Þ ó nafn borgarinnar Bristol sé ekki mikið þekkt er þetta vinsæl borg til heimsóknar meðal Englendinga sjálfra og hefur verið um langa hríð. Þó töluverð menning trekki hér marga er það líklega veðurfarið sem hefur hvað mest áhrif því Bristol er fyrir Englendingum það sem Akureyri er fyrir Íslendingum; hér er ótrúlega oft kyrrt og fallegt veður og hitastig hærra en í nágrannaborgum.
Annað það sem vakið hefur athygli á borginni síðastliðin ár er gríðarleg endurskipulagning borgaryfirvalda sem settu á dagskrá fyrir síðustu aldamót að færa þessa gömlu og það sem þá var niðurníddu borg til vegs og virðingar á nútímavegu. Þetta hefur tekist undrahratt því Bristol er í dag talin ein allra nútímalegasta borg Englands en geymir þó vandlega djásn sín frá fyrri öldum en Bristol var um skeið á miðöldum á pari við London í stærð og fegurð. Hér má finna nýtískulegar verslunarbyggingar við hlið eldgamalla en fallegra bygginga í indælum georgíustíl.
Hér má mætavel eyða nokkrum dögum án þess að finna til leiða og þetta er ágætur miðpunktur hafi fólk áhuga að skoða Somerset eða Gloucestershire héruð sem komast hafa á kortið erlendis gegnum ýmsa vinsæla breska þætti og kvikmyndir. Hér er til dæmis merkilegur fjöldi golfvalla og örstutt yfir til Wales þar sem golfvellir eru nánast fleiri en fólk. En það er líka fjölmargt annað en golf hér um slóðir.
Íslendingar gætu tekið meira ástfóstri við fólk hér en gengur og gerist í Bretlandi því Bristol er hafnarborg og hér er útgerð stór atvinnuvegur enn þann dag í dag.
Til og frá
Flugvöllur Bristol borgar, Bristol Airport, er tiltölulega nýlegur og ekki of stór og þar að finna allt það sem hugur girnist á slíkum stað. Þó á korti megi heita að völlurinn sé nánast inni í borginni er engu að síður 20 til 30 mínútna ferð inn í miðborg þar sem allt það helst og besta gerist.
Fljótlegast hér sem annars staðar er að grípa leigubíl við útganginn en sá er um tuttugu mínútur inn í miðborgina. Það er þó í dýrari kantinum eða aldrei lægra en 5.200 krónur aðra leið. Enn meira ef umferð er mikil.
Hér er flugrúta líka. Airport Flyer Express fer allan sólarhringinn til og frá og á átta mínútna fresti á annatímum. Rútan er 30 mínútur milli staða en hún stoppar reyndar víða. Frá flugstöðinni liggur leiðin að Temple Meads umferðarmiðstöðinni í miðbænum en á leiðinni til baka er tekinn hringur í miðbænum framhjá helstu hótelsvæðum. Verð á mann aðra leið 1.400 krónur en afsláttur fæst ef keyptar eru báðar leiðir.
Til umhugsunar: Temple Meads er ekki aðeins umferðarmiðstöð heldur lestarstöð líka. Þaðan er hægt að ferðast áfram með lestum hingað og þangað.
Söfn og sjónarspil
>> Sjóferðasafnið (SS Great Britain) – Við Gas Ferry Road vestanmegin á hafnarsvæðinu gefur að líta eitt sögufrægasta skip heims. SS Stóra-Bretland heitir það og er fyrsta skip veraldar sem smíðað var úr járni og spilaði rullu um tíma sem skemmtiferðaskip og flutti ennfremur hermenn um skeið. Merkilegt skip sem hægt er að skoða í hólf og gólf í orðsins fyllstu og mælum við sannarlega með því. Miðaverð 2.600 krónur. Opið 10 – 17:30 alla daga ársins nema jóla- og nýársdag. Heimasíðan.
