Eitt af því sem kemur öllum á óvart sem lesa sér til um hina ágætu skosku Edinborg er sú staðreynd að hvergi á Bretlandseyjum að London frátalinni er meiri velmegun en í Edinborg. Atvinnuleysi hér hefur um árabil verið eitt hið minnsta í landinu og meðallaun íbúa aðeins rétt undir því sem gerist í London.

Það er næstum samdóma álit þeirra sem þangað hafa farið og ekki síður þeirra sem þar hafa dvalið um lengri eða skemmri tíma að Edinborg sé vel yfir meðallagi hvað borgir varðar. Þar fara fram árlega hver frábæra hátíðin á fætur annarri og andi vonleysis og grárrar steypu sem sumir verða varir við í Glasgow til að mynda fyrirfinnst ekki hér.

Edinborg er miðstöð stjórnmála í Skotlandi og hér situr skoska þingið. Hún er líka önnur stærsta borg Skotlands en hefur það framyfir velflestar aðrar að lega borgarinnar við skorótta Forth klettaströndina á suðausturströnd landsins gerir hana afskaplega heillandi úr fjarska.

Edinborg hlaut á miðöldum nafngiftina Aþena norðursins og síðan þá hefur borgin ekkert versnað. Hér eru fjölmargar fagrar byggingar og minnismerki og bæði gamli bærinn og nýi þykja nógu merkilegir til að komast á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þá eru hæðirnar í borginni velþekktar og þar frægust allra Sæti Artúrs sem er þeirra hæst.

Edinborg á undantekningarlaust að fara á lista ómissandi borga á lífskeiði hvers ferðalangs.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Edinborgar, Edinburgh International Airport, er í tólf kílómetra fjarlægð frá borginni sjálfri. Fjölmargir samgöngumöguleikar eru í boði til og frá flugvellinum en gera má ráð fyrir að um hálftíma taki að komast niður í miðbæ.

Besti kosturinn eru flugrútur, Airlink, sem fara til og frá flugvellinum reglulega og eru alltaf til reiðu meðan vélar lenda hér. Túrinn í miðbæinn tekur rétt rúmar 30 mínútur og kostar farið aðra leið 650 krónur.

Leigubílar eru tíu mínútum fljótari í ferðum en gera má ráð fyrir að punga út 2.800 krónur að lágmarki til að komast inn í bæinn.

Strætisvagnar ganga að flugvellinum og inn í bæinn. Á daginn er það vagn 35 en á næturnar vagn N22. Fargjaldið á daginn er 240 krónur en á næturnar 480 krónur.

Samgöngur og skottúrar

Sæmilegar samgöngur er að finna í borginni en samgöngukerfið uppistendur af strætisvögnum. Lothian Bus heitir fyrirtækið þar að baki en um 60 vagnar ganga hinar ýmsu leiðir. Leiðakerfi hér.

Sé til skoðunar að fara út fyrir borgina í skemmri ferðir er ráð að kíkja á heimasíðu First Buses sem aka á milli velflestra bæja í Lothian sýslu.

Leigubílar eru hér á flestum stráum en þeir eru tiltölulega dýrir.

Í raun er sá hluti Edinborgar sem flestir vilja skoða á litlum bletti og vel hægt að skoða allt á tveimur jafnfljótum ef dvalið er í nokkra daga. En borgin er byggð á nokkrum hæðum og það torveldar för fyrir labbandi fólk sem kannski er komið af léttasta skeiði.

Þá er það sama upp á teningnum hvað hjólreiðar varðar en borgin er fín að því leytinu og gnótt stíga fyrir hjólreiðafólk. Hjólreiðafólk má meira að segja notast við strætisvagnareinar í borginni. Þó nokkrar hjólaleigur er að finna í borginni. Cycle Scotland er ein með útibú í gamla miðbænum. Dagsleigan er kringum 3.000 krónur.

Söfn og sjónarspil

Langflestir ferðamenn njóta lífsins í gamla bænum í Edinborg en það er sá hluti þar sem skipulag frá miðöldum og margar elstu byggingar borgarinnar standa. En annar bæjarhluti, nýi bærinn, er ekki síðri til skoðunar. Þessir tveir hlutar saman eru á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og þar er margt og mikið að sjá og skoða.

