Skip to main content

M argir vilja meina að þýska borgin Dusseldorf hafi séð betri daga og að vissu leyti má það til sanns vegar færa. Borgin er í eðli sínu iðnaðarborg og sem höfuðborg Ruhr héraðs hefur borgin sannarlega upplifað sinn skammt af niðursveiflum og efnahagsvandræðum. Atvinnuleysi er þar töluvert mikið og glæpir nokkuð algengir sem afleiðing af því.

Engu að síður er borgin ein af helstu fjármálamiðstöðvum landsins og fjölmargir af þeim tíu milljónum sem þar búa starfa á einn veg eða annan við fjármálastarfsemi. Þá hafa borgaryfirvöld reynt eftir megni að færa niðurnídd svæði til betri vegar og er til að mynda Bryggjuhverfið velheppnuð tilraun til þess.

Meðal Þjóðverja sjálfra er Dusseldorf þekkt fyrir skrautlegt og skemmtilegt næturlíf og það eru meðmæli því óvíða er næturlífið fjölbreyttara en í Þýskalandi.

Dusseldorf komst töluvert á kort ferðamanna þegar þar var haldin Eurovision söngvakeppnin árið 2011.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllurinn Flughafen Dusseldorf International er í úthverfi borgarinnar í um 20 mínútna fjarlægð frá miðborginni. Sá er stór og nýtískulegur og fríhöfnin er stór og úrval alveg ágætt.

Eins og góðum flugvelli sæmir er hér lestarstöð og því lítið mál að koma sér til og frá hvort sem ferðinni er heitið inn í borgina eða eitthvað allt annað. Dusseldorf er jú tiltölulega nálægt landamærum Hollands og Belgíu og stundarkorn frá borgunum Aachen, Gelsenkirchen og Mönchengladbach.

Fljótlegast er að skella sér í lest S11 sem fer milli flugstöðvarinnar og miðborgar Dusseldorf á tólf mínútum sléttum en stakur miði kostar 380 krónur. Lestin er á ferðinni nánast allan sólarhringinn þó tíðnin sé mismunandi. Sjá tímakort hér.

Leigubílar eða rútur eru örlítið lengur á ferð eða um 20 mínútur. Kostnaður við leigubíl aðra leiðina er 3.700 krónur.

Rútu- og strætisvagnaleiðir til og frá eru fjórar talsins og fara þessar leiðir:

  • SB 51 (Flugvöllur – Theodor-Heuss-Brücke – Meerbusch-Büderich – Kaarst)
  • 721 (Flugvöllur – miðborgin – Tannenhof)
  • 727 (Flugvöllur – Freiligrathplatz – Lohausen)
  • 760 (Flugvöllur- Lichtenbroich – Ratingen-Mitte)

Leið 721 er fín til brúksins en hinar ættu aðeins þeir að nota sem þekkja borgina eða finnst gaman að lenda í ævintýrum.

Samgöngur og skottúrar

Innan borgarmarkanna er lítið mál að koma sér milli staða. Hér eru strætisvagnar, jarðlestakerfi og hefðbundnar bæjarlestir auk þess sem borgin rekur sporvagnakerfi.

Þörfin á samgöngum fer eðlilega eftir áhugasviði hvers og eins en hér gildir það sama og í flestum minni borgum Evrópu að það er elsti bæjarhlutinn sem er mest heillandi. Innan hans er engin þörf á neinu nema tveimur jafnfljótum.

Alla farmiða verður að kaupa fyrirfram og stimpla í þartilgerðum maskínum um borð. Dugar hver stakur miði, A klasse, í 90 mínútur og dugar fínt innan borgarinnar.

Söfn og sjónarspil

Töluvert er að sjá og upplifa í Dusseldorf. Upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðafólk eru nokkrar en sú stærsta er þráðbeint á móti aðallestarstöðinni. Þar fást ókeypis borgarkort og ekki síður ágæt göngukort. Þá er líka bráðgóð hugmynd að nota Google City Tours hér til að sjá allt það helsta á einu bretti.

>> Gamli bærinn (Altstadt) – Perla Dusseldorf eins og velflestra evrópskra borga er gamli bæjarhlutinn. Hér eru þó kannski fleiri barir á fermetra en í nokkurri annarri miðaldaborg í álfunni og það er ástæða þess að gamli bærinn er stundum kallaður lengsti bar heims. Hér er líf á daginn og geðveikt líf á kvöldin. Ýmsar forvitnilegar byggingar er hér að sjá eins og vikið er að neðar en fyrst og fremst er hér stemmning sem hentar ferðafólki hreint ágætlega. Hér fæst víða hinn vinsæli þýski Altbier bjór sem Fararheill hefur fjallað um áður. Sé dvalist annars staðar í borginni er vænlegast að skjótast hingað með jarðlestum og fara úr á Heinrich Heine stöðinni.

