Ö llu má nafn gefa sagði skáldið og líklega hefur bæjarstjóri Tartu í Eistlandi tekið skáldið til fyrirmyndar þegar hann ákvað að slagorð borgarinnar yrði „borg góðra hugsana. Fyrir þessu er lítil innistæða og nægir að heilsa upp á nett rússneskar kvinnurnar á brautar- eða rútustöð bæjarins til að komast að öðru.

Að þessu sögðu er Tartu góð til brúksins í einar sex klukkustundir eða svo eða þann tíma sem það tekur rólynt fólk að sjá það sem sjá má í borginni. Borgin er því ágætur áfangastaður einn dag eða svo en vart meira.

Fyrir þá yngri er Tartu líklega töluvert skemmtilegri um helgar og seint á kvöldin þegar háskólafólkið nýtur lífsins í miðbænum en í Tartu er frægasti og stærsti háskóli landsins. Næturlífið samt töluvert frá því að vera stórkostlegt. Ekki vantar barina en klúbbar eru hér aðeins tveir eða þrír eftir árstíma.

Tartu er þriðja stærsta borg Eistlands og elsta byggða ból á öllum Balkanskaganum. Sem annars staðar í Eistlandi er gamli miðbærinn aðal aðdráttaraflið. Miðbæjartorgið, Raekoja Plats, er hefðbundið steintorg en ráðhús bæjarins er hér í aðalhlutverki. Það er falleg bygging en ekki síðri er lítill gosbrunnur fyrir framan ráðhúsið en þar kyssast ungir elskendur af ástríðu. Ekki er óalgegnt um helgar að smáfólkið mæti snemma morguns og hendi sápu í brunninn svo úr verður sápukúlufargan.

Í þessu sama ráðhúsi má finna ferðamannamiðstöð bæjarins, Infopunkt, og þar má fá allar helstu upplýsingar sem ferðamenn vanhagar um; skoðunarferðir, dagsferðir, afþreyingu og svo videre. Miðstöðin er engu að síður ys og þys útaf engu því hálfs dags göngutúr um gamla bæinn duga mætavel til að sjá það sem hér er markvert.

Til og frá

Flugvöllur er í tíu kílómetra fjarlægð frá Tartu. Sá heitir Tartu Lennujaam og er lítill en vel brúklegur. Fyrst og fremst er hann notaður af flugfélögum Eystrasaltslandanna.

Þar bíða alla jafna leigubílar en einfaldast er að taka flugrútuna, Airport shuttle, sem ekur fólki hvert í borgina sem það vill. Kostar það 400 krónur á mann. Rúta bíður í 30 mínútur eftir að vél hefur lent. Frá borginni fer sama rúta frá Tartu Kaubamaja verslunarmiðstöðinni einni og hálfri klukkustund fyrir hvert flug.

Langflestir sem hingað leggja leið sína koma þó með rútum frá Ríga í Lettlandi eða Pärnu eða Tallinn í Eistlandi. Frá Tallinn og Pärnu eru rúmir tveir tímar með rútum.

Rútustöðin er lítil en ágæt í um 10 mínútna fjarlægð frá miðbænum við eina af þremur verslunarmiðstöðvum Tartu. Aðeins eru átján hótel í borginni allri og eru þau velflest á svæðinu frá rútustöðinni og að miðbæjartorginu. Engin þörf er á leigubílum nema farangur sé því þyngri.

Samgöngur og snatterí

Ágætar alveg en fyrir hefðbundinn ferðamann er alls engin þörf að láta reyna á þær.

Söfn og sjónarspil

> Ráðhústorgið (Raekoja plats) – Fallegt miðaldartorg með nútímalegu yfirbragði og einum fimm veitingastöðum og börum við torgið. Ráðhúsið sker sig úr með sínum gnæfandi klukkuturni og gosbrunnurinn er fallegur. Hér á að vera frítt net en það er upp og niður hvort svo er í raun.

> Toome hæð (Toomemägi) – Beint fyrir aftan ráðhúsið er Toomehæð. Þar er ágætur garður og mögulegt að fá nasasjón yfir miðbæinn þaðan. Þar eru rústir gamallar dómkirkju Tartu, Toomkirik, en í þeim hluta kirkjunnar sem enn stendur er Háskólasafnið sem tileinkað er sögu háskóla bæjarsins. Útsýnispallur er á kirkjunni og þaðan gefst sennilega eitt besta útsýnið yfir gamla bæjarhlutann. Í hinum enda garðsins er stjörnuskoðunarstöð sem komin er til ára sinna en var á þrettándu öld sú fullkomnasta í allri Evrópu.

