S ennilega dytti fáum í hug að bera saman London í Englandi og Cordoba á Spáni. Önnur heimsklassa milljónaborg með allri mögulegri tækni og þjónustu og hin að mörgu leyti eins og gleymst hafi í tíma.

Enn færri dytti í hug að fyrir rösklega tíu öldum síðan meðan stórborgin London var bara druslulegt þorp sem vart fannst á korti var Cordoba borg borganna og hér var komin götulýsing áður en nokkur kveikti á peru á hinni bresku eyju.

Cordoba var ein af mestu borgarperlum heims en hefur mikið til fallið í gleymsku og skuggann af vígalegri borgum Evrópu og heimsins. Engar aðrar borgir státa af því að hafa verið höfuðborg þriggja trúarhópa en á sínum tíma var Cordoba höfuðborg Rómarveldis, Hispana Ulterior, höfuðborg arabíska landsins El Andaluz og Kalífat eða allsherjarríki Íslam.

Ótrúlegt nokk þá hefur borgin náð að viðhalda nokkrum sérkennum sínum frá þessum tímum og er leitun að meiri menningarverðmætum á einum og sama blettinum. Er enda stór hluti hennar á Heimsminjaskrá sem arfur mannkyns.

Hér búa þó aðeins tæplega 400 þúsund íbúar og þó hingað séu fínar samgöngur frá bæði Sevilla og Madríd með hraðlestum er borgin alltaf dálítið útundan hjá ferðafólki utan háannatíma á sumrin. Sem er synd.

Það breytir ekki því að yfir hásumartímann er gamla miðborgin pakkfull af ferðamönnum enda fáar spænskar borgir sem losna við það.

Til og frá

Langflestir koma hingað með hraðlestum Renfe frá Madríd eða Sevilla en frá fyrrnefnda staðnum tekur tæpa tvo tíma að komast hingað. Frá Sevilla hins vegar tekur ferðin aðeins 50 mínútur. Hingað er líka komist með lest frá Malaga en sú er hæg og laus við þægindi.

Hér er flugvöllur, Aeropuerto de Cordoba, en sá er fyrst og fremst innanlandsvöllur þó eitt og eitt lágfargjaldaflugfélög fljúgi hingað. Völlurinn er í 20 mínútna fjarlægð frá borginni og rútur, bílaleigubílar og leigubílar í boði til og frá.

Samgöngur og skottúrar

Samgöngur innanbæjar eru afbragð og gnótt strætisvagna þvælast um króka og kima daga og nætur. Þörfin á þeim fyrir ferðafólk er þó takmörkuð því sá bæjarhluti er skoðunar er verður næst auðveldlega fótgangandi á tveimur dögum eða svo í rólegheitum.

Annars er borgin ekki of stór til að þvælingur með strætisvagni komi nokkrum í ógöngur kjósi fólk að skoða annað og meira en gamla bæinn. Miðaverð er 170 krónur.

Söfn og sjónarspil

>> Moskan (La Mezquita) – Frægasta og tilþrifamesta bygging í allri Córdoba og þótt víðar sé leitað er þessi þriðja stærsta moska heims sem einnig er, merkilegt nokk, dómkirkja. Saga þessarar byggingar er líkust hreinni skáldsögu en hér byrjuðu heiðnir á að byggja sér hof, þjóðflokkur Vísigota reisti sér svo kirkju áður en márar hentu saman eins og einni mosku. Að síðustu breyttu Rómverjar henni í kirkju á nýjan leik með því að byggja dómkirkju innan í moskunni. Er hún enda þekkt meðal borgarbúa sem moskan/kirkjan. Moskan er stórfengleg á alla kanta og fer ekki framhjá neinum sjáandi manni sem stikar um miðborg Córdoba. Hún er opin skoðunar daglega milli 8:30 og 20. Miðaverð án leiðsagnar 1.300 krónur. Heimasíðan.

>> Bærinn stórkostlegi (Medina Azahara) – Í vestur frá Córdoba, við rætur Sierra Morena fjalla, er að finna það sem á arabísku þýðir bæinn stórkostlega. Þetta eru leifar höfuðborgar Íslam sem árið 940 var byggð hér á 110 hektara svæði. Töluvert leifir enn af bænum og mikið að sjá og skoða. Bærinn er spottakorn frá borginni en sérstakir strætisvagnar fara þá leiðina tvisvar á dag yfir sumartímann. Opið daglega 10 til 20:30 en skemur á veturna. Aðgangur 400 krónur.

>> Kastali hinna kristnu konunga (Alcazar de los Reyes Cristianos) – Vígamikill kastali nálægt moskunni í miðbænum sem reistur var bæði sem tákn um mikilfengleika konungdæmisins en ekki síður sem borgarvirki. Ómissandi skoðunar og garðar kastalans eru yndislegir í sumarhitunum. Opið alla daga nema mánudaga 8:30 til 19:30 en lokar gjarnan yfir síestuna í hádeginu. Aðgangur kostar 750 krónur en frítt alla miðvikudaga.

>> Bænahús gyðinga (La Sinagoga) – Ekki kannski ýkja merkileg skoðunar en hefur unnið sér til frægðar að vera ein af þremur bænahúsum alls á Spáni og sú eina í Andalúsíu. Byggð 1319 og var um tíma sjúkrahús fyrir fólk með hundaæði. Sinagógan stendur við Gyðingastræti, Calle de Judios. Frítt inn.