>> Heine safnið (Heinrich Heine Institut) – Heinrich Heine er eitt af höfuðskáldum Þjóðverja og hann fæddist og óx úr grasi hér í Dusseldorf. Þar er nú menningarmiðstöð og safn í hans minningu. Opið 11 – 17 virka daga nema mánudaga. 10 til 13 um helgar. Aðgangseyrir 500 krónur. Heimasíðan.

>> Kastalaturninn (Schlossturm) – Eins og öllum stærri borgum sæmir stóð hér lengi vel stór og mikill kastali með útsýn til allra átta. Svo er ekki lengur því kastalinn fallegi brann til grunna árið 1872. Enn er þó uppistandandi einn turn kastalans gamla og honum hefur verið vel við haldið. Innifyrir er fróðlegt sjófarendasafn, Schiffartmuseum, þar sem saga siglinga á Rín síðastliðinn tvö þúsund ár er rakin. Opið daglega 10 til 18.

>> Bryggjuhverfið (Dusseldorfer Medianhafen) – Nýtt hverfi í borginni byggt á gömlum merg við höfnina. Hér hefur tekist að skapa líf að nýju þó fyrst og fremst sé hér um verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé að ræða. Það sem gerir hverfið meira heillandi en ella er að margar byggingarnar voru hannaðar af hinum fræga en umdeilda Frank Gehry. Léttlest að Platz des Landtages.

>> Rínarturninn (Rheinturm) – Skammt frá nýja bryggjuhverfinu er að finna Rínarturninn sem er 240 metra hár útsýnisturn og hæsta mannvirki í borginni. Þar er veitingastaður í 170 metra hæð sem fær ekki merkilega dóma og þykir dýr en útsýnið er líklega þess virði að taka eina heimsókn eða svo. Útsýnispallurinn er opinn daglega frá 10 til 23:30. Léttlest að Platz des Landtages. Heimasíðan.

>> Benrath óðalssetrið (Stiftung Schloss und Park Benrath) – Merkilegt gamalt óðalssetur sem breytt hefur verið í þrjú söfn auk þess sem fallegur garðurinn er toppstopp fyrir þreytta ferðamannafætur. Þykir setrið sjálft sem eru þrjár byggingar með fallegri rokokkó byggingum sem fyrirfinnast í heiminum. Söfnin eru fjölbreytt líka. Þarna er garðsögusafn Evrópu, Museum für Europäische Gartenkunst, Museum Corps de Logis þar sem sjá má víðtækt safn eiganda slotsins á sínum tíma og síðast en ekki síst náttúrufræðisafn Museum für Naturkunde. Er mætavel þess virði að eyða hér degi og jafnvel taka með sér nesti. Leiðsögn er í boði bæði um söfnin og garðinn. Léttlest að Schloss Benrath. Opið 10 til 17 virka daga nema mánudaga. Miðaverð fyrir öll söfnin er 1.900 krónur. Heimasíðan.

>> Keramiksafnið (Hetjens Museum) – Eitt stærsta safn sinnar tegundar í heiminum. Fjöldi muna úr keramik sem flestir koma úr safni Laurent Hetjens sem var auðugur forstjóri með ómissandi áhuga á keramikmunum hvers konar. Í versta falli forvitnilegt. Léttlest eða strætisvagn að Heinrich Heine. Opið 11 – 17 virka daga nema mánudaga. Opið til 22 á miðvikudagskvöldum. Aðgöngumiði 500 krónur. Heimasíðan.

>> Kúnsthöllin (Kunsthalle Düsseldorf) –  Eitt forvitnilegasta safnið í borginni er þetta hér. Mjög fjölbreytilegar sýningar og þar meðal annars svokölluð Listagöng. Fyrst og fremst nútímalist hér í forgrunni en sett fram á aðgengilegan og skemmtilegan máta. Léttlest að Heinrich Heine. Opnunartíminn alla daga nema mánudaga milli 11 og 18. Miðaverð 900 krónur. Heimasíðan.

>> Goethe safnið (Goethe Museum) – Þúsundir verka af ýmsum toga til heiðurs skáldinu Goethe. Yfir 35 þúsund verk í eigu safnsins en aðeins þúsund til sýnis hverju sinni. Forvitnilegt fyrir listunnendur en varla aðra. Safnið stendur í reisulegri byggingu við Jacobsstraβe. Léttlestir 704 eða 707. Opið daglega 11 – 17 nema mánudaga og sunnudaga. Aðgangur 650 krónur. Heimasíðan.

