Skip to main content

Í slenskar ferðaskrifstofur hafa smátt og smátt verið að kveikja á þeirri staðreynd að Benídorm er fyrir löngu orðinn gjörsamlega úreldur og útlifaður þunnildis áfangastaður á Spáni og eru ferðaskrifstofurnar þar, eins og venjulega, einum tíu árum á eftir erlendum ferðaskrifstofum.

Þá hefur verið brugðið á það ráð að finna nálæga staði sem kannski gætu heillað landann. Einn slíkur er bærinn Calpe, Calp á máli innfæddra, til norðurs frá Benídorm en þar er flest það að finna sem Benídorm býður upp á án þess að bærinn sé alveg gegnsósa af túrisma þó stutt sé reyndar í það.

Calpe er kynntur sem gamaldags og ljúft fiskimannaþorp og var það vissulega var fyrir fimmtán til tuttugu árum síðan en ekki lengur og enginn rómantískur andi liðinna fiskiþorpsdaga svífa lengur hér yfir hvað sem bæklingar ferðaskrifstofanna segja. Calpe er í stuttu máli orðinn fórnarlamb fjöldatúrisma fyrir alllöngu síðan.

Þannig er í raun ekki við neinu að búast í Calpe. Þar eru jú fínar strendur og klettadrangurinn Penyal d´Ifach, Ifach klettur, skammt frá gefur bænum vissulega ákveðinn sjarma. Hér búa um þrettán þúsund manns og hartnær helmingur þess eru aðfluttir hingað á síðustu árum.

En auðvitað er auðvelt að lifa hér og sleikja sól og staðurinn er að mörgu leyti hentugur fyrir fjölskyldur sem bara vilja komast frá stressinu heima og liggja í leti. Hér þarf ekki mikið að hafa fyrir neinu.

Gott er að hafa í huga að í Valencíu héraði tala flestir katalónsku og samkvæmt henni heitir Calpe Calp. Leiðir með strætisvögnum gætu því verið merktir með þeim hætti.

Til og frá

Fyrir landann er í raun eina leiðin að fljúga til Alicante og taka bíl hingað. Aeropuerto de Alicant er í 60 kílómetra fjarlægð frá Calpe og akstur hingað tekur um 45 mínútur á hraðbrautinni. Frá flugvellinum eru rútur í boði með rútufyrirtækinu Alsa fimm til sjö sinnum daglega. Farið aðra leið kostar 1.700 krónur en þær stoppa töluvert á leiðinni og 45 mínútna rúnturinn breytist þannig í allt að tveggja tíma rútuferð.

Hægt er einnig að taka hægfara lest/sporvagn frá Alicante til Calpe en þá þarf að koma sér inn í Alicante frá flugvellinum. Tíðar ferðir eru þangað alla daga með strætisvögnum og kostar farið rúmar 400 krónur aðra leiðina. Lest númer L1 er merkt Benidorm en hún fer mun lengra og stoppar í Calpe. Prísinn aðra leiðina um 1.300 krónur á mann. Nánar hér.

Til umhugsunar: Hafa skal hugfast að íslensku flugfélögin lenda oft á tíðum í Alicante um eða yfir miðnætti og rúturnar því ekki í boði á þeim tímum.

Sjá nánar um Alicante hér.

Loftslag og ljúflegheit

Fyrir frosna Frónbúa er hitastig í Calpe tær snilld. Á sumrin er meðalhitastig milli 25 og 30 gráður en fólk finnur takmarkað fyrir hitanum sökum andvarans frá hafinu. Yfir vetrartímann húrrar hitinn niður í þetta sjö til tíu gráður en fer sjaldan niðurfyrir það nema yfir blánóttina.

Samgöngur og skottúrar

Til og frá Calpe ganga vagnar til nágrannabæja og borga reglulega auk þess sem sporvagninn fer reglulega einnig til nágrannabæja og borga við ströndina.

Innan Calpe er engin þörf á neinu nema tveimur jafnfljótum enda bærinn lítill.

Söfn og sjónarspil

Minnst ein íslensk ferðaskrifstofa auglýsir að í Calpe séu „mörg skemmtileg söfn“ en því fer fjarri og líklegast verið að rugla saman við París þar sem sannarlega finnast „mörg skemmtileg söfn.“

>> Ifach klettur (Penyal d´Ifach) – Þessi stórmyndarlegi 332 metra hái klettur er vel í göngufæri frá Calpe og þó kletturinn sé í raun þjóðgarður er bæði gaman og fróðlegt að klífa hann á góðviðrisdegi. Sérstök göng hafa verið boruð í hann miðjan fyrir göngu- og klifurfólk og er upplifun að fara þá leiðina. Af toppnum er útsýnið stórkostlegt ef veður er gott og lítið mál að sjá alla leið til Mallorca og hinna spænsku eyjanna lengst úti á hafi. Hafa skal í huga að göngin eru þó lokuð yfir síestuna milli 14 og 16 og eru aðeins opin til 14 utan háannatíma. Heimasíðan.

