H ægt er að færa mörg góð rök fyrir hvers vegna Íslendingar ættu fremur að velja sér borgarferðir til borga á borð við Ríga í Lettlandi en hefðbundnari borgir eins og London, Stokkhólm, París eða Barcelóna.
Í allra fyrsta lagi er hinn gamli borgarhluti Ríga ótrúlega fallegur og sannarlega fallegri en miðbæir margra stærri og merkilegri borga Evrópu. Í annað stað er sá hluti í raun sá eini sem vert er að skoða í þessari undarlegu borg og þrír til fjórir dagar, eða sem nemur einni góðri helgarferð, dugar til að geta með sanni sagst hafa kynnst höfuðborg Lettlands. Þá er verðlag í Lettlandi lægra en gengur og gerist í Evrópu og munar töluverðu.
Borgin státar að því er virðist af botnlausum fjölda bygginga í Art Nouveau stíl sem margar eru skreyttar í bak og fyrir. Ótrúlegur munur er á byggingarstíl milli hverfa. Hér finnast rússnesk hverfi, skandinavísk hverfi, þýsk hverfi að ógleymdri gömlu miðborginni sem er suðupottur alls kyns stíla og arkitektúrs.
Til og frá
Alþjóðaflugvöllur Ríga, Starptautiskâ Lidosta, minnir um margt á Reykjavíkurflugvöll. Ekki þar fyrir að hann sé samansettur úr bröggum en hann er ósköp lítill og sætur og auðvelt um að rata. Þar er einnig takmörkuð þjónusta þó í biðsal sé hægt að tengjast neti og fá sér kaffi og kleinur eins og víðast hvar annars staðar.
Frá flugvellinum og inn í miðborg er komist á 20 mínútum með leigubílum sem eru almennt ekki dýrir en ekki ódýrir heldur. Ráð má gera fyrir að greiða um þrjú þúsund krónur aðra leiðina.
Ekki þarf fólk að vera sérstaklega ævintýragjarnt til að taka strætisvagna hér heldur þó vissulega séu margir þeirra assgoti rússneskir og sæti og þjónusta eftir því. Best er að taka vagn 22 sem fer beinustu leið til Abrenes strætis örstutt frá gamla bænum. Sá fer einu sinni til tvisvar á klukkustundarfresti á milli og tekur rúnturinn um 30 mínútur. Stakur miði kostar 190 krónur og hægt að kaupa hjá vagnstjóra eða vaktmanni en þó aðeins fyrir klink.
Hér er líka til staðar flugrúta, Airport Express, sem er aðeins fljótari í förum og stoppar hjá Dómkirkjunni í gamla bænum. Greiða þarf 350 krónur fyrir þann rúnt. Þá er hér einnig strætóskutla, 241, sem eru fínn kostur en sá stoppar víða á leiðinni.
Ekki gleyma heldur að sé fólk á þvælingi í Stokkhólmi er hingað komist með ferju þaðan. Tallink býður þá þjónustu og er það þægileg leið til og frá.
Samgöngur og skottúrar
Auðvitað er aldrei hægt að alhæfa um hvað fólki almennt finnst forvitnilegt og hvað ekki en það er mat ritstjórnar Fararheill að dásemdir Ríga séu 99 prósent einskorðaðar við gamla borgarhlutann. Innan hans er aðeins þörf á tveim jafnfljótum og hann má skoða í þaula á nokkrum dögum ef sá gállinn er á fólki.
Af því leiðir að ekki þarf að eyða tíma til að kynna sér samgöngur ýkja mikið en hér er leiðakort strætis- og sporvagna borgarinnar ætli fólk að skoða eitthvað sérstakt.
Til umhugsunar: Það getur verið pínu vandkvæðum bundið að þvælast um borgina með strætisvögnum. Það stafar af því að stór hluti borgarbúa og flestir sem komnir eru yfir miðjan aldur skilja ekki önnur tungumál en lettnesku og rússnesku. Þetta getur meira að segja verið vandamál í gamla borgarhlutanum þar sem menn eru þó mjög vanir ferðafólki. Það er því ekki gefið að fá leiðbeiningar hvar sem er ef út í það er farið.
Hægt er að kaupa með klinki miða í öllum strætisvögnum en kaupa verður miða fyrirfram í sporvagna. Verðið er þó hið sama. Stimpla verður alla miða í þartilgerðri vél í sporvögnunum.