>> Borgarlistasafnið (Bristol Museum & Art Gallery) – Ekki Louvre en mjög gott safn engu að síður og langbesta safnið í borginni. Það stendur við Queens Road í West End hluta borgarinnar og sýningar breytast hér ört og mikið en alltaf er eitthvað spennandi að sjá. Safnið er á tveimur hæðum og salir þess hýsa mismunandi gripi. Mjög vinsælt er að sjá sýningu um risaeðlur sem alltaf er í gangi á jarðhæðinni og gæti kætt smáfólkið. Öll helsta þjónusta í boði. Strætisvagnar 1, 8, 9 og 40 fara hér framhjá á leið sinni. Opið alla daga frá 10 til 18 en klukkustund skemur á virkum dögum. Ekki leiðinlegt heldur að aðgangur er ókeypis. Heimasíðan.
>> Arnolfini safnið (Arnolfini) – Annað þekktasta listasafn borgarinnar er Arnolfini sem staðsett er við höfnina við Narrow Quay. Sýningar hér öllu frjálslegri en gengur og gerist og fátt sem ekki kemst að hér og sumt sem seint flokkast kannski sem sérstök list. Forvitnilegt í öllu falli. Opið 11 – 18 alla daga nema mánudaga. Frítt inn. Heimasíðan.
>> Rauða athvarfið (Red Lodge Museum) – Þessi bygging við Park Row lætur ekkert yfir sér og helst skýtur í augu stór rautt skilti þegar að er komið. Þar kemur í ljós að þetta óhrjálega hús var eitt sinn sumarathvarf Elísabetar fyrstu Englandsdrottningu. Innivið er allt í himneskum tudor-stíl og auðvelt að ímynda sér flakk aftur í tímann í þessum húsakynnum. Allt er hér enn með sama hætti og var þegar Elísabet þvældist hér um ganga. Skemmtilegt en þröngt og ekki auðvelt að fara um fyrir þá sem erfitt eiga með gang. Húsið aðeins opið á sumrin milli 11 og 16 en ókeypis inn. Heimasíðan.
>> Gamla leikhúsið (Bristol Old Vic) – Ein glæsilegasta bygging borgarinnar í King stræti í elsta bæjarhlutanum er Old Vic eða gamla leikhúsið sem enn býr yfir miklum sjarma. Byggingin var lengi í niðurníðslu en ein þeirra sem tekin var í gegn á sínum tíma og allt eftir gamla stílnum. Hér fara fram stórar og miklar sýningar allt árið um kring og er það eina leiðin til að skoða. Heimasíðan.
>> Cheddar gljúfrin (Cheddar Gorge) – Strangt til tekið er þetta ekki í Bristol sjálfri heldur 15 kílómetrum utan hennar. Hér má sjá gljúfur mikil sem sögð eru vera þau dýpstu á Englandi. Hellakerfi er hér stórt og mikið líka og merkilegar steinmyndanir í þeim sem skoða má ef vilji er til. Hér er ýmislegt annað hægt að dunda enda staðurinn vinsæll hjá fjölskyldum en margt af því heldur túristalegt. Taka verður lest til Weston og rútu 126 þaðan alla leið. Opið 10 til 17. Aðgangseyrir 3.800 við innganginn en afsláttur ef bókað er á netinu. Heimasíðan.
>> Grasagarðurinn (Bristol University Botanical Garden) – Stór og mikill og ómissandi stopp fyrir alla með græna fingur eða áhuga á lífi plantna. Garðurinn sagður einn sá besti á Bretlandseyjum og hér sérstaklega leitast eftir að rækta plöntur sem yfirleitt finnast aðeins nálægt miðbaug. Glæsilegur staður og afar afslappandi. Hann finnst við Hollybush Lane og er opinn milli 10 og 16 alla virka daga allt árið en aðeins tekinn aðgangseyrir yfir sumartímann. Strætisvagn 40 að Stoke Bishop. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.
>> Dýragarðurinn (Bristol Zoo) – Nafnið segir allt sem segja þar. Tæplega 500 tegundir dýra hér til sýnis í fallegu umhverfi. Strætisvagna 8 eða 9 beint í garðinn. Opið 9 – 16:30 yfir sumartímann en skemur á veturna. Miðaverð 3.000 fyrir fullorðna en helmingur þess fyrir smáfólkið. Heimasíðan.
