Þ að fer tveimur sögum af höfuðborg Belgíu og reyndar Evrópusambandinu líka manna á meðal. Röskur helmingur þeirra sem borgina heimsækja eru sáttir og glaðir og vilja koma aftur sem fyrst meðan hinn helmingurinn yfirgefur borgina án minnstu eftirsjár.

Segja má líka að borgin sé dálítið tvískipt að því leytinu að vissulega er töluvert að sjá þar og skoða og óvíða er hægt að njóta meira úrvals sælkerabjóra en hér. Á hinn bóginn er einhver leiðinlegur stofnanakeimur af borginni, umferðin eitt öngþveiti og íbúar töluvert frá því að vera sérstaklega elskulegir.

Innan borgarmarkanna býr rétt rúm milljón manns en séu úthverfi talin með er íbúafjöldinn 1,8 milljón alls.

Brussel hefur frá stríðslokum 1945 verið miðstöð alþjóðastjórnmála enda tiltölulega miðsvæðis í Evrópu við stríðslok. Var það enda ástæða þess að NATO setti hér upp höfuðstöðvar sínar á sínum tíma og ekki síður Evrópusambandið þegar það var formlega stofnað.

Hér ráða tvö tungumál ríkjum. Hollenska og franska eru bæði opinber tungumál í landinu þó velflestir íbúanna taki frönskuna framyfir.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllurinn Luchthafen Brussels Nationaal er stór og mikill eins og sæmir slíkri höfuðborg Evrópu. Hann er ellefu kílómetra frá borginni sjálfri en gera skal ráð fyrir minnst hálftíma til og frá. Þá koma tímar þegar umferðaröngþveiti lengir tímann til og frá allt upp í tvær klukkustundir á bíl.

Tonn er af leigubílum hér öllum stundum og þeir fljótlegasta leiðin í borgina. Langflestir eru löglegir og með mæla og er meðalfargjaldið í miðborgina kringum 7.500 krónur aðra leið. Löglegir bílar hafa bláar og gular númeraplötur.

Lestarstöð er undir flugstöðvarbyggingunni á hæð -1 en þaðan fara lestir NMBS hingað og þangað. Fjórar lestir sérstaklega fara gegnum Brussel en mismunandi staða þar. Miðaverð aðra leiðina til Brussel Centrale kostar 850 krónur.

Rútur fara vitaskuld milli borgar og flugvallar. Svokallaðar express rútur STIB fyrirtækisins númer 12 og 21 fara beinustu leið inn í borgina og taka til þess 45 mínútur. Þeir vagnar stoppa aðeins við Schuman og í Lúxemborg hverfinu. Miðaverð aðra leiðina kostar 830 krónur sé miði keyptur um borð en kaupi menn miða fyrirfram, á flugvellinum eða í söluturnum í borginni, fæst stakur miði á 495 krónur.

Enginn skortur er á bílaleigum á flugvellinum en besta verðið má þó yfirleitt fá með að panta fyrirfram á netinu í stað þess að taka einn á flugvellinum.

Hverfi

Fjögur hverfi Brussel skipta mestu máli fyrir ferðafólk en utan þeirra er fátt að sjá annað en íbúðahverfi. Grand Place er gamli miðborgarhlutinn með markaðstorginu, Grote Markt, og nærliggjandi veitingahúsagötum. Til vesturs er að finna Anderlecht hverfið þar sem töluverður fjöldi bara og veitingastaða er að finna með tilheyrandi stemmningu þegar líða fer á kvöldin. Til suðurs frá miðborginni er Ixelles sem einna þekktast er fyrir verslunargötur sínar. Til suðausturs er að finna Quartier européen eða evrópska hlutann þar sem standa byggingar Evrópusambandsins í hrönnum meðal annarra.

Samgöngur og snatterí

Eins og víðast hvar í gömlum borgum Evrópu er gamli miðbærinn sá sem heillar ferðafólk hvað mest og eins og annars staðar er engin þörf á farartæki til að þvælast um þann hluta. Það hins vegar kann að vera áhugi að sjá byggingar Evrópusambandsins eða skjótast aðeins út fyrir borgina og þá er lítið mál að rúlla sér í strætó, sporvagn eða jarðlest.

Á vef STIB má finna leiðaáætlun allra vagna og lesta sem um borgina fara en almenningskerfið er í gangi frá sex á morgnana til miðnættis á kvöldin. Næturvagnar finnast hér líka en eru fáir og langt á milli þeirra. Hér má sjá leiðarkerfið í heild sinni á korti. Jarðlestarkerfið, metró, er fljótlegast í förum. Stöðvar eru víða og flestar skreyttar listaverkum eftir vinsæla belgíska listamenn.

