Það fór nákvæmlega eins og ritstjórn Fararheill fullyrti: Flugfélagið Primera Air hefur verið skyldað til að greiða farþegum sem lentu í tæplega sólarhrings seinkun á leið frá Kanaríeyjum í lok ágúst skaðabætur.

Að hafna bótum vegna sólarhrings flugs frá Tenerife er slæm hugmynd hjá Andra Má Ingólfssyni. Mynd Rúv

Að hafna bótum vegna sólarhrings flugs frá Tenerife er slæm hugmynd hjá Andra Má Ingólfssyni. Mynd Rúv

Málið vakti töluverða athygli á sínum tíma enda fádæma illa staðið að flugi frá Tenerife heim til Íslands. Millilent á Írlandi um miðja nótt og þar allt í uppnámi áður en fluginu var framhaldið til Íslands daginn eftir.

Fararheill var aldrei í vafa um bætur til handa farþegum eins og við skrifuðum um hér. Hreint með ólíkindum að forráðamenn Primera, eiganda Heimsferða, skuli hafa hafnað bótakröfum á svo augljóslega ónýtum grunni og þeir svo gerðu.

Hefur nú komið á daginn að fortölur Primera voru rakalaus þvættingur og Samgöngustofa þegar kveðið upp ákvörun um bætur til handa þeim fyrstu er lögðu fram kröfur. Hinir fylgja í kjölfarið hafi þeir lagt fram kröfu á annað borð.

Fararheill hefur um árabil lagt að fólki að krefjast bóta ef alvarlegar tafir eða seinkun verður á flugi eða ferðum en afar fáir bera sig eftir slíku árlega. Um töluverðar upphæðir er þó að ræða. Upphæð sem flesta munar um og kostar aðeins eitt bréf eða tvö.

Svo er sjálfsagt að koma því á framfæri við vini og ættingja að hugsa sig tvisvar um áður en höfð eru viðskipti við fyrirtæki sem taka glöð við peningunum okkar en hundsa svo sömu viðskiptavini þegar ekki fer allt sem skyldi. Það segir afskaplega mikið um forráðamenn þess fyrirtækis.