>> Blómastrætið (Calleja de las Flores) – Yfir sumartímann skartar ein gata sérstaklega sínu fegursta. Það er Blómagatan við hlið moskunnar miklu en gatan atarna hefur náð hylli fyrir veglegar skreytingar í þröngri götu.

>> Rómverska brúin (Puente Romano) – Stórglæsileg 250 metra löng rómversk steinbrú yfir Guadalquivir sem er sérstaklega tilþrifamikil á kvöldin þegar hún er lýst upp. Nafnið felur þá staðreynd að þó Rómverjar hafi hafið byggingu hennar voru það Márar sem bættu við hana öfugt við það sem gerðist við moskuna miklu. Stytta af heilögum Rafael er á brúnni miðri en sá er verndardýrlingur borgarinnar.

>> Kriststorgið (Plaza del Cristo de los Faroles) – Fallegt torg við Alfaro stræti en þar er stytta af Jesú á krossi sínum sem skreytt er með kertum, lömpum og blómum.

>> Potrotorg (Plaza del Potro) – Lítið fallegt torg sem kemur við sögu í hinnu eitruðu skáldsögu Cervantes um Don Quijote.

>> Viana höllin(Palacio de Viana) – Fyrrum höll Viana ættarinnar en nú ríkissafn. Áhrifamikið safn ýmissa muna hér að sjá enda ættin atarna vellauðug og sat ekki á peningum sínum mikið. Byggingin sjálf tilkomumikil, garðarnir stórkostlegir og salir hallarinnar hver öðrum fallegri. Höllin stendur við Don Gome torgið. Opið daglega nema mánudaga 10 til 19. Greiða þarf 900 krónur fyrir aðgang að öllu en 500 krónur til að spássera um glæsilegan garðinn.

>> Fernandinas kirkjurnar (Iglesias Fernandinas) – Samheiti yfir þær fjórtán kirkjur sem finnast á litlu svæði í miðborginni. Margar þeirra fallegar og allar opnar ferðafólki nema á messutímum.

>> Calahorra turninn (Torre de la Calahorra) – Elsta varnarvirki borgarinnar er þessi turn sem stendur við annan enda rómversku brúarinnar. Hálfpartinn virki og það áhrifamikið. Þar er nú Sögusafn Andalúsíu með áherslu á sögu Cordóba og margt þar forvitnilegt að sjá. Opið 10 til 20:30 daglega en lokað í hádeginu. Heimasíðan.

>> Konunglegu hesthúsin (Caballerizas Reales) – Við samnefnda götu stendur það sem áður fyrr voru konungleg hesthús og sú bygging sannarlega verð skoðunar. Glæsilegur arkitektúrinn vekur athygli og ljóst að aðbúnaður hestanna hefur verið fyrsta flokks svo ekki sé meira sagt. Hér er líka skeiðvöllur og yfir sumartímann er jafnan boðið upp á veigamiklar hestasýningar sem áhugafólk ætti ekki að missa af. Á slíkar sýningar kostar 2.200 krónur fyrir fullorðinn. Heimasíðan.

>> Rómverska musterið (Templo Romano) – Ekki musteri í orðsins fyllstu heldur leifar þess. Það stendur við ráðhús borgarinnar við Claudio Marcelo götu.

>> Grasagarðurinn (Jardin Bótanico de Cordoba) – Í góðu meðallagi miðað við grasagarða heims sem jafnan er gott að koma í þegar mestur vindur er úr fólki eftir þvæling í erlendum borgum. Avenida de Linneo. Kostnaður 290 krónur. Heimasíðan.

>> Rannsóknarréttarsafnið (Casa de la Inquisición) – Allir sögufærir menn þekkja til tíma spænska rannsóknarréttarins illræmda. Þetta safn gerir þeim tíma góð skil í máli og myndum. Hér má meðal annars sjá fjölda þeirra pyntingar- og dauðatóla sem notaðir voru gegn þeim trúlausu. Calle Manríques. Opið 10 til 21 alla daga. Miðaverð 550 krónur. Heimasíðan.

>> Fornleifasafnið (Museo Archeológico de Cordoba) – Eins og gefur að skilja frá svæði með jafn mikla sögu er fornleifasafn borgarinnar pakkfullt af fróðlegum munum. Þá eru hér leifar rómversks hringleikahúss sem ómissandi er að skoða. Plaza de Jerónimo Páez. Opið virka daga nema mánudaga milli 10 og 17 en skemur um helgar. Aðgangur 400 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Á spænskan mælikvarða er Cordoba almennt í ódýrari kantinum og því óvitlaust að versla. Gallinn helst sá að lítil er hér fjölbreytni enda borgin lítil. Borgin er helst þekkt fyrir sérstaka aðferð við að vinna leður og merkja, curero repujado, og nokkrar slíkar vinnustofur selja vinnu sína í gömlu miðborginni.

Helstu verslunargöturnar eru kringum Tendillas torgið; Concepción, Cruz Conde og breiðgöturnar Gran Capitán og Ronda de los Tejares.

Matur og mjöður

Tonn af börum og knæpum er víðs vegar í Cordoba og flestir afgreiða þeir mat af ýmsu tagi. Alvöru veitingastaðir eru öllu færri og innan við 20 sem alvöru bragð er að samkvæmt Michelin eins og sjá má hér.

Líf og limir

Borgin er ekki þekkt fyrir háa glæpatíðni og tiltölulega lítið hér að óttast fyrir ferðafólk. Heilbrigð skynsemi skilar flestum heilum heim aftur.

View Áhugaverðir staðir í Cordóba á Spáni in a larger map