B ergen eða Björgvin; hingað hafa Íslendingar komið um aldaraðir með góðu eða vondu og borgin skipar nokkurn sess í hjörtum margra enda fjöldi Íslendinga sem þarna búa eða hafa búið. Þessi borg milli fjallanna sjö eins og hún er þekkt er eins norræn og borg getur framast orðið en er að sama skapi nútímaleg og skemmtileg.

Eini alvarlegi gallinn við Bergen og reyndar Noreg í heild er að þar er fokdýrt að vera og er Bergen að nokkru leyti dýrari borg en til dæmis höfuðborgin Osló.

En Osló á ekkert gamalt bryggjuhverfi eins og Bergen. Fiskitorgið við Vagen og þröng strætin þar í kring eru sérstök og skemmtileg. Torgalmenningin er merkilegt. Fyrirbærið sem tilkomið er vegna hræðslu við elda sem hafa jú oftar en einu sinni gereyðilagt stóran hluta gamla borgarhlutans.

Segja má að Bergen sé ómissandi að heimsækja en aðeins þó með fullt veski af seðlum. Ferðamenn sem hingað koma segjast oftar en ekki heillast af stemmningu borgarinnar, arkitektúr og menningarlegri fjölbreytni fremur en einhverjum sérstökum ferðamannastöðum.

Snöggsoðin sagan

Fyrstu heimildir um byggð hér eru síðan 1070 og fljótt var bærinn orðinn merkilegur því tvö hundruð árum síðan var þetta stjórnsýsluleg höfuðborg Noregs og ein af stærstu bæjum í allri Skandinavíu. Sá heiður entist þó aðeins í hundrað ár. Bergen var líka mjög mikilvægur hlekkur í borgum Hansa bandalagsins og um var þá mikilvægasta tengings Noreg við meginland Evrópu. Bergen var þannig viðskiptastórveldi á þeim tíma. Hún hélt þeim heiðri að vera stærsta þéttbýli Noregs alveg til ársins 1830.

Borgin hefur ávallt verið mikilvæg sjávarútvegsmiðstöð og er það enn þann dag í dag þó atvinnuvegirnir séu mun fleiri. Ferðaþjónusta er orðin stór atvinnuvegur og margar af þeim lúxusferjum sem fara með áhugasama um firði Noregs leggja upp héðan.

Enn má sjá í Bergen minjar um tíma Hansa kaupmanna og skipa við gömlu höfnina í borginni sem nú er á skrá yfir heimsminjar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Loftslag og ljúflegheit

Þeir eru til sem halda því blákalt fram að Bergen sé blautasta borg í heiminum. Þar rignir og snjóar reyndar 240 daga ársins að meðaltali en hún er ekki blautasta borg heims. Hún er þó reyndar hlýjasta borg Noregs sem helgast af golfstraumnum sem flýtur beinustu leið upp í fjöruborðið.

Meðalhiti yfir árið er 7,6 gráður en meðalhiti yfir hásumarið nálgast fimmtán gráður.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Bergen heitir því eðlilega nafni Flesland og er í um 20 kílómetra fjarlægð frá borginni sjálfri. Er sinnt þar bæði innanlands og utanlandsflugi. Völlurinn er nýlegur og góður en öll þjónusta og verslun fokdýr. Þannig kostar bjór á barnum í flugstöðinni 1.600 íslenskar krónur.

Fyrir utan leigubíla er aðeins í boði að taka rútur þær 40 mínútur sem ferð inn í miðbæ Bergen tekur. Leigubílarnir eru heldur dýrir og verður vart komist alla leið undir 6.000 krónum á dagtaxta.

Rúturnar, Flybussen, fara til og frá flugvellinum á klukkustundarfresti og kostar miði aðra leiðina 1.800 krónur. Rútan stoppar víða á leiðinni sé þörf á því og þarf að láta bílstjórann vita.

Strætisvagn, leið 523, fer langleiðina að flugvellinum en tíðnin er lítil og þeir eru mun lengur á leiðinni í bæinn. Nýtast þeir ferðafólki lítið þó vissulega séu þeir ódýrari en farið kostar 450 krónur.

Nokkrar bílaleigur er að finna í flugstöðinni en bílaleiga hér sem annars staðar í Noregi er dýr.

Samgöngur og snatterí

Miðbær Bergen og sá hluti borgarinnar sem mest er spennandi er vel innan göngufæris og þörfin lítil að nota samgöngutæki mikið nema fara eigi langt yfir skammt. Á 20 mínútum er hægt að ganga um miðbæinn allan og að stöku söfnum og náttúrunni fyrir utan borgina frátöldum er ekki ýkja margt fleira sem heillar hinn hefðbundna ferðamann.