Stakur miði í strætó, sporvagna eða jarðlest kostar 280 krónur en 330 krónur ef miðinn er keyptur um borð. Það er aðeins í boði í spor- og strætisvögnum en sekt er líkleg ef ferðast er um jarðlestakerfið án miða.

Leigubíll er einn möguleikinn sé langt að fara og margir saman. Startgjald leigubíla er 390 krónur og má komast víðast hvar innan borgarmarka undir tvö þúsund krónum.

Til umhugsunar: Tvennt skal sérstaklega hafa í huga hér og annars staðar í Belgíu. Annars vegar eiga gangandi vegfarendur EKKI alltaf réttinn á gangbrautum. Á það við um þær gangbrautir þar sem engin eru sérstök umferðarljós. Hins vegar eiga bílar frá hægri alltaf réttinn í umferðinni og bílstjórar nota þann rétt af ástríðu.

Söfn og sjónarspil

>> Konunglega listasafnið (Musées Royaux de Beaux-arts) – Eitt af stærri listasöfnum í Evrópu hýst í miklum og fallegum miðaldabyggingum. Í raun eru þetta tvö söfn sem voru sameinuð í eitt; Fornlistasafn og nýlistasafn. Áherslan er annars vegar á verk belgískra listamanna frá 14. til 20. aldar og hins vegar er að finna verk úr hinum ýmsu áttum í nýlistasafninu. Ómissandi stopp og það í tvær til þrjár klukkustundir fyrir áhugamenn og ekki minna en dagur fyrir ástríðufulla listunnendur. Jarðlest að Parc. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 900 krónur. Heimasíðan.

>> Konunglega Mið-Afríkusafnið (Musée Royal de l´Afrique Centrale) – Fáar nýlenduþjóðir fóru verr út úr því en þær sem tilheyrðu Belgum á sínum tíma. Stór hluti Mið-Afríku, núverandi Kongó svo dæmi sé tekið, var undir þeirra yfirráðum og fáir komu verr fram þó af nógu slíku hafi verið að taka. Þetta safn var sett á laggirnar til að sýna arfleifð Belga í álfunni en hefur nú breyst í safn tileinkað munum frá Afríku og reyndar Asíu líka. Afar fróðlegt skoðunar og byggingin sem safnið hýsir alveg stórkostleg. Safnið staðsett í Tervuren í úthverfi Brussel. Sporvagn 44 frá Montgomerie að Tervuren stöð. Opið 10 til 17 virka daga nema mánudaga og 10 til 18 um helgar. Aðgangseyrir 660 krónur. Heimasíðan.

>> Ráðhúsið (Hôtel de Ville) – Ein magnaðasta byggingin í borg fullri af mögnuðum byggingum. Ráðhúsið stendur uppúr þeim glæsibyggingum sem umkringja Grand-Place torgið. Eins gotnesk bygging og þær frekast geta orðið og hægt að eyða fleiri klukkustundum að virða fyrir sér bygginguna úr nálægð. Ekki er ráðhúsið síðra að innan og vel þess virði að taka þar túr sem er eingöngu í boði með leiðsögn en slíkt tekur 40 mínútur. Jarðlest að Gare Centrale. Opið með leiðsögn á ensku á miðvikudögum kl. 15.15 og á sunnudögum 10.45 og 12.15. Túrinn á 500 krónur.

>> Teiknimyndasetrið (Centre Belge de la Bande Dessinée) – Séu Belgar heimsþekktir fyrir eitthvað er það vafalítið teiknimyndasögum sem skemmt hafa smáfólkinu víðst vegar í heiminum um áraraðir. Safn þetta, sem gjarnan er kallað CéBéBéDé, er skammt frá Grand-Place við Berlamoint breiðgötuna. Hér búa allar helstu hetjur barnæskunnar eins og Tinni, Ástríkur, Lukku Láki, Strumparnir og Charlie Brown auk fjölda annarra hetja úr blöðum og bókum. Jarðlest að Gare Centrale. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Cathédrale des Sts Michel et Gudule) – Þessa mögnuðu dómkirkju er þess virði að skoða jafnvel þótt argasti trúleysingi sé á ferð. Bygging hennar hófst 1226 en það var aðeins árið 1961 sem hún var formlega vígð dómkirkja. Það er ekki aðeins til að gleðja augu að kíkja hingað því reglulega hefja kórar og söngvarar upp raust sína í kirkjunni og hljómburðurinn er guðdómlegur. Kirkjan stendur við Parvis Ste-Gudule götu ekki langt frá Grand-Place. Jarðlest til Gare Centrale. Opin almenningi til skoðunar 8 til 18 alla daga. Heimasíðan.