Best er í lengstu lög að forðast að taka leigubíla. Bílstjórar hér eru alræmdir fyrir að fara allar mögulegar krókaleiðir til að smyrja ofan á verð og margir þeirra hafa enga opinbera mæla. Þá er ekki ýkja sniðugt að fara að rífast við þá heldur því þeir halda hópinn. Af og til berast fregnir af árásum á ferðafólk sem þvælst hefur um með leigubílum. Skársta leigubílafyrirtækið í borginni er Red Taxi.
Söfn og sjónarspil
> Gamli bærinn (Vecriga) – Óumdeilanlega einn skemmtilegasti miðbær nokkurrar borgar Evrópu og hægt að hafa uppi mörg orð um ágæti hans þó vissulega séu stöku hús í meiri niðurníðslu en fallegt geti talist. Hér er iðandi mannlíf öllum stundum og ferðamenn algengir enda þessi borgarhluti fyrir allnokkru kominn á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Byggingarnar minna oft á tíðum meira á arkitektúr vestrænni borga í Evrópu en rússnesk áhrif leyna sér heldur ekki. Þessi hluti var byggður á árunum 1860 til 1914 og hefur haldið sér býsna vel. Borgarráð Ríga býður upp á hreint ágæta upplýsingasíðu um miðborgina hér sem gerir miðborginni góð skil.
> Ríga kastali (Rigas Pils) – Eitt af ómissandi húsum í gömlu borginni er þessi hvíti kastali. Reisuleg bygging sem hefur verið ítrekað breytt gegnum tíðina en heldur sjarma sínum þó ekki sé kastalinn sérstaklega ógnvekjandi. Hér er aðsetur forseta Lettlands en jafnframt eru hér innandyra tvö söfn. Þjóðminjasafnið þar sem saga lands og þjóðar er rakin og margt forvitnilegt ber fyrir augu. Einnig er hér Safn erlendra listmuna þar sem ýmis verk erlendra listamanna prýða gólf og veggi. Kastalinn og söfnin opin alla daga nema mánudaga milli 10 og 17. Kastalann finna allir sem eru á röltinu á annað borð en fyrir hina er staðsetningin Pils Laukum 3. Heimasíðan.
> Stóri Kristófer (Lielais Kristaps) – Við árbakkann Daugava árainnar skammt frá Ríga kastala er að finna merkilegt glerbúr sem hýsir eftirmynd af hinum Stóra Kristófer. Enginn veit í raun sögu hans en einhvern tíma á fimmtándu öld birtist tréstytta af honum á þessum stað og síðan hafa borgarbúar litið styttuna sem verndardýrling borgarinnar.
> Dómkirkjan (Doma) – Falleg dómkirkja Ríga er fyrir löngu orðin táknræn fyrir borgina. Hún hefur ítrekað verið eyðilögð gegnum tíðina og byggð upp strax aftur en fyrir vikið má finna í byggingunni margvíslega stíla sem taka mið af hinum mismunandi arkitektum sem hana byggðu hverju sinni. Orgel dómkirkjunnar er einnig nokkuð tilþrifamikið enda það fjórða stærsta í veröldinni með tæplega 6.800 pípum.
> Dómirkjutorgið (Doma Laukums) – Torgið fyrir framan dómkirkjuna er af borgarbúum sagt hjarta borgarinnar og þar með gamla borgarhlutans.
> Péturskirkjan (Sv.Pêtera Baznïca) – Þessi gotneska kirkja við Skarni götu er ekki síðri en dómkirkjan sjálf en Péturskirkjan er bæði notuð til messu og tónleikahalds í dag. Hún, eins og dómkirkjan, hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum eftir að hún var reist upphaflega árið 1209. Turn kirkjunnar er opinn ferðafólki og þaðan gefur að líta fína útsýn yfir gamla hlutann og víðar.
> Ráðhústorgið (Ratslaukum) – Á árum áður var þetta fundarstaður bæjarbúa en þetta torg hefur tekið breytingum og þar sjást nú aðallega ferðamenn nú á stundum. Torgið og húsin í kring voru algjörlega eyðilögð í Seinni heimsstyrjöldinni og aðeins Ráðhúsið sjálft og Hús járnsmiðanna hafa verið endurbyggð eins og þau voru. Bæði afar falleg og bera af.