>> Edinborgarkastali (Edinburgh Castle) – Glæsilegt tákn borgarinnar er náttúrulega Edinborgarkastali sem eðli málsins samkvæmt gnæfir yfir borgina og er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem mikilvægt menningarverðmæti. Nánast dauðasök að eyða ekki tíma hér til skoðunar enda kastalanum vel við haldið og margt fróðlegt að sjá, skoða og heyra. Allra best er að fara í fylgd með leiðsögumönnum til að heyra söguna alla og fróðleik ýmsan en líka er hægt að spássera hér á eigin spýtur. Ráðlegt er að taka frá hálfan dag hér ef skoða á allt og taka sér góðan tíma til þess. Opið daglega 9:30 til 18 yfir sumartímann en 9:30 til 17 á veturnar. Punga þarf út 2.400 krónum ef miði er keyptur á staðnum en 25 prósenta afsláttur býðst sé miði keyptur á vef kastalans. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (St Giles Cathedral) – Tæplega þúsund ára gömul dómkirkjan er sjón að sjá en hér vilja menn meina að sé fæðingarstaður Biskupakirkjunnar. Thistle kapellan er glæsileg og steindir gluggar kirkjunnar velþekktir. Hún stendur við Royal Mile götuna sem er aðalgata gamla bæjarhlutans. Í kirkjunni er bæði lítið tehús og lítil minjagripaverslun. Ókeypis aðgangur en framlög vel þegin. Heimasíðan.

>> Dýflissurnar (Edinburgh Dungeons) – Eins og hæfir fallegri miðaldaborg býr Edinborg yfir dýflissum djúpt í jörðu og er það víst skemmtun góð að skoða ef hraust er hjarta. Leiksýningar og leiðsögn um dýflissurnar og mikil göng sem ná frá Kastalanum og undir Royal Mile götu og enn lengra. Leiksýningar sem hæfa staðnum fara þarna fram reglulega. Opið 10 – 17 daglega. Miðaverð 2.700 við  dyrnar en allt að helmings afsláttur ef keyptur er miði með 15 daga fyrirvara á netinu. Heimasíðan.

>> Neðanjarðarborgin (Real Mary King´s Close) – Svo merkilegt sem það er leynast ekki aðeins göng undir Royal Mile götunni í gamla bænum heldur var þar einnig á árum áður lítið neðanjarðarþorp þar sem allnokkrir bjuggu og höfðust við. Hluti þessa er enn uppistandandi og í boði að fá leiðsögn frá fólki sem vel þekkir til. Afar skemmtileg lífsreynsla en panta þarf fyrirfram. Opið 10 – 21 yfir sumartímann en skemur á veturnar. Aðgangur 2.000 krónur. Heimasíðan.

>> Gladstone húsið (Gladstone´s Land) – Í gamla bæjarhlutanum eru allnokkrar byggingar sem tekist hefur að varðveita ótrúlega vel um aldaraðir. Eitt slíkt er Gladstone húsið sem var ríkuleg bygging vellauðugs kaupmanns sem hafði meira að segja efni á að láta ágæta listamenn skreyta hús sitt. Þannig er til að mynda loft hússins skreytt eins og um höll væri að ræða en hér stundaði eigandinn viðskipti sín og geymdi . Gaman að skoða hér. Opið 10 – 18. Aðgangseyrir 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Nelson minnisvarðinn (Nelson Monument) – Það er óvíða betra útsýni yfir Edinborg en frá Calton hæð en þar stendur líka minnisvarði um Horatio Nelson flotaforingja. Efst í turninum er líka tímakúla sem fróðlegt er að skoða. Hún sýndi mönnum tímann fyrr á öldum.

>> Soutra reiturinn (Soutra Aisle Pathhead) – Fjölskyldugrafreitur frá árinu 1686 en hann stendur þar sem áður var besti spítali landsins á miðöldum. Aðeins til skoðunar með leiðsögumanni.

>> Glenkichie brugggerðin (Glenkichie Distillery) – Að fara til Skotlands og heimsækja ekki brugggerð er svipað og fara til Íslands og heimsækja ekki Reykjavík. Alveg fráleitt enda Skotar ekki heimsþekktir fyrir áfengi sitt fyrir ekki neitt. Þessi brugggerð er sú elsta í Lothian héraðinu og þótt nafnið þekki ekki allir er þetta eina brugggerðin sem skammt er frá Edinborg. Taka skal lest frá Prestonpans lestarstöðinni að Tranent og þaðan lest B6355 til Pencaitland þar sem brugggerðin er til staðar. Opið 10 – 17 mánudaga til laugardaga. Prísinn 550 krónur fyrir skoðunarferð en 1.300 krónur ef smakk fylgir með í túrnum. Heimasíðan.