Sé vilji til að skoða meira en aðeins miðbæinn eru strætisvagnar í boði. Fyrirtækið Tide sér um það kerfi og finna má tímatöflur, leiðir og tíðni á heimasíðu þeirra. Eins og annað í Noregi er stakt far með strætó ekki alveg frítt; miðinn kostar 480 krónur.

Til umhugsunar: Það eru tvær vagnar í Bergen sem eru fríir. Annar þeirra er Sentrumsbussen sem ekur um innan miðborgarsvæðisins á virkum dögum milli 7:30 og 21. Hann stoppar á fjórum stöðum og er ágætur er fætur eru þreyttir en forvitni enn til staðar. Þá er leyfilegt að hoppa upp í strætisvagn númer 100 frá Olav Kyrres stoppistöðinni í miðbænum og að rútustöðinni og greiða ekki fyrir.

Auðvitað er auðvelt að leigja sér bíl en sé aðeins dvalist í borginni er illa farið með fé í því tilviki. Leiga er dýr og bílastæði líka auk þess sem fólk er jafnan fljótara í ferðum fótgangandi í miðbænum en á bíl.

Nóg er af leigubílum í Bergen. Þeir halda sig allir á þartilgerðum stoppistöðvum nema hringt sé sérstaklega eftir þeim líkt og gerist hér á landi. Bið eftir bílum á á kvöldin og um helgar getur farið yfir klukkustund.

Ein lest er í boði fyrir borgarbúa. Liggur leið hennar úr miðbæ Bergen til úhverfisins Arna. Þar er ekkert merkilegt að vitna.

Fleiri og fleiri borgarbúar reyna að hjóla en það er flóknara en annars staðar. Ekki aðeins eru aðstæður oft eins og á ástkæra Fróni, vindar sem blása úr öllum áttum og alltaf hætta á rigningu heldur eru fáir hjólastígar og töluvert um hæðir og brekkur. Hjólaleigur finnast í miðbænum.

Í Bergen finnst líka ein sporvagnaleið eða kláfar öllu fremur. Fløibanen er þó fyrst og fremst fyrir ferðamenn. Er upphafsstöðin rétt hjá Fiskitorginu og á sex mínútum flytur kláfurinn fólk upp á tind Fløyen fjalls fyrir ofan Bergen. Þar er útsýni stórkostlegt og ýmsar fínar gönguleiðir út um allt í nágrenninu. Þar er líka kaffihús og veitingastaður. Eins og annað hér er túrinn fram og tilbaka ekki frír heldur kostar 1400 krónur á manninn. Fer kláfur af stað á fimmtán til 30 mínútna fresti.

Söfn og sjónarspil

>> Bergen safnið (Bergen Museum) – Eitt stærsta safn í Noregi tileinkað fortíðinni í allri sinni mynd. Safnið er rekið af háskóla borgarinnar og veitir yfirgripsmikla sýn yfir menningararfleifð Norðmanna gegnum tíðina. Auðvelt er að rata því safnið stendur við stræti Haralds Hárfagra. Opið 10 til 16 virka daga og 11 til 16 um helgar. Lokað mánudaga. Aðgangur 1000 krónur. Heimasíðan.

>> Listasafn Bergen (Bergen Kunstmuseum) – Að flestra mati besta safnið í borginni. Stórt safn og viðamikið með fjölda verka frá tíma Endurreisnar sem og nútímaverk. Margir helstu listamenn Noregs eiga hér verk og ekki síst Edvard Munch. Safnið stendur við Bygarden garðinn nálægt lestarstöðinni. Opið daglega 11 – 17. Miðaverð 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Iðnaðarsafn Vesturlands (Permanenten) – Ágætt safn við Torgalmenningen þar sem list og hönnun vesturlenskra Norðmanna eru gerð góð skil. Ekkert stórkostlegt en nett forvitnilegt. Opið daglega 11 – 17. Aðgangseyrir 1000 krónur. Heimasíðan.

>> Lýseyjusafnið (Museet Lysøen) – Skammt frá Bergen er lítil en vinsæl eyja sem Lyseyja heitir. Er hún vinsæll útivistarstaður og þar er safnahús kennt við eynna. Er um tónlistarsafn að ræða og þar fara fram reglulega tónleikar af ýmsu taginu. Bát þarf að taka út í eynna frá Buena Kai bryggjunni sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá Bergen til suðurs. Opið 12 – 16 daglega yfir sumartímann. Prísinn 600 krónur. Heimasíðan.

