Skip to main content

S harm el Sheikh er vinsælasti sólardvalarstaður sem fyrirfinnst í Afríku allri og þangað sækja milljónir árlega til að sóla sig, sjá aðra og síðast en ekki síst til köfunar en hér er einn allra vinsælasti staður til þeirrar íþróttar í veröldinni.

Bærinn er afar vel staðsettur á Sinai skaganum vel í vari samnefnds eyðimerkurfjallgarðs. Þessi blanda brúnna sanda, kletta og hafsins sem er ljósblárra en allt ljósblátt er mögnuð og heillandi og nokkuð súrrealískt umhverfi.

Skammt er síðan stjórnvöld ákváðu meðvitandi að setja upp hér ferðamannastað og fyrir rúmum 30 árum var fátt hér nema kofar um hundrað fiskamanna. Egyptamenn geta reyndar þakkað Ísraelum þann vísi að ferðamennsku sem hér varð því þegar þeir síðarnefndu hértóku Sinai skaga á sínum tíma fóru umsvifalaust þúsundir ísraelskra ferðamanna að sækja skagann heim og brátt var Sharm el Sheikh vinsælasti áfangastaðurinn.

Nú búa hér um 100 þúsund manns og 90 prósent þeirra starfa við ferðaþjónustu.

Til umhugsunar: Vegabréfsáritun þarf til Egyptalands og best að verða sér úti um slíkt í sendiráði Íslands í Osló. Það er hægt að fá 30 daga áritun við komu til landsins en allur er varinn góður.

Til og frá

Flugvöllur Sharm el Sheikh er ekki ýkja stór en hér er mikil traffík sérstaklega yfir vetrartímann sem er háannatími hér. Rútur bíða allra sé um skipulagða ferð að ræða en í versta falli eru leigubílar og skutlur til reiðu við flugvöllinn. Leigubíll héðan að bænum mun kosta kringum tvö þúsund krónur.

Hingað er hægt að komast með ferju frá borginni Hurghada á strönd Rauða hafsins til vesturs og gengur sú ferja fjórum sinnum á milli vikulega. Tekur ferðin 1,5 klukkustund og kostar önnur leiðin 5.000 krónur.

Hingað er að sjálfsögðu ökufært og bæði hægt að komast hingað með reglulegum rútuferðum frá Eilat í Ísrael og frá Kairó. Rúnturinn frá höfuðborginni Kairó er þó drjúgur, sex klukkustundir, og þótt landslagið sé nokkuð fallegt og sérstakt er þetta óspennandi bíltúr.

Samgöngur og snatterí

Sharm el Sheikh er í raun ekki yfirfullur af merkum minjum né athyglisverðum söfnum og því nokkuð banalt að ætla sér að þvælast um í bænum. Sé á því þörf er málið að grípa leigubíl nema menn séu í fáránlega góðu formi því hitinn hér fer fljótt með alla sem ætla eitthvað að reyna á sig.

Hér ganga líka skutlur á borð við tuk tuks í Tælandi eða dolmus í Tyrklandi. Litlir bílar, yfirbyggðir eða ekki, sem ferja fólk um á palli. Þeim er veifað af gangstéttarbrún og svo greitt þegar komið er á áfangastað. Rúntur innan bæjarins kostar hundrað krónur.

Söfn og sjónarspil

Það verður bara að viðurkennast að sé fólk lítið fyrir legu í sandi og að láta sólina baka sig er ekkert hér í bænum sem býður upp á aðra merkilega afþreyingu. Köfun er jú afar vinsæl og sannarlega þess virði að taka námskeið hér ef sá gállinn er á fólki. Jeppaferðir út í eyðimörkina er líka í boði en þá er það sennilega upptalið fyrir utan heimsókn í verslunarmiðstöðvar, markaði eða skemmtigarða. Ýmislegt er að sjá því lengra sem dregur frá Sharm en dagsferð þarf til að skoða það helsta af einhverju viti.

>> Gamli miðbærinn (Sharm Old Town) – Ekkert stórmerkilegt að sjá hér annað en bærilegan markað sem hér er. Hann er þó verulega ferðamannamiðaður og á ekkert skylt við hefðbunda egypskta markaði. Þá er auðvelt að fá nóg af uppáþrengjandi sölufólki sem aldrei hefur heyrt talað um persónulegt rými.