>> Eglise Notre Dame kirkjan (Eglise Notre Dame du Sablon) – Önnur mikilfengleg kirkja í Brussel er þessi tileinkuð frúnni frá Sablon og var reist upphaflega af samtökum bogmanna sem skírðu hana Sigurkirkjuna.  Bæði er kirkjan falleg og sérstök að utan en kapellur hennar að innan eru ekki síðri sjón þar sem skjannahvítur marmari er í hólfum og gólfum. Kirkjan stendur við götuna Place de Grand Sablon. Sporvagnar 92 eða 94 til Petit Sablon. Opin skoðunar 9 til 17 virka daga og 10 til 18 um helgar. Ókeypis aðgangur.

>> Konungshöllin (Palais Royal) – Ein fallegasta og mikilfenglegasta höll í Evrópu allri stendur hátt í borginni og með útsýni yfir hinn fallega almenningsgarð Parc de Bruxelles. Hér gerðu konungar Belgíu sér aðsetur áður fyrr þó núverandi konungur dvelji nú annars staðar. Höllin fyrst og fremst notuð undir veislur í dag en hana hægt að skoða seinnihluta sumars hvert ár og það er þess virði enda töluvert um listaverk innandyra. Jarðlest að Parc og þar blasir höllin við gengt þinghúsinu. Opnar í júlí og fram í september fyrir ferðamenn en þess utan lokuð. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.

>> Þinghúsið (Palais de la Nation) – Gengt konungshöllinni mikilfenglegu og einnig með útsýn yfir Parc de Bruxelles stendur þinghús Belgíu sem einnig er falleg smíð og stór. Jafnast engan veginn á við konungshöllina en þess virði að bregða inn fæti sé fólk á þessum slóðum. Það er þó eingöngu hægt þegar þingið er að störfum yfir vetrartímann. Jarðlest að Parc. Ókeypis aðgangur.

>> Bruggsafnið (Musée de la Brasserie) – Óvíða í heiminum er meiri hefð fyrir bruggun bjórs en í Belgíu og þetta safn er rekið af samtökum bjórframleiðenda í landinu. Líklega eru vandfundin betri bruggsöfn að því leytinu til að hér er rakin í máli og myndum saga bjórs og bruggunar en að auki má hér sjá bruggun eiga sér stað bæði með nútíma tækni og tækjum en einnig með gamaldags aðferðum sem enn eru við lýði á stöku stöðum. Forvitnilegt og auðvitað er mjöður í boði á staðnum. Staðsett á besta stað við Grand Place 10. Jarðlest að Gare Centrale. Opið 10 til 17 daglega. Aðgangur 820 krónur. Heimasíðan.

>> Bílaheimur (Autoworld) – Jafnvel þó bílar eigi ekki hug og hjarta er skemmtilegt að skoða þessa sýningu yfir 500 bifreiða frá eldri tímum. Staðsett í flugvélaskýli nálægt Parc du Cinquantenaire. Jarðlest að Mérode. Opið daglega 10 til 18. Stakur miði 980 krónur. Heimasíðan.

>> Smágerða Evrópa (Mini Europe) – Þennan skemmtigarð þekkja margir sem heimsótt hafa Brussel enda við Atomium listaverkið fræga. Minnir óneitanlega á Lególand enda eru hér til sýnis yfir 800 eftirlíkingar af frægum byggingum og listaverkum öðrum frá Evrópu. Afar nákvæmar en eðli málsins samkvæmt aðeins brot af eðlilegum stærðum. Aðgangseyrir 1400 krónur fyrir fullorðna en 1100 fyrir smáfólk yngra en 10 ára. Jarðlest að Heysel. Opnunartíminn 9:30 til 18 alla daga. Miðaverð 1.100 krónur plús aukagjald í stöku tæki. Heimasíðan.

