Þ að er æði gaman að koma fyrsta sinni til borgarinnar Bayonne í nokkurra kílómetra fjarlægð frá landamærum Frakklands og Spánar. Borgin hefur mikinn sjarma, andrúmsloftið almennt merkilega rólegt miðað við tiltölulega stóra borg og stanslítill ferskur andvarinn frá Biscay flóanum er hressandi í meira lagi og minnir á köflum á sjávarhagana heima.

Bayonne er almennt ekki á leið flestra ferðalanga og þangað þurfa Íslendingar í það minnsta að gera sér sérstaka ferð enda langt í næsta flugvöll þangað sem flogið er beint frá klakanum.

En af mörgum frábærum stöðum, bæjum og borgum í Frakklandi fer Bayonne í bækur sem hinn vænlegasti áfangastaður. Hér eru basknesk áhrif, og reyndar spænsk líka, einna mest í öllu Frakklandi og skal engan undra enda tala margir hér basknesku og telja sig tilheyra Baskalandinu góða. Að sama skapi er íbúar hér rólegri og yndislegri en ættingjar og vinir hinu megin landamæranna og norrænir menn hér afar velkomnir.

Fyrir utan ýmsar minjar og fróðlegheit býr borgin yfir mikilli sögu. Það var til dæmis hingað sem Napóleón Bonaparte narraði Spánarkonung alla leið frá Madríd á miðöldum til þess eins að svipta hann titlinum og krýna eldri bróður sinn konung í staðinn.

Bayonne er í dag nánast samvaxin strandborginni Biarritz og smábæjunum Anglet og Saint Jean-de-la-Luz en samanlagt búa þar rétt tæplega 200 þúsund manns. Innan bæjarmarka Bayonne per se er íbúafjöldinn um 40 þúsund.

Sérstaklega yndislegt við Bayonne eru tvær ár sem skipta bænum; annars vegar áin Nive sem skiptir borginni í Grand Bayonne og Petit Bayonne og hins vegar áin Adour sem skiptir Petit Bayonne frá Saint Bayonne. Meðfram báðum eru yndisleg gömul hús og gnótt kaffihúsa eins og maður ímyndar sér að alvöru kaffihús eigi að vera. Þ.e.a.s. ekki eins og Te og Kaffi. Vart þarf að taka fram að mest er að sjá og upplifa í Grand Bayonne sem jafnframt er elsti borgarhlutinn.

Síðast en alls ekki síst, og þessi staðreynd kemur mörgum á óvart, þá er Bayonne mekka súkkulaðiframleiðslu í Frakklandi. Það vita þeir sem prófað hafa að í þá súkkulaðiskó fara alls ekki allir. Þá er Bayonne vitaskuld þekkt fyrir skinku eða öllu heldur sérstaka aðferð við að salta skinku og Bayonne er einnig sá staður í Frakklandi öllu þar sem nautaat er mest stundað í landinu. Eins og þetta sé ekki nóg þá fer fram í Bayonne stærsta borgarhátíðin í öllu Frakklandi; Fêtes de Bayonne.

Til og frá

Saman deila ofantaldir fjórir staðir einum og sama flugvellinum. Aéroport de Biarritz-Anglet-Bayonne er staðsettur sex kílómetra frá Anglet og stutt frá honum til allra staðanna. Þangað fljúga nokkur lágfargjaldaflugfélög flesta daga ársins. Frá flugvellinum er bæði hægt að planta rassi í taxa og komast til Bayonne fyrir 1.400 krónur eða taka strætisvagna 14 eða C10. Þeir fara inn í miðborg Bayonne á rúmum 20 mínútum og kostar farið 160 krónur.

Fleiri sem hingað koma fá þó far með lest. Hingað á fræðilega séð að ganga hin hraðskreiða TGV lest frá París en reyndin er að eftir að borginni Bordeaux sleppir er ferðin hingað æði róleg.

Frá Spáni eru einnig rútur frá San Sebastian og Bilbao reglulega auk þess sem rútur frá Madríd fara hér í gegn en óreglulegar.

Innanbæjar ganga strætisvagnar til og frá öllum hverfum og til næstu bæja og borga ört. Tíu mínútur tekur að fara á ströndina svo dæmi sé tekið. Innan Bayonne sjálfrar er þó lítil þörf á almenningsvögnum.

Loftslag og ljúflegheit

Bayonne stendur nálægt Biscayflóanum og veðurfar þægilegt. Hér er 20 gráðu hiti í júlí og ágúst meðaltalið en þegar verst lætur í desember og janúar er hitastigið samt sjaldan niðurfyrir átta gráður yfir daginn.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Cathédrale Sainte-Marie de Bayonne) – Íburðarmikil og falleg dómkirkja borgarinnar er augnayndi og hana hægt að skoða bæði innan og utan án vandkvæða. Kirkjan atarna er byggð á rústum annarrar kirkju frá tímum Rómverja en núverandi kirkja er að hluta til frá þrettándu öld en við hana hefur verið byggt meira og minna síðan. Lítið gamalt klaustur er að finna bakvið dómkirkjuna sem bættist við seint á átjándu öld. Dómkirkjan í Bayonne er oft hluti af stoppi þeirra sem ganga Jakobsveginn frá Evrópu. Hún stendur á áberandi stað við Louis Pasteur strætið. Opið 9 til 12 og 14 til 18 alla daga yfir sumartímann en skemur á veturna. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Baskneska safnið (Musee Basque et de l’histoire de Bayonne) – Þetta ágæta safn sem bæði nær til sögu Baska hér um slóðir og eins sögu borgarinnar er staðsett í fallegri byggingu frá sautjándu öld sem sjálft er á minjaskrá Frakklands og verndað sem slíkt. Fróðlegt mjög og langbesta leiðin til að kynnast ýmsu merkilegu um Baska og líf þeirra á svipstundu án þess að liggja yfir bókum. Staðsett við Quai des Corsaires. Opið á sumrin 10 til 16. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.