>> Rauði múrinn (La Muralla Roja) – Rauði múrinn er íbúðarhús í Calpe og ein þriggja bygginga sem hannað er af arkitektastofu Ricardo Bofill. Æði sérstakt og annaðhvort er fólk afar hrifið eða alls ekkert hrifið. Rauði múrinn er eldrauð íbúðarblokk sem minnir á virkisveggi og er fróðleg skoðunar. Aðrar byggingar eftir Bofill í Calpe eru Xanadu og Hringleikahúsið en hið síðastnefnda stendur hátt í bænum og gefur fantagott útsýni.

>> Virkisturninn (Torreo de la Peça) – Líkt og flestir bæir við ströndina var Calpe á sínum tíma umkringt virkisveggjum. Lítið er eftir en þó þessi fallegi virkisturn sem dagsettur er frá fjórtándu öld. Einn annar hluti virkisins stendur enn. Það er fallegt virkishlið, Forat de la Mar, við sjávarsíðuna.

>> Safnaðarkirkjan (Iglesia de Nuesta Señora de las Nieves) – Falleg kirkja við hið falleg La Villa torg í gamla bænum. Hún er nýleg en skemmtilega skreytt.

>> Drottningarböðin (Baños de la Reina) – Við strandlengjuna skammt frá Ifach kletti er að finna leifar gamalla heitra lauga sem sagnir segja að hafi verið byggð og nýtt af háttsettum Márum þegar þeir réðu ríkjum hér um tíma. Merkilegar minjar um afar framsækna þjóð.

>> Þvottalaugarnar (Llavador de la Font) – Jebbs, alveg eins og í Laugardalnum en örlítið fallegri umgjörð utan um gamlar þvottastöðvar íbúa.

>> Fornleifasafnið (Museo Archeologico) – Allsæmilegt safn muna frá bænum og nágrenni að mestu frá tímum Rómverja en einnig nokkuð um muni frá setu Mára hér um slóðir. Þó fyrst og fremst áhugavert fyrir áhugamenn en aðrir missa ekki af neinu. Safnið stendur við Francisco Zaragoza strætið í gamla bænum. Opið miðviku- til sunnudaga milli 9:30 og 14 og aftur milli 16:30 og 19:30.

>> Héraðssafnið (Casa de Coco Museo Etnologico) – Annað sértækt safn er sýnir á lifandi hátt hvernig bæjarbúar og aðrir í héraðinu lifðu af landbúnaði og fiskveiðum á öldum áður. Aftur fróðlegt fyrir áhugamenn en vart fyrir aðra. Safnið er staðsett skammt utan borgarinnar.

Verslun og viðskipti

Sé einbeittur vilji til að eyða peningum er sennilegast best að halda til Benídorm til suðurs eða Valencíu til norðurs. Þar er úrvalið verulega miklu meira en hér í Calpe.

Hér fæst þó ýmislegt og allnokkrar merkjabúðir finnast hér í bæ en verðlagið miðast við túristapeningar fremur en heimamenn. Helstu verslunargöturnar eru Avenida Gabriel Miro og Corbeta og 18.júlí göturnar.

Hér er markaður alla laugardagsmorgna og fer sá fram í Puerto de Santa Maria. Lítt merkilegur en inn á milli hægt að finna sniðuga hluti.

Matur og mjöður

Bærinn státar af ágætum veitingastöðum inn á milli hörmulegra skyndibitastaða. Trixið hér er að setjast ekki inn á staði við ströndina vilji fólk fá gott í gogg þó auðvitað sé mest um veitingastaði á þeim slóðum báðum megin við Ifach klett. Fyrir alvöru mat skal halda inn í gamla bæjarhlutann en þar er prísinn líka yfirleitt aðeins hærri.

Bærinn á sína eigin rétti og um að gera að prófa Llauna de Calp og Arros de Senyoret sem víða fást. Sjávarréttir eru eðlilega bestir hér og ferskastir eins og annars staðar við ströndina.

Þá er Calpe líka nokkuð þekkt fyrir kökugerð og ekki vitlaust að biðja um Cocas í næsta bakaríi. Cocas eru sætar eða súrar hveitikökur sem aðeins fást á þessum slóðum.

Ritstjórn Fararheill per se mælir ekki með veitingastöðum þar sem þeir eru misjafnir dag frá degi og eins er smekkur okkar allra misjafn. Við bendum því á síðu Tripadvisor þar sem ferðalangar sjálfir gefa veitingastöðunum einkunn.

Til umhugsunar: Hér búa svo margir Þjóðverjar að þeir hafa tekið upp á að halda sínar eigin Októberfest með spænsku bragði í lok september. Þá er óvitlaust að detta hér inn ef bjórinn heillar á annað borð.

Líf og limir

Engar áhyggjur hér að ráði. Smáþjófar eins og alls staðar en annars hér jafnan allt með felldu.

View Calpe á Spáni in a larger map