>> Edvard Grieg safnið (Edvard Grieg Museum) – Safn tileinkað Grieg sem er ein af helstu stjörnum Norðmanna en tónlist Grieg er velþekkt mörgum. Tónleikar hér algengir og þá oftar en ekki tónlist skáldsins í fyrirrúmi. Safnið er við Troldhaugen. Opið 9 – 18 alla daga yfir sumarið. Aðgangseyrir 1100 krónur. Heimasíðan.

>> Holdsveikisafnið (Lepramuseet) – Nafnið hljómar kannski ekki spennandi en safnið er þess virði að skoða fyrir þá áhugasömustu. Hér voru geymdir holdsveikisjúklingar fyrr á öldum og er eitt af fáum slíkum sjúkrahúsum sem ekki voru brennd til grunna eða rifin niður af ótta við farsótt. Hér fannst líka baktería sú er olli holdsveiki. Allt sem viðkemur þessari óhuggulega veiki útskýrt í máli og myndum. Safnið stendur við Kong Olavs götu 59. Opið daglega yfir sumarið 11 – 15. Prísinn fyrir fullorðna 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Eldsvoðasafnið (Brannmuseet) – Bergen hefur ekki farið varhluta af stórum eldsvoðum gegnum tíðina sem mjög hafa sett mark sitt á borgina og skipulag hennar. Á þessu áhugaverða safni er því lýst hvernig borgaryfirvöld hafa nánast hannað hana til að sporna við eldsvoðum en sökum fjölda timburhúsa sem saman standa er sú hætta ætíð til staðar. Opið daglega 11 – 16. Prísinn 900 krónur. Heimasíðan.

>> Holbergssafnið (Holbergsmuseet) – Gamall latínuskóli við Lille Øvregade sem endurbyggður hefur verið að fullu. Ekki ýkja spennandi nema í hallæri. Opið 11 – 15 daglega. Aðgangseyririnn 1000 krónur. Heimasíðan.

>> Höll Hákons (Håkonshallen) – Sjö hundruð og fimmtíu ára konungsbústaður og veisluhöll á norrænan máta byggður þegar Bergen var á hátindi frægðar sinnar 1200 til 1300. Stærsta bygging Noregs á sínum tíma. Opin 10 – 16 daglega. Miðaverð 980 krónur. Heimasíðan.

>> Rósinkransturninn (Rozenkrantstårnet) – Skammt frá Höll Hákons er þessa fornu byggingu að finna sem af mörgum er talin merkilegasta bygging Noregs frá Endurreisnartímanum. Elstu hlutar turns þessa eru frá 1270 og upp í turn er hægt að fara og sjá vítt til allra átta. Opið 10 til 16 alla daga. Miðaverð 980 krónur. Heimasíðan.

>> Bryggjusafnið (Bryggens Museum) – Án alls vafa er gamla bryggjuhverfið í Bergen mesta djásn borgarinnar enda nær óbreytt frá miðöldum þegar höfnin í borginni var miðstöð viðskipta í Noregi öllum. Þó hluti hverfisins hafi eyðilagst í eldi tvívegis hefur töluverður hluti verið endurreistur og er svæðið allt á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Á safninu má sjá sögu, þróun og útgerð héðan allar götur frá miðöldum. Opið 10 – 16 daglega yfir sumarið. Aðgangseyrir 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Hansasafnið (Det Hanseatiske Museum & Schøtstuene) – Annað safn í brygguhverfinu gamla er þetta safn tileinkað siglingum og lífi Hansakaupmanna sem hér gerðu viðskipti sín í stórum stíl. Mörgum þykir þetta safn bera af hinu eiginlega Bryggjusafni og er þá helst til þess litið að bæði húsið sjálft og allir innanstokksmunir eru hér upprunalegir. Safnið er á þremur hæðum og tekur til sögu kaupmanna frá Hansatímanum. Fróðlegt mjög. Opið 9 til 17 yfir sumartímann. Kostnaður 980 krónur. Heimasíðan.

>> Herdla safnið (Herdla Museum) – Þetta safn er staðsett á eyjunni Herdla í Askøy firði og er tileinkað hersetu Þjóðverja í Noregi en á eynni var einn flugvöllur sem Þjóðverjar notuðu títt í Seinni heimsstyrjöldinni. Ýmislegt forvitnilegt að sjá og eyjan sjálf afar falleg. Opið daglega 12 til 17 yfir sumartímann. Aðgangur 980 krónur. Heimasíðan.

