Skip to main content

Tíma aflögu til að njóta og peninga til að eyða? Þá er margt vitlausara en smella sér í hreint ágæta Miðjarðarhafs- og Kanarísiglingu fljótlega eftir að síðustu flugeldarnir falla dauðir niður um áramótin.

Hið ljúfa líf og hopp annars lagið í land á forvitnilegum stöðum. Mynd Bob Jagendorf

Hið ljúfa líf og hopp annars lagið í land á forvitnilegum stöðum. Mynd Bob Jagendorf

Um er að ræða sams konar ferð og seldist upp á skömmum tíma hjá Norrænu ferðaskrifstofunni fyrir skömmu en sú sigling reyndar töluvert síðar en sú sem hér er í boði.

Það er siglt frá Barcelona strax fimmta janúar og siglt sem leið liggur niður eftir Spáni og út á Atlantshaf og fyrsta stopp í borginni Casablanca í Marokkó en um hana má fræðast í vegvísi Fararheill hér. Eftir að hafa tekið inn það helsta er siglt áfram til Funchal á Madeira og þar gefst sæmilegur tími til skoðunar. Ekki verra að hafa vegvísi Fararheill um Funchal til hliðsjónar til að komast yfir sem mest.

Degi síðar er lagst að bryggju í Santa Cruz de Tenerife á Tenerife. Sú allgóð til skrafs, ráðagerða og verslunar eins og lesa má um í vegvísi Fararheill um hana.  Eftir stopp er haldið áfram til strandbæjarins Arrecife á Lanzarote og sömuleiðis tíma eytt þar.

Þá er stím tekið út á haf að nýju og áleiðis til meginlands Evrópu og komið til hafnar í Malaga eftir dagssiglingu. Margt fróðlegt um hana má finna í vegvísi okkar hér. Þá er sömuleiðis tími til að smella sér annað eins og til Granada ef svo ber undir. Síðasti spölurinn er svo til Barcelona á nýjan leik þar sem ferðinni lýkur en hún er kjaftfull af forvitnilegum hlutum eins og þú kemst að hér.

Slík ferð með Norrænu ferðaskrifstofunni þann 1. febrúar, sem er uppseld, kostaði manninn 280 þúsund krónur á mann miðað við tvo í innrikáetu en fullu fæði eða alls 560 þúsund á parið. Þar var að auki tveggja nátta dvöl á hóteli í Barcelona.

Ferðin sem hér er í boði kostar hins vegar aðeins 128 þúsund krónur á mann eða 252 þúsund á par eða hjón plús þá flugferð til London eða Manchester héðan frá Keflavík og heim aftur þegar hentar. Flug út á þessum tíma reyndar í dýrari kantinum og gera má ráð fyrir 60 til 70 þúsund krónum á mann fram og aftur.

Engu að síður og þrátt fyrir dýrt flug héðan er heildarkostnaðurinn enn aðeins kringum 377 þúsund krónur eða tæplega tvö hundruð þúsund krónum lægra verð en á uppseldri ferð Norrænu ferðaskrifstofunnar.

Óvitlaus hugmynd ef þú spyrð okkur. Nánar hér en hringja þarf til að bóka þetta fantaboð.