>> Litagljúfrin (Coloured Canyons) – Í um þriggja klukkustunda fjarlægð frá Sharm er að finna þessi fallegu gljúfur sem eru í flestum regnbogans litum. Þau eru þess virði að skoða og margir aðilar í Sharm bjóða slíkar ferðir alla daga.

>> Bedúínaþorp (Bedouin Village) – Eyðimerkurfólk er hægt að heimsækja frá Sharm í styttri ferðum frá bænum. Deila má um hversu ekta þau eru en forvitnilegt skoðunar ef leiði er á strönd og sól.

>> Sinai fjall (Mount Sinai) – Móses gamli fékk hér send boðorðin tíu frá hinum almáttuga samkvæmt biblíunni og fyrir þá trúuðu er kannski þess virði að ganga fjallið en jafnvel vant göngufólk leggur ekki í það nema eldsnemma morguns meðan sólin brennur ekki allt sem á vegi hennar verður. Gangan tekur um þrjár klukkustundir og vissulega er útsýni ágætt en þá er það upptalið.

Verslun og viðskipti

Sharm er handónýtur staður til verslunar. Hér eru vissulega verslanir og markaðir en allt er gírað fyrir ferðamanninn sem aðeins staldrar hér við í viku eða tvær og úrvalið engan veginn fjölbreytt né gott. Þá er verðlag hér tvöfalt hærra en annars staðar í landinu og jafnvel þrefalt á köflum. Prútta skal alveg í tætlur sé ætlunin að versla.

Köfun og kæling

Rauða hafið er í margra augum mekka köfunar enda vatnið ekki bara volgt heldur líka tært. Þá er og litríkt dýralíf undir sjávarmáli sem sker í augun eftir brúna eyðimörkina í allar áttir á landi.

Allar upplýsingar um köfunarferðir í boði má finna hjá fjölmörgum söluaðilum í bænum en kóralrifin við Tiran og Ras Mohammad þykja tvær af betri köfunarstöðum í veröldinni. Það skýrist af miklu æti á þeim stöðum en þar mætast Aqaba hafið og Súez hafið. Mikið dýra- og plöntulíf og þar má sjá án mikillar fyrirhafnar stærri fiska á borð við barrakúdur, smærri hákarla og skötur meðal annars.

Til umhugsunar: Gallinn við köfun á þessum slóðum eru vinsældirnar og er ekki óalgengt að tugir og mögulega hundruðir einstaklinga séu að kafa á sama staðnum á sama tíma.

Fimm köfunarfyrirtæki sem fá fína einkunn á netinu eru:

Svifdrekaflug, hestaferðir, fálkasýningar og fjórhjólaferðir eru víða í boði í Sharm el Sheikh. Prísinn fyrir afþreyinguna er þó brattur í velflestum tilvikum auk þess sem slíkar ferðir eru aðeins farnar með tugum manna í einu.

Djamm og djúserí

Það er frábrugðið öðrum sólarstöðum Evrópubúa að hér er einna mest lífið hjá hverju og einu hótelinu en alls kyns dagskrá er í boði hvert kvöld yfir annatímann hjá þeim velflestum.

Utan þess er helst að fólk safnist saman við Naama ströndina en risaklúbbar eru hér engir. Hafa skal í huga að Naama er næsti bær við Sharm el Sheikh og þangað er spottakorn.

Matur og mjöður

Hefðbundið sólarstrandaúrval af veitingastöðum og börum og fátt meira um það að segja. Áberandi eru magaveikindi hjá mörgum sem borða hér og virðist einu gilda hvort borðað er á fimm stjörnu hótelunum eða litla staðnum við ströndina.

Alkohól er dýrt hér miðað við aðra sólarstaði sem Evrópumenn sækja. Þá er það enn dýrara hjá öllum stöðum sem hótelin reka ekki sjálf. Hafa skal þó í huga að margir söluaðilar ferða hingað bjóða svokallað „allt innifalið“ sem þýðir að stöku tegundir áfengis fylgja með í verðinu.

Líf og limir

Smáþjófnaður algengur hér en ekki þarf að óttast annað ef frá eru taldar einstöku hákarlaárásir. Þær gerast en afar sjaldan.