>> Norðursjávarsafnið (Nordsjøfartmuseet) – Annað safn tengt Seinni heimsstyrjöldinni á eyjunni Sötra vestur af Bergen. Héðan sigldu kappar í skjóli nætur milli Noregs og Bretlands meðan á hersetu Þjóðverja stóð og sóttu vörur og búnað til að berjast við innrásarheri Þjóðverja. Fræg er sagan af mótspyrnu bæjarbúa sem skutu tvo Þjóðverja til bana sem varð til þess að hver einasta karlmaður hér var sendur í stríðsfangabúðir. Safnið ágætt en eyjan sjálf stórkostleg. Opnunartími 11 til 16 daglega yfir sumartímann. Aðgangur 980 krónur. Heimasíðan.

>> Útgerðarsafnið (Norges Fiskerimuseum) – Í enda bryggjuhverfisins má finna þetta ágæta safn þar sem útgerð Norðmanna fyrr og nú eru gerð ágæt skil. Opið 9 – 16 daglega. Miðaverð 780 krónur. Heimasíðan.

>> Vísindasafnið (VilVite) – Stærsta vísindasafn í Noregi er í Bergen og fátt til sparað til að gera það að forvitnilegum stað. Skemmtilegt safn og tilbreyting frá söfnum um Hansakaupmenn, útgerð og átökum við Þjóðverja. Opið daglega 10 – 17. Stakur miði 3000 krónur fyrir fullorðna og 2200 fyrir börn. Heimasíðan.

>> Gamla Bergen (Gamle Bergen) – Skammt utan borgarmarkanna er Gamla Bergen þar sem komið hefur verið fyrir um 50 timburhúsum frá gamla tímanum á einum og sama staðnum. Örlítið tilgerðarlegt en margir fá betri tilfinningu fyrir gamla tímanum hér en í gamla bænum sjálfum. Strætisvagn 23. Opið 10 – 16. Aðgangseyrir 1400 krónur. Heimasíðan.

>> Saumastofusafnið (Norsk Trikotasjemuseum) – Í smábænum Salhus örskammt frá borginni er fyrsta vélasaumastofa Noregs í sínu upprunalegu húsnæði og hver einasta vél virkar enn þann dag í dag. Ómissandi fyrir saumaáhugafólk allt. Strætisvagn 280. Opið 11 – 17 virka daga. Aðgangur 980 krónur. Heimasíðan.

>> Fiskitorgið (Fisketorget) – Frægur fiskimarkaður sem ber þó ekki alveg nafn með rentu enda hér töluvert meira til sölu en bara fiskur. Fín stemmning og mikið um að vera hér allan daginn en þó orðinn töluvert túristavænn og ekki alveg jafn raunveruleg stemmning og var hér áður þegar hver einasti fiskimaður kom með afla sinn hingað. Markaðurinn staðsettur við samnefnt torg. Opið daglega 7 – 19. Heimasíðan.

>> Sædýrasafnið (Akvariet) – Stórt og skemmtilegt sædýrasafn við Nordnesbakken í um 20 mínútna göngutúr frá miðbænum. Strætisvagn 11 ef nenna er ekki fyrir hendi. Opið 9 – 19 daglega. Miðaverð er þó galið eða 4000 krónur fyrir fullorðna og 3000 fyrir börn yngri en fimmtán. Heimasíðan.

>> Lehmkuhl seglskútan (Staadsrad Lehmkuhl) – Ein glæsilegasta seglskúta sem Norðmenn eiga er þriggja mastra seglskútan Lehmkuhl sem byggð var 1914 og var þá og er enn ein af stærstu seglskútum heims. Hefur skútan verið endurgerð frá grunni og lónir í höfninni í Bergen yfir sumartímann. Um borð er hægt að fara ef hún er ekki í túr og skoða. Þá er hægt að taka túr með henni um heimsins höf ef svo liggur á manni. Styttri hálfs dags ferðir stöku sinnum í boði en panta þarf með góðum fyrirvara. Heimasíðan.

>> Maríukirkjan (Mariakirken) – Elsta byggingin í Bergen er þessi fallega kirkja við Dreggsalmenningen skammt frá Bryggjuhverfinu. Byggð á tólftu öld og hefur tekist frábærlega að viðhalda henni. Opin almenningi milli 9:30 og 11:30 yfir sumartímann. Aðgangseyrir 400 krónur.

>> Bryggjuhverfið (Bryggen) – Óþarfi að kynna Bryggjuhverfið nánar enda fer enginn um Bergen án þess að rekast á það af ásetti ráði eða tilviljun. Langfallegasti og mest sjarmerandi hluti borgarinnar enda hefur hverfinu verið viðhaldið um aldaskeið. Eldsvoðar hafa reyndar eyðilagt hluta hverfisins sem þá hefur verið endurbyggður á ný.