>> Clifton hengibrúin (Clifton Suspension Bridge) – Tákn Bristol borgar og héraðsins alls er þessi fallega hengibrú yfir Avon gljúfrið en brúin sést vel frá stöku stöðum í borginni. Brúin er heimsþekkt sem tæknilegt undur og var ein allra fyrsta hengibrú heims og hönnuð af hinum 24 ára gamla Isambard Kingdom Brunel sem sögufróðir ættu að kannast við. Hún hefur staðist tímans tönn sérdeilis vel því enn er hún í notkun þó 150 ára gömul sé og hafi verið hönnuð fyrir umferð hestvagna en ekki bifreiða. Útsýn héðan er æði gott og gljúfrið fallegt. Sérstök kynningarstofa er hér starfrækt allan ársins hring og opin milli 10 og 17. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Það er alveg óhætt að fylla veskið af peningum áður en haldið er hingað. Nóg er af verslunum hér og verðlag er nokkuð undir því sem raunin er í London þó dýrara sé hér en norðar í landinu.
Spyrji menn heimamenn um verslanir er yfirleitt aðeins ein gata sem nefnd er til sögunnar. Broadmead er bæði vinsæl miðborgargata og samnefnari fyrir mesta og besta verslunarsvæðið í Bristol. Öll stóru merkin eru hér auk fjölmargra minna þekktari. Barir og aðrir nauðsynjastaðir hér líka með reglulegu millibili. Velflestir strætisvagnar borgarinnar stoppa hér og varla hægt að fara á mis við þennan hluta Bristol
Ekki langt frá Broadmead er að finna stórverslunarkjarnann Cabot Circus sem er Kringla heimamanna með tilheyrandi kvikmyndahúsi, veitingastöðum og öðru því sem finnst í hefðbundnum verslunarmiðstöðvum. Hér er líka hótel fyrir þá allra lötustu.
Þriðja verslunarsvæðið sem vit er í er einnig hér örskammt frá. Það er verslunarmiðstöðin Galleries sem er oft á tíðum besta svæðið til verslunar og kemur það til af því að vöruverð er hér örlítið lægra almennt en á hinum stöðunum og mannþröngin ekki jafn ægileg á tyllidögum.
Fjórir markaðir eru hér en aðeins tveir sem bragð er að. Nikulásarmarkaðurinn, St.Nicholas Market, í Corn stræti í gamla miðbænum er klassískur og hægt að versla allt frá ávöxtum til gamalla lampa. Sá er að stærstum hluta undir þaki og því skiptir veðurfar engu máli. Hann er rekinn alla virka daga milli 10 og 17. Sá seinni er gamli markaðurinn, Nails Market, þar sem sérvörur eru á boðstólnum og sérstakir einstaklingar víða á vappi. Sá seinni er líka á Corn stræti en liggur ennfremur inn Wine strætið. Sá er opinn föstu- og laugardaga milli 10 og 17.
Til umhugsunar: Margir Íslendingar gera sér far eftir því að komast í outlet-verslanir hvar sem þær er að finna. Engar slíkar verslanir er að finna á nágrenni Bristol. Ein slík er í grennd við Swindon til austurs og stór og mikil outlet-verslun finnst nálægt Swansea. En það er tveggja tíma keyrsla á báða staði frá Bristol.
Matur og mjöður
Eins og sæmir í borg þar sem allt er á uppleið og töluvert er um seðla er gnótt góðra veitingastaða um alla borg. Sem fyrr vill Fararheill ekki mæla með sérstökum stöðum en við höfum afbragðs reynslu af því að glugga á vef Michelin. Þar má sjá alla veitingastaðina og flokka eftir tegundum, verði og gæðum ef því er að skipta.
Djamm og djúserí
Já og mikið af því. Eins og annars staðar í Bretlandi eru læti hér um helgar þó staðir sem selja áfengi og vín loki snemma á virkum dögum. Þrír staðir sem þykja inn í skemmtanaflórunni þegar þetta er skrifað eru Elbow Room, Commercial Rooms og Start the Bus.
Borgarbúar fá engin framúrstefnuverðlaun fyrir háttalag við drykkju. Hefðbundin bresk borg í því tilliti.
Líf og limir
Því miður er það svo að glæpir eru algengir í Bretlandi og Bristol þar ekki undanskilin. Hér eru veskjaþjófar á ferðinni og sumir þeirra herja sérstaklega á ferðafólk. Varað er við einstökum hverfum borgarinnar að kvöldi til eða nóttu. Sérstaklega þykir ófýsilegt að vera á ferð í Easton, Werburghs og St Pauls en það eru fátækari hverfi Bristol og alvarlegir glæpir nokkuð tíðir.