>> Listahöllin (Museum Kunstpalast) – Þekktasta listasafn borgarinnar með verk margra frægari listamanna á borð við Rubens og margra frægustu þýsku listamanna fyrri tíma. Yfir 80 þúsund verk en aðallega málverk og skúlptúrar. Ef aðeins á að skoða eitt listasafn er þetta þess virði en þá er gott að gefa sér einhverjar klukkustundir. Lestir U78 eða U79 að Nordstraβe. Opið daglega 11 til 18 nema mánudaga. Miðaverð 2.000 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Fyrir fólk sem þénar laun í íslenskum krónum er Dusseldorf ekki sérstaklega væn heimsóknar. Gisting og matur þokkalega dýr og sömu sögu er að segja um aðrar vörur til sölu í verslunum borgarinnar. Vitaskuld má þar gera ágæt kaup inn á milli en sé hagkvæm verslun aðalatriðið er Dusseldorf ekki borgin.

Að þessu sögðu er í raun aðeins ein gata sem ber höfuð og herðar yfir aðrar hvað verslun snertir. Það er Köningsallee, kallað Kö, sem er stór og mikil með mikið úrval alls kyns verslana þó flestar séu þær í dýrari kantinum. Þykir þessi gata með betri verslunargötum í öllu Þýskalandi hvað úrval varðar á einum og sama staðnum. Það er aðallega þessari einu götu að þakka að Dusseldorf er þekkt sem tískuborg Þýskalands meðal Þjóðverja sjálfra.

Matur og mjöður

Fyrrnefndur altbier er möst að prófa hér um slóðir. Fæst sá víða en aðeins á krana á fimm stöðum. Annar drykkur sem kenndur er við Dusseldorf og héraðið er hinn blóðrauði Killepitsch. Sennilega fer þessi áfengi drykkur langleiðina að því að kallast heilsudrykkur því í honum eru 90 mismunandi krydd, safar og ávextir.

Matarkyns stendur Dusseldorf sig bærilega en á þó enga heimsklassa staði að mati Michelin. Hins vegar mæla þeir frönsku með þessum stöðum til að fylla mallakút og standa upp sátt og södd.

Til umhugsunar: Svo merkilegt sem það nú er reynist það raunin að hinn gamli miðbær er almennt ódýrari en nágrannahverfi hvað viðkemur mat og drykk. Getur þar munað einhverjum þúsundköllum sé farið út að borða.

Djamm og djúserí

Lengsti bar í heimi ætti að segja allt sem segja þarf þó það sé aðeins samheiti yfir fjölda bara í gamla bænum. En Þjóðverjarnir eru almennt eðalfínir á börunum og Íslendingar vekja ávallt athygli. Kjánalegt er að mæla með einhverjum einum eða tveimur því margir bara í bænum eru eldgamlir og hver með sinn stíl og sjarma.

Klúbbar eru hér vinsælir eins og víðast hvar í landinu. Þeir byrja að fyllast uppúr miðnætti og eru opnir framundir morgun. Þeir bestu miðsvæðis þykja vera:

Hátíðir og húllumhæ

Til eru gamlar sagnir hérlendis þess efnis að maður á hjólhestahlaupum væri fljótari niður brekku en hestar. Sem er langsótt mjög en burtséð frá sannleiksgildinu eru hjólhestahlaup í miklum hávegum höfð í Dusseldorf. Fer hér fram árlega mikil hátíð þessum fararmáta til heiðurs þó ekki sé ljóst hvers vegna sá atburður kom til. Radschläger Turnier heitir sú og fer jafnan fram í júlí ár hvert. Er þá keppt í hjólhestahlaupi í miðbænum og verðlaun vegleg.

Á tveggja ára fresti fer hér fram í júní svokölluð Sex daga ópera. Þá daga er ópera sett í öndvegi og fyrsta flokks verk flutt í hinum og þessum byggingum borgarinnar.

Þá má ekki gleyma stærstu hátíð Dusseldorf, Groβte Kirmes am Rhein, sem fer fram í níu daga ár hvert í júlí. Er áin Rín þar í öndvegi en þá er settur upp sirkus með tilheyrandi leiktækjum í borginni. Aðalaðdráttaraflið er þó mikil flugeldasýning í lok hátíðarinnar en sú fer fram á ánni sjálfri.

Líf og limir

Ekkert til að hafa stórkostlegar áhyggjur hér. Þjófnaðir eru algengir og fíkniefnaneysla nokkuð útbreidd en á móti kemur að lögregla er mjög sjáanleg. Hending er að ferðamenn lendi í vandræðum nema þeir hefji slíkt sjálfir en slíkt gerist helst undir áhrifum að kvöld- eða næturlagi. Hávaði, læti eða öskur á börum er fremur illa séð meðal heimamanna.