Skip to main content

F ín dagsferð frá höfuðborginni Madríd er til borgarinnar Cuenca sem heita má að sé miðja vegu milli Madríd og Valencíu. Cuenca er vel varðveitt miðaldaborg og miðborg hennar þess vegna á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þar er líka að finna hin frægu „hangandi hús“, Casas Colgadas, sem byggð eru á slíku þverhnípi að flesta sem niður líta svimar fyrir vikið.

Cuenca má heita að sé sennilegast markverðasta borgin í Kastilla-La Mancha héraði Spánar sem þekktara er úr skáldsögu Cervantes um Don Quixote. Héraðið allt er tiltölulega litlaust og fátt sem gleður augað fyrr en komið er til Cuenca sem byggð er á þverhnípi milli ánna Huécar og Júcar. Borgin skiptist þó í tvennt; nýrri og eldri hlutann og það er aðeins sá eldri sem heillandi má heita. Sá nýi hefur lítt að bjóða merkilegt.

Þá fer hróður Cuenca vaxandi meðal listamanna á Spáni og víðar og sífellt fleiri listamenn koma hingað til að vinna sín verk og skapa þar með sérstaka og skemmtilega stemmningu í gamla bænum enda vinna margir þeirra verk sín útivið þegar veður leyfir. Hér er óeðlilegur fjöldi smærri listasala og gallería.

Sömuleiðis er svæðið kringum borgina að ná vinsældum fyrir útivist ýmis konar. Fjölmargar fínar göngu- og hjólreiðastígar eru víða í fallegu landslagi.

Hafa skal í huga að tiltölulega dýrt getur verið að heimsækja Cuenca enda hótel af skornum skammti á háannatímum og þá getur meðalverð á hótelherbergi farið hátt í 30 þúsund krónur að meðaltali. Best er að fara snemma vikunnar yfir sumartímann til að sleppa billegar.

Til og frá

Hingað er komist með bílum, rútum eða lestum en enginn er flugvöllurinn í grenndinni. Lestin er besti ferðamátinn en frá Madríd tekur túrinn um 55 mínútur. Bíll kemur sér sannarlega vel sé fólki illa við göngur en töluvert er um hæðir innan borgarmarkanna og getur tekur töluvert á þá sem eldri eru eða eiga erfitt með gang.

Söfn og sjónarspil

>> Hangandi húsin (Casas Colgadas) – Þó frægð Cuenca hafi borist víða fyrst og fremst sökum þessara húsa á þverhnípi eru þau aðeins nokkur talsins við eina og sömu götuna. Ekki er lengur búið í neinum þeirra heldur að hluta komin í eigu ríkisins sem þjóðararfur en þar er einnig eitt veitingahús og safn og þau er hægt að skoða að hluta til. Calle Canónigos.

>> Safn spænskra abstraktlistaverka (Museo de Arte Abstracto Español) – Hér er hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Verða öllu vísari um spænska abstraktlist en um leið skoða hangandi hús að innan. Safnið er staðsett í einu slíku húsi og er fínt út af fyrir sig hafi fólk áhuga á slíkri list en það setti á fót listamaðurinn Fernando Zóbel og eru mörg verka hans hér. Héðan má fá fína útsýn ofan í gljúfrið við borgina. Calle Canónigos. Opið 11-14 og 16-18 virka daga nema mánudaga. Um helgar opið 11-14. Miðaverð 460 krónur. Heimasíðan.

>> Fornleifasafnið (Museo de Cuenca) – Tileinkað fornleifum er fundist hafa í eða við borgina en hér stöldruðu Rómverjar lengi við eins og víða annars staðar á Spáni. Ekkert stórkostlegt þó að sjá hér. Calle Obispo. Opið virka daga nema mánudaga 10 til 18 og frá 11 um helgar. Miðaverð 400 krónur.

>> Dómkirkjan (Catedral de Cuenca) – Falleg smíð og voldug mitt í gamla bænum. Kirkjan farin að láta á sjá að utan en að innan er hún afar falleg í gotneskum stíl. Calle de Julian Romero. Opin skoðunar alla daga nema sunnudaga þegar messað er.

Til umhugsunar: Hér er að finna þrjár aðrir kirkjur og tvö gömul klaustur. Iglesia de San Pedro, Iglesia de San Salvador og Iglesia de San Miguel eru ómerkilegar á spænskan mælikvarða en fegurð er jú í augum sjáandans.

>> Pétursbrúin(Puente de San Pedro) – Falleg brú yfir Huecar gljúfrið með fínni útsýn fyrir ólofthrædda.

>> Kastalinn (El Castillo) – Allar alvöru borgir Spánar eiga sinn kastala og Cuenca er engin undantekning. Þessi, byggður af Aröbum, er þó tilþrifalítill enda fátt eftir af upprunalegri byggingunni nema einn turn og leifar af borgarvirkinu. Hingað má þó rekja einn versta kaflann í spænskri sögu því það var í þessum kastala sem hinn óhugnarlegi Spænski rannsóknarréttur var til húsa á miðöldum.

>> Mangana turninn (Torre Mangana) – Þessi turn frá fimmtándu öld er miðsvæðis í gamla bænum skammt frá Plaza Mayor og sést víða að. Hann er aðeins hægt að skoða utanfrá. Plaza de Mangana.

>> Trúarlistaverkasafnið (Museo Diocesano Catedralicio) – Eitt besta safn trúarlegra muna kaþólsku kirkjunnar á Spáni er að finna á þessu safni í því sem áður var híbýli biskupsins í héraðinu. Calle de Obispo. Opið 11-13 og 16 til 19 virka daga nema mánudaga. 10 til 13 á sunnudögum. Miðaverð 350 krónur.

>> Vísindasafnið (Museo de las Ciencias) – Hefðbundið safn tileinkað vísindum. Börnin finna hér ýmislegt til að fikta í og læra um en þess utan er þetta safn töluvert frá því besta í þessum geiranum. Byggingin er þó glæsileg og verð skoðunar.

Verslun og viðskipti

Sem fyrr segir er Cuenca griðastaður listamanna sem margir finna hér þá ró og næði sem til þarf. Þess vegna er hér óvenjulegur fjöldi gallería og götusala sem selja verk sín og margir þeirra býsna snjallir.

Takmarkaður fjöldi hefðbundinna verslana er hér að finna þó merkjabúðir séu hér nokkrar. Verðlag svipað og gerist í Madríd og því nokkuð hagstætt á spænskan mælikvarða. Þær eru þó aðallega í nýja hluta borgarinnar sem er öllu meira óspennandi skoðunar.

View Allt markvert í Cuenca á Spáni in a larger map