>> Frelsistorgið (Place de la Liberté) – Fallegasta torg borgarinnar við fallega brú yfir Nive ánna en hér er staðsett ráðhús borgarinnar og aðalleikhúsið. Auk þess má sjá hér greftað í stein móttó Bayonne sem gróflega má þýða sem „aldrei ræfilshátt.“

>> Pannecau brúin (Puente Pannecau) – Ein af eldri brúm borgarinnar og þessi helst merkileg fyrir þær sakir að hér var öllum ótrúum eiginkonum drekkt í járnbúrum lengi vel fram eftir öldum. Segið svo að jafnréttisbaráttan hafi ekki náð töluverðum árangri.

>> Grasagarðurinn (Jardin Botanique) – Fallegur garður með þúsunda tegunda blóma og grasa og hannaður að hluta í japönskum stíl. Allra best er að garðurinn er eins miðsvæðis og hugsast getur og frábært að hvíla lúin bein hér eftir rölt eða verslun. Garðurinn stendur við 11. september breiðgötuna en er aðeins opin á verslunartíma.

>> Bonnat safnið (Musee Bonnat) – Helsta og besta listasafn borgarinnar er skammt frá Baskasafninu við rue Jacques. Þar má berja augum verk fyrrnefnds Leon Bonnat auk þekktari meistara á borð við Goya, Rubens og Degas. Afar fínt stopp fyrir áhugafólk um myndlist. Safnið er lokað vegna endurbóta þegar þetta er skrifað og óljóst hvenær það opnar að nýju. Heimasíðan.

Matur og mjöður

Hér er ein gáta: Þar sem saman kemur frönsk matargerð og basknesk matargerð hver er þá líkleg útkoma? Jú, ætli menn viti ekki svarið við þessu. Hér eru fjölmargir fínir staðir til að fylla malla og gott betur. Meira að segja verri veitingastaðir hér eru betri en margir góðir norðar í álfunni.

Tveir sem ritstjórn getur persónulega mælt með og þar sem aðalatriðið er matur frá héraðinu eru La Feuillantine við Quai Amiral-Dubourdieu og L´embaradère við Quai Amiral Jauréguiberry götu skammt frá Pannecau brúnni. Margir aðrir góðir staðir eru um alla borg.

Við Port Neuf strætið er sérstaklega mikið af sælkeraverslunum og skal enginn þangað nema eiga vasa fulla af seðlum til að versla þegar vatn kemur í munn. Og vatn mun fylla hér munn.

Djamm og djúserí

Ekki er ýkja sérstök þörf að lyfta sér sérstaklega upp hér í borg. Flestir sem hingað koma færast ósjálfrátt í eðalskap en til að flýta fyrir er litla Bayonne, Petit Bayonne, svæðið málið. Knæpur og barir eins og þú getur í þig látið á stóru svæði og hver og einn með sín heillandi sérkenni.

Eigi fólk kost á því að dvelja hér í ágústmánuði og sé í góðu stuði fer fram í Bayonne hátíðin Fêtes de Bayonne. Sú er tiltölulega nýlega hátíð en af baskneskum uppruna þar sem allir klæðast hvítu og rauðu og hugmyndin aðeins að hafa gaman af lífinu. Fyllast göturnar af fólki í heila fimm daga og ýmsir gjörningar, fjöllistamenn og farandsýningar í boði. Fyrir utan alvöru flugeldasýningu. Hátíðin byrjar alltaf fyrsta miðvikudag fyrir fyrsta sunnudaginn í ágústmánuði eða á sama tíma og við fögnum Verslunarmannahelginni.

Verslun og viðskipti

Vanti fólk vörur er nóg af þeim hér og reyndar feykilega gott úrval af verslunum hér. Fyrir handgerða og sérstaka muni frá héraðinu er gamli bærinn, Grand Bayonne, málið en þar er fjöldi skemmtilegra lítilla verslana út um allt.

Sælkerar ættu að drífa sig beint í göngugötuna rue Port Neuf þar sem súkkulaðið flæðir og kökur og sætabrauð finnast í tonnatali.

Antíksalar finnast allnokkrir í götunum bakvið dómkirkjuna við rue des Faures og fyrir hefðbundnar tískuvörur og glingur er ráð að finna rue Thiers eða Quai de Nive.

Líf og limir

Stærsta hættan hér að drekka yfir sig af góðu rauðvíni og detta í árnar á leiðinni heim. Að gamni slepptu er hér fátt að óttast og engin sérstaklega slæm hverfi sem vara þarf við.