> Frelsisstyttan (Brīvības piemineklis) – Gríðarstór og glæsileg stytta til minningar um þá sem létust í frelsisbaráttu Letta á sínum tíma. Styttan er 42 metra há, efst í Brivibas stræti, og er miðpunkturinn hvenær sem sögu þjóðarinnar er minnst með einum eða öðrum hætti. Litlu munaði að hún yrði brotin niður þegar Sovétmenn tóku yfir Lettland í kjölfar Seinni heimsstyrjaldar en af því varð þó ekki.
> Óperuhúsið (Latvijas Nacionālā Opera) – Skammt frá Frelsisstyttunni við Aspazijas breiðgötuna stendur Óperuhús borgarinnar sem þykir afar glæsilegt í arkitektarlegu tillliti. Ekki síður hafa unnendur listsýninga og ópera gaman af að sjá sýningar hér og margar stærri sýningarnar eru þýddar á ensku á sérstöku textaspjaldi. Leiðsögn um húsið er í boði alla daga frá 10 og kostar sá rúntur 800 krónur. Ekki gleyma garðinum fyrir framan húsið sem er einnig yndislegur þegar heitt er í veðri. Heimasíðan.
> Bíla- og hjólasafnið (Rīgas Motormuzejs) – Þetta safn er talið eitt af þeim betri í Austur Evrópu en þarna má sjá ýmis konar bíla, hjól, traktora og önnur vélknúin ökutæki sem notuð hafa verið hér og í nágrannalöndum síðustu áratugi. Hér er til dæmis einn af bílum Stalíns til sýnis. Safnið stendur við S. Eizenšteina strætið en þangað fara strætisvagnar 5 og 15 beint frá miðborginni. Opið daglega milli 10 og 18. Miðaverð 650 krónur. Heimasíðan.
> Hús þriggja bræðra (Tris Brali) – Við Maza Pils götuna eru þrjú sérstaklega merkileg hús hvert við annað. Ekkert þeirra er byggt með sama hætti. Þau eru elstu uppistandandi hús borgarinnar og hús númer 17 sérstaklega merkilegt enda elst húsanna þriggja. Húsin voru öll byggð á 15. öld. Í húsi númer 19 er nú til húsa Arkitektúrsafn þar sem saga húsanna og arkitektúrs almennt í Ríga er til kynningar.
> Latneska stríðsminjasafnið (Latvijas Kara Muzejs) – Þetta forvitnilega safn stendur við Smilzu götu og er að hluta inni í gömlum turni sem áður fyrr geymdi púður og dregur nafn sitt af því. Hér má sjá stríðstól síðustu 700 ára og sérstök áhersla á vopn sem notuð voru í Fyrri heimsstyrjöldinni. Forvitnilegast er kannski að safnið var sett á fót af Sovétmönnum til að sýna borgarbúum yfirburði vígvéla móðurlandsins. Opið daglega 10 til 18. Aðgangur frír. Heimasíðan.
> Kattahúsið (Kaku Nams) – Kattahúsið við Meistarugötu á sér fyndna sögu. Toppur þess er skreyttur styttum af köttum sem upphaflegur eigandi setti upp með afturendann fram á við vegna deilna sem hann átti við kaupmenn á sínum tíma. Kaupmannahúsið stóð beint á móti og með aðgerðum vildi eigandinn sýna hvað sér finndist um kaupmennina. Þeir höfðuðu mál sem þeir unnu og það útskýrir af hverju kettirnir snúa nú fram. Verra er að eigandinn sjálfur féll niður af þaki sínu við að koma styttunum fyrir og lét lífið.
> Sænska hliðið ( Zviedru Vārti) – Örskammt frá Stríðsminjasafninu stendur eina borgarhlið Ríga sem enn stendur en ekkert er þó eftir af borgarveggnum sjálfum sem náði vitaskuld kringum alla borg hér seint á átjándu öld.
> Þjóðminjasafnið (Latvijas Etnogrāfiskais Brīvdabas Muzejs) – Þetta ágæta safn er undir beru lofti og sýnir kotmenningu Letta á 18. og 19. öldinni. Safnið er í raun eitt hið fyrsta sinnar tegundar þar sem sett er upp sögusafn með tilheyrandi arkitektúr og leikurum sem fara með hlutverk venjulegra þorpsbúa í litlu lettnesku þorpi. Safnið er í úthverfi borgarinnar við Bravibas 440 á bökkum Jugla vatnsins. Strætisvagnar 1, 19 eða 28 að Bravibas Muzejs. Opið 10 til 17 alla daga. Aðgangseyrir 600 krónur. Heimasíðan.
