Allir farþegar Icelandair á leið frá Kaupmannahöfn þennan daginn geta huggað sig við ágætt seðlabúnt í vasa í bætur fyrir rúmlega fimm tíma tafir á fluginu. En aðeins ef þeir leita réttar síns.

Ávísun á ágætar bætur fyrir farþega frá Kaupmannahöfn með Icelandair. Mynd Woodys Aeroimages

Ávísun á ágætar bætur fyrir farþega frá Kaupmannahöfn með Icelandair. Mynd Woodys Aeroimages

Á vef Icelandair má sjá að flugi FI205 hefur seinkað allverulega og ráðgert að vélin lendi í Keflavík rúmum fimm klukkustundum á eftir áætlun. Með tilliti til að um „tæknilegra örðugleika“ er að ræða má því sem næst slá föstu að farþegar um borð eiga inni hjá flugfélaginu rúmar 56 þúsund krónur. Hver og einn.

Sú upphæð fer ábyggilega langleiðina með að greiða flugið og gott betur kannski og því ágæt sárabót þó tíminn sem tapast verði auðvitað aldrei bættur.

Þetta byggjum við á Evrópureglum þess efnis að farþegar flugfélags hvers vél lendir meira en þremur klukkustundum á eftir áætlun eiga skýran rétt á bótum svo lengi sem töfin er ekki vegna ófyrirséðra atvika. Nú kann einhver aðdáandi Icelandair að malda í mó. Það er jú ekki eins og vélabilanir séu fyrirséðar.

Það er að líkindum rétt en vélabilanir falla einfaldlega ekki undir það samkvæmt evrópskum dómstólum. Vélabilanir geta nefninlega líka orðið til vegna lélegs eftirlits eða slælegrar þjónustu. Ergo: flugfélagið borgar.

Eftir þessu þarf þó að leita. Kanna hvort Icelandair veit upp á sig sökina áður en bréf er sent til Samgöngustofu sem fer formlega í málið. Undantekningarlítið með tilliti til málaloka hjá þeim síðustu átta árin eða svo stendur farþeginn uppi með bætur í vasa.

iceed