>> Gilmerton hellarnir (Gilmerton Cove) – Í suðausturhluta borgarinnar við Gilmerton flóa má finna hellakerfi eitt mikið og merkilegt en það var gert af mönnum og litlar skýringar hafa enn fundist á hvers vegna menn lögðu slíkt erfiði á sig. Eingöngu opið með leiðsögn. Heimasíðan.

>> Holyroodhouse höllin (Holyroodhouse) – Mest þekkta byggingin við Royal Mile er efalítið konungshöllin Holyroodhouse sem er opinber dvalarstaður bresku konungsfjölskyldunnar í Skotlandi. Höllin fallega er ekki síðri en aðrar slíkar sem konungsfjölskyldan dvelur alla jafna í og er stórkostleg að sjá með Sæti Artúrs í bakgrunni. Höllin er á tyllidögum stundum öll til skoðunar en yfirleitt er aðeins hægt að skoða hluta hennar. Hefðbundin skoðunarferð tekur rúma klukkustund engu að síður. Opið 9.30 – 18 yfir sumartímann en skemur á veturnar. Aðgangseyrir 2.000 fyrir venjubundinn túr en dýrara ef skoða á málverkasafnið í höllinni að auki. Heimasíðan.

>> Konunglegi grasagarðurinn (Royal Botanic Garden) – Á sumartíma er hingað algjör skylda að kíkja enda einn elsti grasagarður heims og heimsþekktur fyrir hversu mörg afbrigði fágætra planta er hér að finna. Fullkominn staður til að draga andann eftir verslunar- eða skoðunarferðir. Garðurinn opinn og ókeypis allan ársins hring. Heimasíðan.

>> Kantsafnið (Museum Collection Centre) – Ekki safn um Kant heldur tilraunaþýðing á safni þar sem til sýnis eru munir sem ekki komast fyrir í öðrum söfnum. Sérstakt og kannski misskemmtilegt en safnið er í miðbænum við Broughton Market götu og til verri hlutir en reka inn nefið enda aðgangur ókeypis.  Heimasíðan.

>> Mound safnið (Museum on the Mound) – Nýlegt safn tileinkað peningum og fjármálum Bretlands og heimsins. Hér má til dæmis sjá eitt einasta eintak sem til er af skoskum peningaseðli frá árinu 1716. Staðsett á Mound hæð sem er manngerða hæðin sem skiptir gamla og nýja bænum. Opið 10 – 17 virka daga og 13 – 17 um helgar. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Flugsafnið (National Museum of Flight) – Eitt fróðlegasta og jafnframt skemmtilegasta safn Skotlands er í 20 mínútna fjarlægð frá Edinborg. Flugsafnið rekur sögu breska flughersins alla tíð frá Fyrri heimsstyrjöldinni og eru þarna til sýnis margar af þeim vélum sem garðinn gerðu frægan á stríðsárunum. Ekki nóg með það heldur er svo saga flugsins þess utan rakin í máli og myndum og ekki síðri vél að sjá og skoða en Concorde. Þarna fara reglulega fram flugsýningar á sumrin. Ómissandi fyrir áhugafólk og skemmtilegt fyrir okkur hin. Opið 10 – 17 alla daga á sumrin en aðeins um helgar á veturnar. Strætisvagn 121 fer beina leið frá Edinborg. Aðgangseyrir 1.700 krónur. Heimasíðan.

>> Þjóðminjasafnið (National Museum) – Skotland í þátíð og nútíð og öllu gerð skil á skemmtilegan og skiljanlegan máta. Endurbætur standa yfir á safninu sem er stórt og mikið og samanstendur af sextán mismunandi sýningum hverju sinni. Margar afar fróðlegar en tímabundnar sýningar fara einnig hér fram mjög reglulega. Safnið er í alfararleið við Chambers stræti nálægt Royal Mile og er sannarlega ferðarinnar virði. Opið daglega 12 – 17. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.

