Klukkan hálf-sex í dag, miðvikudag, bauð ferðaskrifstofan Úrval Útsýn áhugasömum Íslendingum til kynningar á stærri og dýrari ferðum fyrirtækisins næstu mánuðina.
Slíkar kynningar eru til eftirbreytni. Um er að ræða dýrar ferðir fyrir Jón og Gunnu og eðlilega líður hinum almenna launþega betur með ákvörðun sem kostar viðkomandi margra mánaða sparnað, ef viðkomandi sækir slíka kynningu og veit hvað hann eða hún er að fá.
Við erum jú að tala um fjórtán daga ferð til Tælands sem kostar parið tæpar 900 þúsund krónur og vikuferð til Dúbai sem kostar sama par tæplega 600 þúsund krónur. Það er dugleg upphæð fyrir meðalfjölskyldu í landinu þó margir finnist sem blása ekki úr nös við að greiða slíkar upphæðir.
Það er ábyggilega ágætt fólk að vinna hjá Úrval Útsýn sem er enn, okkur vitandi, að fullu í eigu Pálma Haraldssonar, en hér má betur gera gott fólk. Og við vitum að það var ekki húsfyllir á kynningunni.
Fullt af fólki langar til Dúbai í viku. Fullt af fólki langar til Tælands í tvær vikur. En það er hægt að gera þetta mikið betur en þið gerið. Hvers konar virðing er sýnd áhugasömum með að bjóða upp á kynningu þegar allt venjulegt fólk er annaðhvort ennþá í vinnu eða er nýkomið heim úr vinnu? Hvaða rugl er það?
Fólk er þreytt og stressað síðdegis. Fólk er að ná í börnin sín á leikskóla, kaupa í matinn, setja vetrardekk undir bílinn og svo framvegis. Meira að segja starfsfólk ÚÚ hlýtur að vera þreytt og lúið á þeim tíma ef það er eitthvað að gera hjá ykkur á annað borð.
Nei, hættið alveg.
Opnið pleisið og bjóðið fólki til ykkar að kvöldi til. Klukkan 20 eða 21. Kveikið á kertum og gerið kynningarstaðinn dálítið kósí. Opnið nokkrar ódýrar rauðvín og bjóðið vín, osta, mat eða annað tengt þeim stöðum sem þið eruð að selja ykkar dýru ferðir. Kertaljós og þægilegir stólar…. og svo framvegis.
Hálfsex er ekki að gera sig fyrir meginþorra almennings. Og hana nú!