> Háskólinn í Tartu (Ülikooli Peahoone) – Aðalbygging frægasta háskóla landsins er falleg bygging. Þar fer enn fram kennsla og lítið mál er að kíkja inn. Háskólasalur skólans er sérstaklega frægur um allt land fyrir afburða góðan hljómburð. Þó er fyrir nokkru búið að flytja megnið af starfsemi skólans í nýtt og betra húsnæði í úthverfi Tartu. Ein fjögur söfn í Tartu tengjast sögu háskólans með einum eða öðrum hætti.

> A.Le Coq bjórsafnið (A.Le Coq Museum) – Eistneskur bjór þykir ágætur og A. La Coq er næstvinsælasti bjór landsins á eftir Saku. Í Tartu eru höfuðstöðvar framleiðandans og þar er safn í hundrað ára gömlum maltturni sem er hreint ágætt. Allt um framleiðsluna og sögu bjórs frá aldaöðli. Smakk innifalið. Við Laulupeo stræti við Tähtvere garð. Opið þriðjudaga til laugardaga milli 9 og 17. Miðaverð 245 krónur. Heimasíðan.

> Gamla líffræðisafnið (Theatrum Anatomicum) – Forvitnilegt safn er rekur sögu læknisfræðideildar Tartu háskólans frá opnun fyrir 200 árum. Ýmislegt geðslegt og miður geðslegt til sýnis um líkamann og lækna. Safnið er á Toome hæð í hrörlegu safnhúsi sem engu að síður hefur eitt sinn verið stórglæsilegt. Opið virka daga milli 11 og 17. Heimasíðan.

> Uppsalahús (Uppsala Maja) – Eitt allra elsta en heillegasta byggingin í Tartu er Uppsalahús sem fyrir utan að vera ótrúlega vel við haldið þrátt fyrir rúmlega 400 ára aldur. Það er númer 7 við Janni götu og nafnið er tilkomið vegna þess að sænski vinabærinn Uppsala aðstoðaði við enduruppbyggingu hússins.

> Wilde og Vilde (Wilde / Vilde) – Fræg stytta af kollegunum Oscar Wilde og Eduard Vilde sem báðir voru þekktir rithöfundar sem uppi voru á sama tíma án þess þó að hittast. Oscar þekkja flestir Íslendingar en Eduard þótti lítt síðri meðan austanmanna. Styttan er við Vallikraavi götu við hlið Sampo bankans. Þar er einnig ágætur bar.

> Púðurgeymslan (Püssirohukelder) – Þessi staður er líklega frægasti barinn í Tartu enda staðsettur í gamalli púðurgeymslu sem byggð var 1767. Þá er Púðurgeymslan einnig hæsti bar í heiminum en lofthæðin á staðnum er rúmlega tíu metrar. Nóg púður hér fyrir þá sem bjórinn þamba og yfirleitt kjaftfullt þegar líða fer að helgum.

Verslun og viðskipti

Í Tartu eru þrjár smærri verslunarmiðstöðvar og úrvalið hreint ágætt miðað við ekki stærri bæ. Hægt er að gera allbærileg kaup á algengum vörum enda verðlag örlítið lægra hér en í höfuðborginni Tallin.

Við rútubílastöðina er haldinn daglega lítill útimarkaður milli 8 og 14. Sá er keimlíkur öðrum slíkum í landinu en þó er meira rússneskt snið á þessum. Annar slíkur markaður en undir þaki er rekinn skammt frá en þar er áherslan á matvæli hvers konar.

Djamm og djúserí

Ágætt úrval af góðum börum og veitingahúsum hér og verðlag gott. Sökum þess að um háskólabæ er að ræða er fjöldi ungs fólks áberandi og þau hafa ekki lítið gaman af skemmtunum. Garðarnir í og við miðbæinn eru líka vinsælir til samkomustunda.

Líf og limir

Alles gut hér og afar ólíklegt að erlendir gestir lendi í vandræðum hér nema sækjast beinlínis eftir því. Heimamenn eru almennt fljótir að verma gagnvart ferðamönnum.

View Larger Map