L eiki einhver vafi á hvernig biblíutrúin getur leikið fólk er heimsókn í fjallabæinn Lourdes í Pyreaneafjöllunum í Frakklandi þjóðráð. Sérstaklega er sjónarspil að upplifa dag hér í ágústmánuði ár hvert en þessi fyrrum svefnbær er einn allra helgasti áfangastaður rómversk-kaþólskra hér á jörð og trúarhiti margra gesta síst minni en gerist í Mekka hjá múslimum.

Bærinn sjálfur er bærilegur í besta falli. Hér búa rúmlega fimmtán þúsund manns og margir þeirra starfa enn með einum eða öðrum hætti við landbúnað þó þeim fjölgi stöðugt sem lifa af ferðamennsku einni saman. Ekki að furða því hvorki fleiri né færri en fimm milljón gestir heimsækja þennan bæ hvert einasta ár. Til samanburðar má nefna að 600 þúsund manns heimsóttu Ísland allt árið 2012 og þótti mörgum nóg um. Enn merkilegra er að bærinn ræður við þennan fjölda.

Til þess þarf auðvitað þjónustu og gistimöguleika og með tæplega 280 hótel og gistihús er það aðeins París þar sem finna má fleiri hótel á hvern íbúa en hér í Lourdes. En það aftur gerir bæinn ansi hreint innantóman.

Og hvað er svo aðdráttaraflið? Fyrst og fremst er það hellir einn  þar sem fátæk sveitastúlka, Bernadette, sá hina heilögu Maríu Guðsmóður birtast sér ítrekað. Leiðbeindi Guðsmóðirin stúlkunni að áður ófundinni uppsprettu í helli þessum og síðan hafa trúaðir talið vatnið úr þeirri uppsprettu heilagt og hafa lækningamátt.

Ekki færri hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum hér í bæ. Einn þeirra er þjóðarskáldið okkar Halldór Laxness sem hingað kom að beiðni veikrar konu árið 1923 en varð þá fyrir vonbrigðum með eilífa sölumennsku og græðgisvæðingu. Enda hér ekkert ókeypis nema lækningavatnið og ekki er hlaupið að því að komast í það.

Til og frá

Augljóslega skiptir máli hvenær árs fólk sækir Lourdes heim ætli það á annað borð að njóta. Mannfjöldinn hér yfir sumarmánuðina er hreint ægilegur og í ágúst þegar flestir koma hingað er hér ekki líft og raðir inn á hverja einustu búllu.

Sömuleiðis er umferðin lítið grín sumarmánuðina en fjölmargir koma hingað á einkabílum og rútur skipta hundruðum. Bílandi er auðvelt að komast að bænum en öllu verra mál að þvælast um hann bílandi. Götur eru bæði þröngar og dálítið villandi því margar þeirra eru einstefnugötur. Þá þarf ekki að segja neinum að bílastæðaleit hér getur tekið tímann sinn.

Vænlegast er að koma með lest því ekkert stoppar þær. Ferðir eru hingað frá flestum nágrannaborgum eins og Toulouse og Lyon og hingað er komist frá París á sex tímum hafi fólk tíma fyrir slíkt. Lestarstöðin er auðvitað í miðbænum og því stutt á hótel.

Sömuleiðis eru áætlunarferðir með rútum frá öllum helstu nágrannabæjum og borgum og það gildir líka um borgir á Spáni en héðan er stutt yfir landamærin hinu megin Pýreneafjalla.

Næsti flugvöllur er Tarbes-Lourdes í um 20 mínútna fjarlægð frá bænum sjálfum. Völlurinn sá er fyrst og fremst innanlandsvöllur í minni kantinum og þjónusta takmörkuð sem því nemur. Engu að síður bjóða nokkur lággjaldaflugfélög flug hingað og til að mynda frá London.

Leigubíll frá vellinum og inn í Lourdes kostar tæpar 4.000 krónur plús farangursgjald.