>> Stríðsminjasafnið (National War Museum) –   Nafnið segir allt sem segja þarf. Áhrif stríða og stríðsreksturs á borgina, íbúana og landið allt hér sýnd í máli og myndum. Hér koma ýmsir við sögu frá víkingum og til Þjóðverja í Seinni heimsstyrjöldinni. Ekki er miður að safnið er staðsett í Edinborgarkastalanum sjálfum. Opið 10 – 18 alla daga en skemur á veturnar. Aðgangur er innifalinn í verðinu að kastalanum sem er um 2.400 sé miði keyptur á staðnum. Heimasíðan.

>> Hús John Knox (John Knox House) – Þetta merkilega hús er staðsett á Royal Mile og fer því ekki framhjá neinum sem þar arkar um. Lítið safn tileinkað Knox þessum og Mary drottningu Skotlands. Húsið forvitnilegt. Opið 10 – 18 daglega. Prísinn 750 krónur.

>> Þjóðarbókasafnið (National Library of Scotland) – Við brú Georgs 9 stendur Þjóðarbókasafnið og þótt bókasöfn per se séu vart á ómissandi lista ferðamanna eru hér reglulega settar upp fróðlegar sýningar tengdar sögu Edinborgar og landsins alls. Opið 9:30 til 20:30 virka daga og 9:30 til 12 á laugardögum. Heimasíðan.

>> Andlitsmyndalistasafnið (Scottish National Portrait Museum) – Andlitsmyndir af hverjum einasta Skota sem eitthvað kvað eða kveður að er hér að finna á einu einasta safni. Það stendur við Queen street og er nokkuð einsleitt reyndar en kíkk er í góðu enda hluti af Þjóðalistasafni Skota og miðsvæðis í Edinborg skammt frá Edinborgarkastala. Endurbætur standa yfir á safninu fram á sumarið 2011. Heimasíðan.

>> Þjóðarlistasafnið (National Galleries of Scotland) – Fimm ágæt söfn undir einu þaki við Princes street. Hélt má sjá helstu perlur Skota og reyndar listamanna mun víðar að og er klárlega með þekktari listasöfnun Bretlands. Verið er að breyta safninu og er það lokað fram á sumarið 2011. Heimasíðan.

>> Nútímalistasafn Skotlands (The Scottish Gallery of Modern Art) – Annað vel þekkt listasafn en aðeins lengra frá miðbænum við Belford götu nálægt Belford garði. Stórir garðar umkringja safnið og þar má una hag sínum vel enda fjöldi listaverka undir beru lofti. Auðvelt að mæla með stoppi hér enda safnið líka hluti af Þjóðarlistasafninu. Opið 10 til 17 alla daga. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Hopetoun kastalinn (Hopetoun House) – Bretar ávallt lítillátir og kalla risavaxna kastala og hallir gjarnan hús. Þetta er eitt slíkra en Hopetoun er gömul höll og hallargarður skammt frá Edinborg. Af öllum höllum í Skotlandi þykir þessi bera af fyrir fegurð og hingað sækja borgarbúar mikið á sumrin enda garðarnir stórir og hér finna allir næði. Höllin og garðarnir öllum opin frá páskum til septemberloka ár hvert. Aðgangur að hvoru tveggja 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Georgínska húsið (The Georgian House) – Staðsett í nýja bænum við Charlotte torgið sem þykir með þeim fallegri en hús þetta var einmitt hannað af sama aðila og hannaði torgið sjálft og reyndar hluta nýja bæjarins sem þykir afskaplega vel heppnaður. Hönnuðir kannast efalítið við nafnið Robert Adam en fyrir okkur hin er fegurðin í augum sjáandans. Innifyrir eru fallegir munir og húsgögn frá átjándu öld og forvitnilegt að bera þetta hús saman við Gladstone´s Land í gamla bænum en heil öld skilur þau að. Opið virka daga 10 – 17. Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Verðlag í Edinborg er almennt lægra en gengur og gerist í London svo dæmi sé tekið. Hún er þó dýr á skoskan mælikvarða og úrval verslana töluvert minna en í Glasgow þangað sem margir kaupglaðir Íslendingar fóru fyrr á tíð. Það þýðir þó ekki að hér sé einhver skortur á verslunum.

Eins og annars staðar í borgum heimsins er merkjavöruverslanirnar allar að finna á miðbæjarsvæðinu og hér eru öll helstu merkin sem og annars staðar. Töluverður fjöldi verslana er við Royal Mile en þær eru eðlilega í dýrari kantinum.