>> Fantoft stafkirkjan (Fantoft Stavkirke) – Stafkirkjur Noregs eru heimsþekktar enda afar sérstæður byggingarmáti. Í Bergen er ein slík og heilleg mjög enda verið endurbyggð. Afar falleg og umhverfið ekki síðra. Strætisvagn 2. Opin 10:30 til 18 daglega yfir sumartímann. Aðgangur 80o krónur. Heimasíðan.

>> Gamli haugur (Gamlehaugen) – Stórglæsilegur kastali frá árinu 1900 með stórfínu útsýni í frábæru umhverfi sjö kílómetra í suðurátt frá borginni. Kastalinn er opinn að hluta en sá hluti hans sem fallegastur er er flokkaður sem safn og greiða þarf aðgang. Opinn daglega milli 10 og 17. Prísinn 980 krónur. Heimasíðan.

>> Ulriksfjall (Ulriksbanen) – Hæsta fjallið kringum Bergen er Ulriksfjall og við Xhibition verslunarmiðstöðina er kláfur sem flytur gesti upp á toppinn. Stórkostlegt útsýni og þar er staðsettur hæsti veitingastaður Noregs. Strætisvagn 2 eða 31 að verslunarmiðstöðinni. Heimasíðan.

>> Almenningstorg (Torgalmenningen) – Torgalmenningen er samkvæmt ýmsum bókum stærsta breiðgata Noregs en jafnframt röð torga með reglulegu millibili. Ástæða breiddarinnar eru hinir tíðu eldsvoðar sem hér setja reglulega allt í voða. Með breiðri götu átti að koma í veg fyrir að eldur breiddist út milli húsa. Hér eru líka helstu stórverslanir Bergen.

Verslun og viðskipti

Nei! Allavega ekki fyrir hinn hefðbundna meðalmann á Íslandi með sína múlbundnu íslensku krónu. Bergen er afar dýr og nánast hvergi hægt að finna vörur á verði sem heillar íslenska pyngju.

Enginn skortur er samt á verslunum og velflestar selja þær dýrar gjafavörur og fatnað enda er ekki aðeins Noregur mjög dýrt land heldur er Bergen dýrasta borgin í Noregi.

Sé veskið þrátt fyrir allt stokkbólgið eða fólk ákveði að hafa áhyggjur af kortareikningum seinna þá er Torgalmenningen sennilega besti staðurinn til innkaupa. Mesta úrvalið er þar og í næstu götum eins og Ole Bulls Plass.

Matur og mjöður

Nóg af hvoru tveggja en sem fyrr kostar það skildinginn að fylla mallakút og ekki síður að fá sér í tánna. Meira að segja pylsa á þarlendum bæjarins besta skjagar hátt upp í 600 krónur. Kvöldverður á betri veitingastað með víni fer aldrei undir átta þúsund krónur á mann.

Sökum þess að smekkur fólks er misjafn mjög og veitingastaðir koma og fara og eru misjafnir ár frá ári gerir Fararheill.is ekki upp á milli eða mælir eða hallmælir ákveðnum stöðum.

Hér eru hins vegar fjórir sem ár eftir ár fá góðar einkunnir hjá ferðafólki og borgarbúum.

Hvað drykki varðar er enginn skortur á klúbbum eða börum í borginni. Nægir að þræða miðborgina blindandi til að rekast á einn eða fleiri enda skemmta ríkir Norðmenn sér oft og duglega. Bjór á bar kostar frá 1.200 og upp í 1.800 krónur.

Líf og limir

Hreint ekkert til að hafa áhyggjur af hér.

Hátíðir og húllumhæ

Sökum velmegunar borgarbúa er merkilega mikil menning sem fram fer hér og ótrúlega stórir listamenn mæta hingað til leiks þó borgin sé í minnsta kantinum fyrir stærri nöfn. Þó margir vilji vera láta að litla Reykjavík sé að standa sig vel í menningarheimum er hún alger skussi miðað við Bergen.

Tveir atburðir bera þó af á dagatalinu. Þeir eru:

    • Bergenfest – Árleg tónlistarhátíð víða í bænum með fjölbreyttu úrvali listamanna haldin í lok apríl og fram í maí.
    • Bergen International Film Festival – Kvikmyndahátíð í október ár hvert.
    • Nattjazz – Alþjóðleg og vinsæl jasshátíð í maí hvert ár.
    • Bergen International Festival – Listamenn úr öllum kimum lista koma saman í tveggja vikna stanslausri veislu sem er sú stærsta í allri Skandinavíu.