Söfn og sjónarspil

Merki Lourdes, sverð og skjöldur er svæði það sem kaþólska kirkjan hefur eignað sér hér og reist hér bænahús og kirkjur á litlum 52 ferkílómetrum. Má segja að meirihluti þess hluta bæjarsins sem er vestan við ánna Gave de Pau. Skiptir áin sú bænum í tvennt en hótel og verslanir eru að stærstum hluta austanmegin.

Til umhugsunar: Hér er mikill fjöldi bænastaða, kirkja, klaustra og annarra staða tengdum kaþólsku kirkjunni með einum eða öðrum hætti. Hér er aðeins tæpt á því allra helsta því reyndin er sú að fólk almennt hefur takmarkaðan áhuga að skoða allt sem hægt er hér.

>> Hellisskútinn helgi (Grotte de Lourdes) – Skútinn sem allt snýst um og hvar smalastúlkan sá Maríu Mey birtast sér einum átján sinnum er staðsettur í kletti fyrir neðan Rosary kirkju við árbakkann. Það var hér sem Bernadette fann tærar lindir eftir ábendingu Guðsmóðurinnar og hér drekka allir sem geta í þeirri von að vatnið sé allra meina bót. Sjá má við innganginn hækjur og hjólastóla þeirra sem lækningu hafa fengið gegnum tíðina en víst eru þeir mun fleiri sem fara héðan jafn slæmir og þeir komu þó drekki þeir vatnið sýknt og heilagt. Búið er að leiða vatnið í krana fyrir utan og merkilegt nokk er vatnið helga frítt. Líkneski af Maríu Mey stendur fyrir utan hellinn og vígðir menn messa hér reglulega.

>> Efri basilíkan (Basilique de l’Immaculée Conception) – Önnur kirkjan af þremur alls á sama blettinum eða því sem næst. Glæsileg smíð frá árinu 1876 og gjarnan kölluð efri basilíkan sökum þess að þriðja kirkjan og sú stærsta er neðanjarðar og eðli málsins samkvæmt oft kölluð neðri-basilíkan. 70 metra hár turn hennar er áberandi en hún skartar tveimur smærri turnum til viðbótar. Hér fer fram messa hvern einasta dag ársins og það á einum sex mismunandi tungumálum í einu. Heimasíðan.

>> Neðri basilíkan (Basilique Saint-Pie X) – Þess verður lítið vart á yfirborðinu en ein stærsta kirkja heims er að öllu leyti niðurgrafin. Hér rúmast hvorki fleiri né færri en 25 þúsund manns í einu en kirkjuskipið eitt og sér er 191 metra langt. Hönnunin sem var og er mjög umdeild á að tákna skip á hvolfi þegar staðið er í kirkjunni miðri.

>> Rosary kirkjan (Basilique Notre-Dame-du-Rosaire de Lourdes) – Þriðja mest áberandi kirkjan hér á litlum bletti er þessi fallega kirkja í býzantískum stíl.

>> Bernadette safnið (Musée Ste-Bernadette) – Eins og nafnið gefur til kynna er hér hægt að kynna sér í þaula sögu stúlku þeirrar er María Mey birtist árið 1858. Bernadette gekk síðar í klaustur og endaði líf sitt sem nunna og er fyrir löngu komin í dýrlingatölu hjá kaþólsku kirkjunni. Boulevard Rémi Sempé. Opið 10 til 12 og 14:30 til 17 yfir annatímann. Aðgangur frír

>> Fæðingarheimili Bernadette (Maison Paternelle de Sainte Bernadette) – Meira af stúlkunni Bernadette fyrir áhugasama. Hér fæddist hún og lifði fram á unglingsár og á þeim tíma sem Guðsmóðirin birtist henni. Hreint ekkert stórmerkilegt að sjá. Rue Bernadette-Soubirous. Opið 9 til 12 og 14 til 17 vor og sumar. Aðgangseyrir 400 krónur.

>> Grevin vaxmyndasafnið (Musée Grévin) – Túristagildra par exellens. Hér má sjá helstu goð kaþólskra og að sjálfsögðu Bernadette vinkonu okkar í líkamsstærð. Grætilega hallærislegt en fjölsótt enda ekki stórkostlegt mikið annað í boði hér í bæ. Rue de la Grotte. Opið 9 til 12 og aftur 14 til 18 yfir sumarmánuðina. Lokað yfir háveturinn. Miðaverð 950 krónur.