>> Horta safnið (Horta Museum) – Belgar voru í fararbroddi með stefnu þá sem kölluð hefur verið art nouveau og það má þakka Victor Horta sem kolféll fyrir þeim straumi og hannaði miklar byggingar í þeim stíl. Frægust þeirra er þetta safn þar sem art nouveau strauma má sjá í allri byggingunni. Skyldumæting fyrir arkitekta og áhugafólk um strauma og stefnur í þeim geira. Rue Américaine 25. Sporvagn 81 að Trinité. Opið 14 til 17 þriðjudaga til föstudaga. 1.200 króna aðgangseyrir. Heimasíðan.

>> Atómið (Atomium) – Þetta listaverk má sjá víða að í borginni enda bæði einstakt og sérstakt. Atómið er nákvæm útfærsla á atómi járnkristals stækkað 165 billjón sinnum og er 102 metrar á hæð. Byggt fyrir Heimssýninguna 1958 en hefur orðið að tákni Brussel síðan þá og er vissulega heillandi. Atómið er hægt að skoða að innan og útsýnið frá toppútsýnispallinum er feykigott. Staðsettur í Bruparck í Heysel. Jarðlest að Heysel. Opinn daglega 10 til 18. Punga þarf út 1.500 krónum. Heimasíðan.

>> Cinquantenaire safnið (Musée du Cinquatenaire) – Þetta mikla safn er ekki auðvelt að lýsa því hér er nánast allt til sýnis sem gamalt er og merkilegt. Vefnaður, styttur, málverk, bílar og ýmislegt fleiri er hér að sjá og er safnið því nýstárlegt í því tilliti. Safnið er staðsett í Cinquantenaire garðinum. Jarðlest að Mérode. Opið 9:30 til 17 virka daga nema mánudaga og 10 til 17 um helgar. Miðinn kostar 830 krónur. Heimasíðan.

>> Pissustrákurinn (Mannekin Pis) – Eitt frægasta kennileyti Brussel og sambærilegt við hafmeyju Kaupmannahafnar er Pissandi strákurinn sem er stytta af litlum strák að missa þvag. Staðsett á horni Rue de l’Étuve og Stoofstraat í gamla borgarhlutanum en styttan er lítil og verðskuldar kannski ekki alveg heimsfrægðina.

>> Hallarturninn (Porte de Hal)  –  Ferðamálayfirvöld í Brussel hafa lengi vel reynt sitt ítrasta til að koma Hallarturninum á kort ferðamanna. Einhverra hluta vegna er áhuginn takmarkaður en Fararheill mælir með skottúr hingað. Þessi væni turn stendur eins og álfur út úr hól við Saint-Gilles strætið er upprunalegur turn úr öðru af tveimur borgarhliðum Brussel á öldum áður. Hann hefur verið endurnýjaður mikið en sé áhugi að vita sögu borgarinnar er þetta eðalstopp.  Jarðlest stoppar fyrir utan við Hallepoort og sporvagnar 3 og 55 líka. Opinn daglega nema mánudaga 10 til 17. Aðgangur 800 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Því miður er Brussel í dýrari kantinum hvað verslun áhrærir og vandfundnar verslanir sem Íslendingum þættu makalaust frábærar í verðlagi. Segja má að Brussel sé í svipuðum verðklassa og París og Amsterdam.

Að því sögðu er enginn skortur á verslunum hér og úrvalið mjög gott. Verslunarmiðstöðvar eru algengar og margir verslunarkjarnar undir þaki. Finna má fjölmargar verslanir við Rue Neuve og þar er ein stór verslunarmiðstöð. Önnur vinsæl verslunargata er Boulevard Anspach en þar eru tískuverslanir sérstaklega margar á litlum bletti. Þar er sömuleiðis ein verslunarmiðstöð.

Ein elsta verslunarmiðstöð Evrópu er Galeries Royales St Hubert við Rue de Bouchers og er verð skoðunar jafnvel fyrir þá sem hata verslanir. Ekki fyrir úrvalið heldur arkitektúr enda miðstöðin mikið til undir glerþaki.

Yngra fólk heldur mikið til við Avenue Louise en þar má einnig finna mikið af dýrari merkjaverslunum. Sömuleiðis er nokkuð af verslunum í Galerie Agora út frá Grand Place en þar eru túristavörur meira áberandi en ella.

Hús og híbýli

Gisting í Brussel er í dýrari kantinum og að auki er borgin mikil ráðstefnuborg og á stundum kemur fyrir að flest hótel borgarinnar eru uppbókuð heilu helgarnar og jafnvel vikurnar. Eðlilega er Brussel vinsælust yfir sumartímann og því má fá gistingu hér nokkuð ódýrari á vorin og haustin.