> Hernámssafnið (Latvijas Okupācijas muzejs) – Eitt allra vinsælasta safn Lettlands er þetta nútímalega safn við Strelniekutorg við hlið Ráðhússtorgsins. Hér er að opinskáan hátt lýst afdrifum gyðinga og annarra þeirra sem ekki voru nasistum eða Sovétmönnum að skapi meðan ár hernámi þeirra stóð í Seinni heimsstyrjöldinni og eftir það. Áhrifaríkt safn og ómissandi. Opið 10 til 17 á veturna en 10 til 18 á sumrin. Miðaverð helgast af vilja hvers og eins. Heimasíðan.
> Dýragarðurinn (Rīgas Zooloģiskais Dārzs) – Ágætur dýragarður við Meža prospekts en þar er ennfremur yndislegur skógi vaxinn borgargarður. Flest hefðbundin dýr má sjá hér og kynna sér og það nær líka til skordýra en um 500 tegundir af þeim eru hér líka. Stöku dýr hér eru fágæt í flestum vestrænum dýragörðum eins og til að mynda villltir Tíbetapar. Sporvagn númer 11 frá miðbænum. Opið alla daga allt árið milli 10 og 17. Aðgangur 950 fyrir fullorðna en 750 fyrir yngri en 16 ára. Heimasíðan.
Til umhugsunar: Í íbúðahverfum við Mezagarðinn er að finna eitt mesta úrval heims af byggingum í svokölluðum jugendstil sem mörgum þykir afar glæsilegur byggingarstíll. Hér bjuggu líka lengi vel þeir sem mest máttu sín í Ríga. Þá má og geta þess að borgargarðurinn var einn sá fyrsti í heiminum sem var formlega skipulagður af borgaryfirvöldum.
> Sjónvarpsturninn(Rigas Radio un Televizijas Tornis) – Þriðji hæsti sjónvarpsturn Evrópu er staðsettur á eynni Zakusala í nágrenni Ríga. Hann er 368,5 metra hár og í 97 metra hæð er útsýnispallur sem gefur ágæta sýn yfir borgina, langt inn í land og jafnframt langt út á haf. Taka verður leigubíl hingað ellegar koma hingað með leiðsögn.
> Moskvuhverfið (Maskavas forštate) – Eitt hverfi borgarinnar er kyrfilega rússneskt og þar eru næstum alfarið timburhús í sovéskum stíl. Forvitnilegt að taka rúnt um slíkt hverfi fyrir þá sem ekki þekkja en gæta skal að því að glæpir eru hér meiri en annars staðar og sérstaklega eftir að skyggja tekur.
> Frelsiskirkjan (Svētā Pestītāja Rīgas baznīca un draudze) – Þessi gotneska kirkja við Klostera Iela var byggð 1857 af breskum kaupmönnum sem ekki vildu aðra guði hafa en sinn eigin. Ekki nóg með það heldur fluttu þeir allt byggingarefnið frá Bretlandi og því má segja að kirkja sé bresk í alla staði. Heimasíðan.
> Wagner tónlistarhúsið (Vāgnera Zāle) – Þýska tónskáldið Richard Wagner bjó um tíma í Ríga og það var hér sem óperan um Hollendinginn fljúgandi var fyrst flutt undir hans stjórn 1837. Húsið hefur verið endurgert og er lítið og fallegt og enn fara hér fram sýningar og smærri tónleikar. Húsið stendur við götu sem nefnd er eftir tónskáldinu Riharda Vāgnera götu. Heimasíðan.
> Járnsmiðahúsið (Melngalvju Nams) – Annað tveggja glæsilegra húsa við Ráðhústorgið er hús Járnsmiðanna sem var lengi ein glæsilegasta bygging í allri borginni. Það var eyðilagt illa í Seinni heimsstyrjöldinni og í kjölfarið rifið af Sovétmönnum. Borgaryfirvöld endurbyggðu það frá grunni og opnuðu á 800 ára afmæli borgarinnar árið 2001. Ekki aðeins er byggingin afar falleg heldur og hægt að skoða það að innan og þar eru salirnir ekki dónalegir. Þar gefur einnig að líta silfurmuni er voru í eigu Járnsmiðafélagsins. Þess er og vert að geta að á fyrstu hæðinni er upplýsingamiðstöð ferðamanna í borginni. Opið 10 ti l17 alla daga. Heimasíðan.
