur ítrekað sem er að standa á rétti sínum og það fast og vel og lengi. Láta ekki vaða yfir sig á grútskítugum stígvélum.

Kvörtun á vef Wow Air

Kvörtun á vef Wow Air

Við vitum að það er raunin og hefur verið lengi. Við vitum það vegna þess að þrátt fyrir talsverðar tafir, niðurfellingar, tjón og ýmislegt annað sem miður hefur farið í flug- og pakkaferðum árlega eru fáránlega fáir sem leita réttar síns hjá þeirri stofnun sem sérstaklega tekur slíkt að sér. Meðalfjöldi kvartana til Samgöngustofu árlega síðustu árin hefur kannski verið kringum 30 til 40. Hluti kvartana kemur erlendis frá svo slá má föstu að landinn sækir næstum aldrei rétt sinn því við ferðumst velflest að minnsta kosti einu sinni á ári og mörg okkar oftar en það.

Íslendingar eru ekki einir um þetta undarlega háttalag að bera sig ekki eftir rétti sínum. Fyrirtækið Flightright sem sérhæfir sig í bótakröfum til handa flugfarþegum tilkynnti nýlega að flugfélög hefðu sloppið við greiðslu rúmlega ellefu milljarða króna til farþega sem ekki sóttu skaðabætur bara á síðasta ári.

Fyrr í dag vorum við minnt á þetta á nýjan leik þegar við rákumst á meðfylgjandi meldingu á fésbókarvef Wow Air. Flugfélagið hefur fellt niður allnokkrar áætlunarferðir sínar til London með það litlum fyrirvara að einhverjir sem bókað höfðu komu af fjöllum. Þessi umrædda ferð að mestu fyrir bí.

Nú höfum við ekki allar upplýsingar um þetta ákveðna mál og fáum ekki enda Fararheill lengi verið í straffi hjá hinu fyrrverandi flugfélagi fólksins. Fyrirtækið þolir illa gagnrýni.

En af skilaboðunum má lesa að umræddur viðskiptavinur Wow Air sem fær að vita með litlum eða engum fyrirvara að ekkert verði af flugi fær heldur ekki afslátt né fjármuni upp í hótelkostnað. Þaðan af síður fékk viðkomandi samband við yfirmann. Sem sagt raunverulegt WOW móment hjá þessum viðskiptavini hvers draumaferð er runnin út í sand. Afar smekkleg þjónusta.

Réttur farþega er æði sterkur

Neytendalög segja að í tilfellum sem þessum eigi fólk ákveðinn rétt á endurgreiðslu og/eða skaðabótum ef flugi er aflýst minna en tveimur vikum fyrir brottför. Það hangir þó á því að flugfélaginu takist ekki að koma viðkomandi á áfangastað með öðrum hætti og eigi síðar en fjórum klukkustundum eftir að lenda átti samkvæmt upprunalegri bókun. Sé aflýsing tilkynnt með meiri fyrirvara falla hugsanlegar bætur niður. Nánar hér.

Ómögulegt er að segja til um hvort það er raunin hér. Samkvæmt viðkomandi tapast hálfur dagur með því að fara aðra leið á áfangastað. Hálfur dagur gæti legið milli sex til tólf klukkustunda og sé það rétt á viðkomandi að öllum líkindum rétt á bótum að upphæð 400 evrur á mann. Þær eru þrjár saman svo bætur nema þá alls 1200 evrum eða 185 þúsund íslenskum krónum.

Umræddur aðili á því rétt á ferð sinni áfram, líklega mat og drykk í Kaupmannahöfn meðan beðið er plús skaðabæturnar. Að því gefnu að tilkynningin hafi borist með minna en tveggja vikna fyrirvara og þær nái ekki til London á umræddum fjórum stundum frá upphaflegri áætlun.

Að síðustu er ágætt að hafa í huga að Wow Air mótmælti öllum kvörtunum til Samgöngustofu á liðnu ári en tapaði í öll skiptin eins og lesa má um hér. Það háttalag minnir um margt á annað flugfélag sem hér var starfandi lengi og hvers eigandi var Pálmi nokkur Haraldsson sem einnig rekur Úrval Útsýn og fleiri ferðaskrifstofur. Það flugfélag hafnaði líka velflestum kröfum um margra ára skeið en tapaði þeim undantekningarlítið.