L engri gönguferðir um heillandi svæði heimsins njóta sannarlega hraðvaxandi vinsæla enda fjölgar því fólki sýknt og heilagt sem kýs að stunda útivist án þess að hafa flýti í forgangi. Fátt betra til þess en lengri gönguferðir.

Ein allra vinsælasta gönguleíðin í Portúgal. Mynd TurismodePortugal

Afbragðs gönguleiðir finnast í og við hið vinsæla Algarve hérað Portúgal en sú sem skemmtilegust þykir er vafalítið La Rota Vicentina. Sú leiðin skiptist reyndar í tvennt: annars vegar klassíska leiðin og hins vegar sjómannaleiðin.

Hér er um að ræða átta til fimmtán daga langar göngur eftir suðvesturhluta landsins frá Setúbal-héraði niður að skorinni og kostulegri strandlengju Algarve skammt frá hinum skemmtilegu bæjum Sagres og Lagos. Töluverður fjöldi fólks fer þessar leiðirnar á hjóli líka sem styttir túrinn verulega.

Einhver gæti haldið að hátt hitastig í suðurhluta Portúgals væru nú ekki kjöraðstæður fyrir langar göngur en þá kemur til sú staðreynd að hér er að mestu gengið meðfram Atlantshafsströnd landsins og það vita þeir sem reynt hafa að ferskur vindur af hafi er nánast gefið og sá vindur gerir fólki kleift að rölta hér um án þess að svitna út í eitt eða lognast út af vegna hita.

Smærri bæir finnast víða á þessum leiðum sem gerir það að verkum að gisting og eða matur er ekki vandamál en líka er vinsælt að tjalda bara í lok hvers dags.

Munurinn á leiðunum sést á kortinu hér til hliðar. Gula línan sýnir klassísku leiðina sem farin var fyrr á tímum þegar fólk þurfti á milli landshluta en bláa línan, sjómannaleiðin, fylgir hins vegar skorinni strandlengjunni að stórum hluta.

Eðli máls samkvæmt er sjómannaleiðin erfiðari en að mörgu leyti skemmtilegri því þar gefst færi á að stoppa í hinum ýmsu fiskimannaþorpum og fá nýveidda sjávarrétti beint á borðið.

Kostuleg strandlengja og aldrei of heitt. Mynd Bonviure

Báðar leiðir eru vel varðaðar og merktar og töluverður fjöldi fólks gengur hér um og því lítið mál að fá félagsskap ef svo ber undir.

Flestir hefja túrinn frá borginni Setúbal og ekki er óalgengt að tólf daga þurfi til að komast alla 450 kílómetra leiðarinnar. Oftar er þó gert ráð fyrir fimmtán dögum fyrir venjulegt fólk sem er ekki í súperformi. Svo er auðvitað ekkert bannað að hefja túrinn annars staðar og lengja þá eða stytta gönguna.

Mælum 100% með göngutúr á þessum slóðum og ef þér líst betur á hjólatúr, sem tekur svona fimm til sex daga ef flýtirinn er enginn, er minnsta mál að leigja eða kaupa gott hjól á stærri þéttbýlisstöðum.