Ljóst má vera að Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera Air og Heimsferða, hefur verið of lengi erlendis. Hann hefur ekki snefil af virðingu fyrir íslenskum viðskiptavinum.

Enn versnar ruglið hjá Primera Air og Heimsferðumi. Mynd Rúv
Vefmiðillinn Vísir greinir frá óánægju íslenskra farþega sem áttu bókað flug með Primera Air heim frá Kanarí þegar í ljós kom við brottför að fyrst yrði nú flogið til Helsinki til að henda 20 Finnum frá borði áður en haldið væri til Keflavíkur.
Þetta er smekklegt í meira lagi. Svona svipað og kaupa rútuferð til Akureyrar og heyra svo bílstjórann segja að hann ætli nú aðeins að kíkja í bjór hjá Atla frænda sínum í Súðavík áður en haldið verður á áfangastað.
Þó frétt Vísis sé uppfull af kjánalegum vitleysum, eins og að flogið sé frá Las Palmas, þá er hvergi komið inn á að þeir Íslendingar sem þurftu að þola millilendingu í Finnlandi svona alveg ókeypis eiga inni tugþúsundir króna. Það helgast af því að flugfélögum er ekki heimilt að breyta áætlun sinni svona eftir geðþótta og engum fyrirvara og þaðan af síður lenda á upprunalegum áfangastað sjö stundum á eftir áætlun.
Þetta er einfalt. Heimsferðir og eða Primera Air skulda íslenskum farþegum, hverjum og einum, 85 þúsund krónur í skaðabætur fyrir að lenda langt á eftir áætlun. Sjö klukkustundum í þessu tilfelli.
Reglan er hins vegar að Andri Már Ingólfsson, sonur Ingólfs ferðafrömuðar, greiðir engar bætur nema í hart fari. Farþegar í þessari ferð þurfa því að senda Samgöngustofu ósk um bæturnar. Nema Andri Már hafi fáránlega góða afsökun fyrir að senda flug frá Kanarí til Íslands til Finnlands svona í leiðinni þá detta tæpar hundrað þúsund krónur í vasa allra þeirra Íslendinga sem um borð voru. Það dugar fyrir jólavísanu 🙂