>> Virkiskastalinn (Château-Fort de Lourdes) – Loks eitthvað frábrugðið. Kastali þessi stendur hátt og gefur ágæta útsýn yfir bæinn og nágrenni. Innifyrir er lítið en markvert safn gamalla muna úr héraðinu og líkan af bænum meðal annars. Opið 9 – 18 daglega yfir sumartímann en skemur á veturna. Aðgangseyrir 800 krónur.

>> Vöggulistasafnið (Créches du Monde) – Vinsæl farandsýning sem hefur komið hefur sér fyrir í Lourdes næstu árin. Hér gefur að líta vöggur í hundraðatali og flestar tileinkaðar Jesú Kristi á einn eða annan hátt. Þetta er bara fyrir gallharða vögguaðdáendur. Opið 10 til 18 daglega vor og sumar en lokað þess utan. Fullorðnir greiða 900 krónur. Heimasíðan.

>> Útsýniskláfur (Pic du Jer) – Lourdes stendur í fallegu dalverpi og til að vitna fegurðina í kring sem best er ráð að taka kláfferju upp Pic du Jer sem er einn hæsti tindurinn hér í kring eða 948 metra hár. Það kostar reyndar duglega en er þess virði en förin upp snarbratta hlíðina getur tekið á suma. Kláfurinn opinn vor og sumar daglega en lokaður yfir vetrartímann. Avenue Francis Lagardiére. Ein ferð á mann 950 krónur. Heimasíðan.

>> Sacre Coeur kirkjan (Église du Sacré-Coeur) – Upprunalega kirkja bæjarbúa og sú sem hér stóð þegar Bernadette fékk vitrun sína. Kirkjan hefur verið endurbyggð að hluta til eftir að hafa skemmst árið 1908. Rue de l´Église.

>> Gemmail listasafnið (Le Gemmail) – Loks safn sem vert er skoðunar fyrir þá sem lítinn hafa áhuga á vitrunum og kaþólskri trú. Hér eru til sýnis verk ýmissa frægra listamanna eins og Van Gogh og Picasso svo einhverjir séu nefndir og er merkilegt gott safn fyrir lítinn bæ. Ekki er verra að heimsókn hingað er aldeilis ókeypis. Rue de la Grotte. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Hér er fátt eitt að versla nema muni trúarlegs eðlis og allir reyna að pranga inn á þig alls kyns ótrúlegu drasli. Hér fæst allt frá útvörpum og flöskum í Maríu Mey stílnum til krossa og annarra kaþólskra tákna í þúsundavís í velflestum verslunum. Mjög fábreytt og leiðinlegt eftir eina eða tvær heimsóknir. Alls staðar er þó fullt af fólki.

Sé fólk að spá í öðru en trúartáknum og Kristsstyttum er ráð að geyma veskið á hótelinu.

Matur og mjöður

Fjölmargir veitingastaðir eru í bænum sem og barir og minnst einn næturklúbbur. Í flestum tilfellum er um að ræða miðlungs veitingastaði en miðlungsstaður í Frakklandi er nú yfirleitt fínn í samanburði við íslenska veitingastaði marga hverja.

Engu að síður er traffík svo mikil á betri stöðum hér að málið snýst orðið meira um hraða en góða þjónustu eða mat. Vænlegra að halda í nágrannabæi sem margir státa af sérdeilis fínum veitingastöðum.

Líf og limir

Alles gut hér. Helst er það traffík sem fólk þarf að gæta sín á í þröngum götum bæjarins. Bílstjórarnir eru jú franskir.

Smáþjófar eru alls staðar þar sem hrúgur af ferðafólki kemur saman og það á líka við um Lourdes. Geymdu verðmæti á hótelinu og hafðu skynsemi með og þá er hættan engin.

View Lourdes í Frakklandi in a larger map