Vinsælasta verslunarsvæðið fyrir þorra almennings er í og við Princes strætið þar sem finna má bæði dýrari verslanir en eins ódýrari búðir á borð við Zöru og H&M. Í næstu götu við hana, George stræti, er fjöldi smærri sérhæfari verslana auk fjölda bara og knæpa.

Grassmarket í gamla bænum er skemmtilegt svæði og verslanir þar margar sem þess virði er að rápa um. Þar er sérstaklega mikið um minjagripaverslanir.

Fyrir þá sem vilja sjá eitthvað annað er óvitlaust að rölta sér inn í West End eða Stockbridge hverfin sem bæði eru í tíu mínútna göngufjarlægð frá gamla miðbænum. Þar eru markaðir og götusalar algengari og auðvelt að finna ýmis konar skran á þessum slóðum. Sérstaklega er þess virði að finna Stafford stræti og William stræti.

Annað svæði sem forvitnilegt er að skoða er Leith sem er hafnarsvæði borgarinnar. Því hverfi hefur verið snarbreytt úr dimmu og skítugu hafnarsvæði í fallegt og heillandi borgarhverfi.

Til umhugsunar: Hartnær hundrað ár eru síðan borgaryfirvöld í Edinborg ákváðu að innlima Leith inn í sjálfa borgina en Leith var áður sérstakur bær. Þetta hefur valdið miklum deilum enda vildu íbúar Leith ekkert með slíka sameiningu hafa. Enn þann dag í dag tala heimamenn, og reyndar skoska þingið líka, um Edinborg annars vegar og Leith hins vegar.

Verslunarmiðstöðvar í Edinborg:

Afsláttarverslanir í Edinborg:

Matur og mjöður

Gnótt ágætra veitingastaða er að finna í Edinborg. Gera má ráð fyrir að góð kvöldmáltíð á góðum stað kosti frá þrjú og upp í sex þúsund á mann án víns eða ekki ósvipað og gerist í Reykjavík.

Fjórir veitingastaðir í Edinborg hafa fengið Michelin stjörnu. Þeir eru:

Djamm og djúserí

Ekki þarf að spyrja að því að í Edinborg eins og annars staðar í Skotlandi er tonn af börum og knæpum hvers konar. Eru slíkir staðir víða. Sama gildir um næturklúbba sem teljast vera hartnær 20 í heildina. Þeir vinsælustu eru:

Líf og limir

Því miður er Edinborg ein af leiðinlegri borgum þegar kemur að glæpum og þeir tíðari hér en alla jafna í Skotlandi. Fíkniefnaneysla er vandamál hér eins og hin klassíska bíómynd Trainspotting sýndi hvað best fram á.

Ferðamenn verða sjaldnast fyrir öðru en þjófnaði en það er alveg ágætt að vera ekki á ferli langt utan miðbæjarins seint á kvöldin eða næturnar. Þó ekki séu hér fátækrahverfi í orðsins fyllstu eru ákveðin svæði félagslegra íbúða sem eru varasöm.

Nokkuð hefur verið um vopnaða þjófnaði kringum Calton Hill. Stöku blettir í Leith eru varhugaverðir og Gracemount og Southouse hverfin þykja skuggaleg.

Hátíðir og húmbúkk

Sé það eitthvað sem Edinborg er þekkt fyrir er það hversu fjölbreyttar hátíðir fara þar fram árlega og ber borgin af í Bretlandi öllu hvað varðar fjölda hátíða og menningarviðburða ár hvert. Er enda svo að borgin er fljót að fyllast af gestum þegar mikið stendur til og getur þá verið vandkvæðum bundið að fá hótelherbergi.

Helsta hátíðin sem Edinborg er þekkt fyrir og er sannarlega þess virði að taka þátt í er:

  • Hogmanay – Nýárshátíð heimamanna er ekkert minna en heimsþekkt og ganga skipuleggjendur svo langt að segja að um besta nýárspartí heims sé að ræða. Tonn af viðburður, tónleikur og sjónarspili ýmsu. Er borgin extra skreytt þann 28. desember og svo tekur við partí næstu fimm dagana. Byrjar dansinn með ægilegri ljósasýningu við þinghúsið og svo dunar tónlist og dans svo lengi sem menn nenna. Götupartí, fjöldi tónleika í görðum og götum og á engan hátt hægt að lýsa stemmningunni í orðum. Heimasíðan.