Skip to main content

K annski hafði Shakespeare Billund í huga þegar hann færði til bókar að eitthvað væri rotið í Danaveldi. Ekki svo að skilja að þar sé eitthvað sérstaklega rotið per se en bærinn Billund er í raun lítið annað en vinnubúðir fyrir þær þúsundir sem starfa í eða við Lególand og eða alþjóðaflugvöllinn sem eru þeir tveir staðir sem komið hafa Billund á kortið.

Í bænum sjálfum búa rétt liðlega átta þúsund manns sem velflestir starfa á einn eða annan hátt við Lególand og þjónustu við ferðamenn en önnur starfsemi er teljandi á fingrum annarrar handar.

Engin spurning er um aðdráttarafl Lególands og nýlega opnaði þar vatnsleikjagarðurinn Lalandia sem einnig hefur notið vinsælda. Billund sjálfur hins vegar er tiltölulega innantómur bær þó indæll sé eins og reyndar velflestir bæir í landinu.

Til og frá

Örskammt frá Billund er tiltölulega nýr og mjög þægilegur alþjóðaflugvöllur, Billund Airport, sem mikið er nýttur af lágfargjaldaflugfélögum og íslensku flugfélög notast við. Fjórar leiðir eru mögulegar til og frá vellinum; með lest, leigubíl, rútum eða með bílaleigubíl sem er sá kostur sem flestir nýta sér sem fljúga um Billund.

Rúturnar eru nokkrar sem fara reglulega til og frá Billund og til nokkurra staða á Jótlandi. Þær eru þó aðeins í boði flestar yfir daginn en ekki langt fram eftir kvöldi. Þær eru:

  • 117 til Give og Horsens
  • 166 til Kolding
  • 43 og 143 til Vejle
  • 44 og 144 til Esbjerg
  • 913X til Árósa og Silkiborgar
  • Flugrútan til Skanderborgar, Árósa og Horsens

Leigubílarnir eru í raun slæmur kostur sökum kostnaðar nema erindið sé aðeins til Billund sem er skammt frá. Ferðalag þangað ætti ekki að kosta meira en tvö þúsund krónur.

Með lest er hægt að komast til velflestra staða í Danmörku en til að ná lest þarf að komast til nágrannabæjarsins Vejle til austurs.

Söfn og sjónarspil

>> Lególand (Legoland) – Það allra áhugaverðasta við Billund er hinn heimsfrægi Lególand við Nordmarksvej. Er það stór og mikill skemmtigarður eðlilega tileinkaður börnum að mestu leyti en fáir sem komnir eru á aldur hrífast ekki af stórskemmtilegum legóhúsum sem eru listilega gerðar eftir raunverulegum húsum og bæjum að hluta. Hér eru fjölmörg leiktæki, verslanir og veitingastaðir fyrir ferðafólk en Lególand sækja heim tæplega tvær milljónir manna á hverju ári. Nýtt aðdráttaafl í garðinum er Pólarland sem opnar vorið 2012. Hafa skal í huga að Lególand er aðeins opinn frá mars til október nema í undantekningartilfellum. Opnunartími er misjafn eftir mánuðum en yfir sumarið milli 10 og 20. Fullorðnir greiða 6.800 krónur í aðgangseyri og börn fram að 12 ára aldri 6.300 krónur. Stöku aukagjald er einnig í leiktæki innan garðsins. Heimasíðan.

>> Vatnsleikjagarðurinn (Lalandia Aquadome) – Nýlegur vatnsleikjagarður og frístundasvæði og hér má til að mynda leigja sér hyttu ef svo ber undir. Garðurinn góður og smáfólkið mun lítið kvarta hér og nokkuð er um aðra afþreyingu fyrir þá sem aðeins eru eldri. Sjálft sundsvæðið er opið milli 10 og 20 yfir hásumartímann en skemur þess utan. Ekki er alveg frítt að buslast hér. Fullorðnir punga út 4.800 krónum og hinir sem smærri eru á hæðina og ekki náð tólf árum sleppa inn fyrir 3.900 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Neibbs! Einhverjar smærri verslanir eru í Billund en engar sem líklegar eru til að heilla Frónbúa. Sömuleiðis eru veitingastaðir mjög af skornum skammti og samanstanda í raun aðeins af pulsusölum og skyndibita. Hægt er að borða sæmilega á matsölustöðum í Lalandia og Lególandi en greiða þarf þá aðgang.

View Áhugaverðir staðir í Billund in a larger map