Fararheill.is mælir með hótelbókunarvélinni HotelsCombined.com við að finna góða gistingu á besta verðinu.

Matur og mjöður

Belgar eru ekki þekktir fyrir matargerð og staðreyndin er að víðast hvar nema á dýrustu veitingahúsum er ekki hægt að fá mat sem kitlar bragðlaukana umfram ýsu og kartöflur hjá mömmu gömlu. Þó er það svo merkilegt að hér eru fleiri Michelin veitingastaðir en í París. Slíkir staðir eru þó undantekningarlaust dýrir.

Betri veitingastaðinu má marga finna á svipuðum slóðum nálægt Rue du Bouchers og hliðargötum þar. Ekki síðri eru staðirnir við Katarínutorg, St. Catherine, nálægt Grand Place en sá staður er kenndur við fiskmarkaðinn Marché aux Poissons. Gæta ber þess að rugla þeim ekki saman við túristastaðina í Ilot Sacré sem einnig er nálægt Grand Place. Þeir staðir eru litríkir og ágengi þjóna töluverð en þeir sleppa ágætlega enda maturinn yfirleitt sæmilegur og íslensk veski tæmast ekki við að setjast þar niður.

Fimm afbragðsstaðir sem Michelin mælir með í Brussel eru:

Ekki þarf að fara mörgum orðum um mjöðinn. Belgía er eitt allra frægasta bjórland heims og hér eru líka ræktuð ágæt vín þó minna fari fyrir þeim. Áhugafólk verður að prófa þær hundruð tegundir sem hér fást og oft á tíðum aðeins hér í landi. Rauðbjór, bragðbættur hveitibjór, trappist og abbey munkabjór svo ekki sé minnst á bjóra sem fara upp í 26 prósent í alkohólmagni. Svo má áfram telja en bjóráhangendur fara héðan sælir minninga.

Hátíðir og húllumhæ

Kúltúr og menning eru borgarbúum hugleikin og því ætti ekki að koma á óvart að blásið er í hátíðarlúðra hér með reglulegu millibili. Að frátöldum fjölmörgum vikulegum mörkuðum víða í borginni í hverri viku og jafnvel á hverjum degi er hér það helsta sem ferðamenn gætu heillast af í Brussel.

  • Karnival er árlegur viðburður í Brussel í febrúar ár hvert. Stendur sú hátíð alveg fram að páskum ár hvert og er eðli málsins samkvæmt með trúarlegu yfirbragði.
  • Barrokkhátíð mikil fer fram hér ár hvert í Sablon hverfinu í apríl. Bæði í Sablon kirkjunni en einnig á öðrum stöðum í hverfinu. Hér er barrokktónlist gert hátt undir höfði og ýmsir erlendir hljóðfæraleikarar mæta til leiks.
  • Evrópudagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minnast þess þegar hugmyndir komu fram um sameinaða Evrópu. Er dagurinn, 9.maí, í raun eini dagurinn þar sem gestir og gangandi geta skoðað byggingar Evrópusambandsins í borginni. Húllumhæ er líka á götum úti.
  • Sömuleiðis í maí á tveggja ára fresti fer fram Zinneke hátíðin. Fer þá fram mikil skrúðganga um borgina og tónlist, dans og skemmtilegheit allsráðandi.
  • Einna frægasti viðburður í Brussel er Jassmaraþonið sem líka fer fram í maí. Er það einn stærsti jassviðburður í veröldinni og hundruðir tónleika í boði víða á stöðum borgarinnar.
  • Tónlistarhátíð Brussel er árlegur viðburður í júní hvert ár. Líkt og á jassmaraþoninu spila hér tónlistarmenn út í eitt á fjölmörgum stöðum en þessi hátíð hefur mismunandi þemu ár hvert.
  • Eins og Grand Place sé ekki nógu stórkostlegur staður venjulega verður torgið enn fallegra einu sinni á ári þegar torgið er skreytt blómum í tonnavís og útbúið svokallað blómateppi. Fer sá viðburður fram á mismunandi tímum en alltaf í ágúst.

Líf og limir

Sé heilbrigð skynsemi notuð ætti að vera vandræðalaust að dvelja í Brussel enda örugg borg á heimsmælikvarða. Það þýðir þó ekki að veskinu eða símanum sé ekki rænt við fyrsta tækifæri en það er undantekning að ferðafólk verði fyrir árásum af nokkru tagi.