Það eru sennilega ekki margir Íslendingar á faraldsfæti sem leggja sig eftir að kanna hvort hagkvæmt sé að ferðast með lestum í löndum Evrópu. En það getur verið töluvert betra og ódýrara en flakk með rútum eða á bílaleigubíl.

Ítalska ríkislestarfyrirtækið hendir oft út tilboðum á borð við það sem við sjáum hér. Fargjöld hingað og þangað á helmings afslætti. Skjáskot

Ítalska ríkislestarfyrirtækið hendir oft út tilboðum á borð við það sem við sjáum hér. Fargjöld hingað og þangað á helmings afslætti. Skjáskot

Það kannski eðlilegt. Landinn er óvanur lestarferðum og auðvitað eru töluverð þægindi við að leigja bíla og vera eigin herra á ferðum.

En það er ekki síður indælt að sitja í þægindum í góðri lest og taka inn umhverfið á mun ljúfari máta en á næstu hraðbraut. Lestir almennt í Evrópu eru oftar en ekki nýjar eða nýlegar og öll helsta þjónusta í boði um borð. Svo keppir ekkert við þá staðreynd að lestarstöðvar eru nánast undantekningarlaust í miðbæjum borga og bæja heimsins og fólk er komið í hringiðuna um leið og gengið er frá borði.

Við minnumst á þetta sökum þess að hafi fólk nennu til má oft finna fjandi góð tilboð hjá lestarfyrirtækjum víða um álfuna. Eins og til dæmis má sjá á meðfylgjandi skjáskoti af vef Tren Italia. Þar 50% afsláttur á hinum ýmsu lestartúrum hingað og þangað.

Slík tilboð eru nefninlega æði algeng og æði góð oft á tíðum. En það þarf að bera sig eftir björginni. Enginn miðill heldur sérstaklega utan um tilboð lestarfélaga ólíkt því sem gerist með flug og bílaleigubíla. Stundum þarf að hafa aðeins fyrir hlutunum 😉