Ólíkt ritstjóra Morgunblaðsins sem vill helst sjá biksvart malbikið ofan á hverri grænni þúfu sem finnst í Reykjavíkinni okkar gildir annað um Parísarbúa.

Batnandi París er best að lifa. Nýtt svæði við Signu undir fólk en ekki bíla í borg ástarinnar

Batnandi París er best að lifa. Nýtt svæði við Signu undir fólk en ekki bíla í borg ástarinnar

Ekki svo að skilja að Parísarbúum sé ekki sama hvernig Reykjavík er heldur hitt að þar hefur um tíu ára skeið verið skýr og vinsæl stefna af hálfu borgaryfirvalda að færa „borgina aftur til fólksins“ eins og þar stendur. Það, á mannamæli, þýðir að breyta hverfum og götum til að gera gangandi fólki hægara um vik. Fólk framyfir bíla.

Einn hluti þess átaks snérist um að breyta umferðargötu á bakka Signu í útivistarparadís fyrir gangandi mann og annan. Sá sem nú labbar meðfram Signu við Berges de Seine, kaflann frá Orsay safninu og Pont de l´Alma að sumarlagi finnur þar ekki lengur flautandi bíla í löngum röðum heldur fólk liggjandi á teppum, klifurkappa í hæstu hæðum og framsækna veitingamenn sem bjóða öl og meðlæti eftir óskum.

Það er með öðrum orðum búið að betrumbæta einn besta útsýnisstaðinn yfir ánna heldur betur. Bílar út, fólk inn og það með útsýni til Eiffel.

Og Parísarbúar sjálfir láta það ekki nægja. Þessi blettur borgarinnar hefur nú fengið eigin heimasíðu og þar er vart flett án þess að rekast á hina og þess viðburðina sem óvitlaust væri að kíkja á. Jógakennarar hafa fundið hér samastað. Sama má segja um stóran hóp frækinna manna sem synda í Signu og það daglega sér til heilsubótar. Þó deila megi reyndar um hversu heilsusamlegt það er. Hægt er að bóka sérstök skýli til að slaka á eða njóta félagsskapar án þess að aðrir séu liggjandi yfir. Fyrir utan ýmislegt annað.

Fararheill hikar ekki stundarkorn að mæla með les Berges de Seine fyrir fölbleikan Frónbúann næst þegar leið liggur um París.