> Sólarsafnið (Saules Muzejs) – Flestir borgir eiga sér minnst eitt undarlegt eða öðruvísi safn. Ríga á Sólarsafnið við Valnustræti þar sem áhugasamir geta fræðst um alla sólarsögu sólarinnar. Óhætt að mæla með þessu safni sem er einstakt í Evrópu þó söfn tileinkuð sólinni finnist einnig í Suður Ameríku. Safnið er þó fyrst og fremst ætlað til að færa smá sól í hjarta fólks og hér er vinnustofa þar sem hægt er að útbúa hluti til að fylla hjarta nákominna með sól og birtu. Opið daglega 10 til 19. Miðaverð og aðgangur að vinnustofunni 550 krónur. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Þó verðlag hafi hækkað talsvert í Lettlandi síðustu árin eins og annars staðar er hér enn hægt að gera hagstæð innkaup á ýmsum vörum. Verra kannski að úrval og þá kannski sérstaklega á fatnaði er í raun ekki upp á marga fiska og reyndar ótrúlega fáar fataverslanir í borginni.
Enginn verður svikinn af því að heimsækja Markaðinn, Centrāltirgus, sem aðeins er í þriggja mínútna fjarlægð frá gömlu borginni við Umferðarmiðstöð Ríga. Þar ægir saman hundruðum bása þar sem allir rembast við að selja allt milli himins og jarðar. Markaðurinn er bæði úti og inni og við hlið verslunarmiðstöðvarinnar Stockmann sem er El Corte Ingles þeirra Letta. Markaðurinn er
Standi vilji til að versla rússneska eða muni frá gamla Sovétinu er ráð að halda á sovéska markaðinn, Latgalite, á horni Gogola og Dzirnavu stræta.
Matur og mjöður
Ekki eru Lettar neinir meistarar í matargerð en hér finnst þó fjöldi góðra matsölustaða og verðlag aldeilis ágætt yfir línuna. Almennt tekur lettneskur matur eftir þeim sovéska og margir nærast á káli, kartöflum, svínakjöti og fiskur er talsvert vinsæll á borðum landsmanna.
Nokkrir veitingastaðir sem fá fínar einkunnir meðal ferðafólks eru:
- Osiris > K. Barona stræti 31
- Melnie Muki > Jana Seta 1
- Vincents > Elizabetes Iela 19
Gnótt fínna bara eru um alla borg og nóg af þeim í gamla borgarhlutanum. Í þeim flestum má fá eitthvað matarkyns líka. Sjálfsagt að prófa þá alla. Einn bar sérstaklega er betri en aðrir hvað útsýni varðar. Það er Skyline Bar á efstu hæð Radisson hótelsins við Elizabetes Iela 55. Kokteilbar sem hefur séð betri tíma en útsýnið er eðalfínt.
Nokkrir barir í gamla bænum reka svokallaða bjórgarða, Alus Seta, þar sem indælt er að sitja fram eftir kvöldum ef veður er gott. Á þeim er hægt að fá afgreiddan mat oft á tíðum langt fram eftir kvöldum og stundum fram eftir nóttum um helgar. Slíkt er oft ódýrasti kosturinn í mat.
Lettar framleiða ágæta bjóra sem flesta má fá á helstu börum borgarinnar. Stærstu merkin eru Aldaris og Tērvetes.
Líf og limir
Því miður er það svo að minniháttar glæpir og svindl eru algeng í borginni. Þjófar eru víða og sérstaklega meðal ferðamanna í hópum. Þá er einhvern veginn svo að í loftinu er ávallt einhver skrýtin stemmning og margir tala um að hér verði þeir ósjálfrátt varari um sig en víða annars staðar.
Ýmislegt er að varast. Leigubílstjórar reyna næstum alltaf að svindla. Viðkunnalegt fólk úti á götu er reiðubúið til hjálpar hvenær sem er eða þangað til veskið þitt er horfið. Þá eru allmargir hér sem ekki sýna ferðafólki neins konar lit og geta verið ógnandi. Varast skal að vera ein á þvælingi eftir að skyggja tekur.
Hér sem annars staðar er eina ráðið að fara með gát, nota heilbrigða skynsemi, og skilja alltaf helstu verðmæti eftir á hótelinu.
View Áhugaverðir staðir í Ríga í Lettlandi in a larger map