Vínarborg! Hún er sterk ímyndin í hugum margra af gamalli miðaldaborg þar sem kastalar og byggingar í barrokkstíl ráða ríkjum og andi gamalla tíma svífur yfir. Borg sem var um tíma ekki síðri en París þegar kom að fjölda hugsuða og menningarvita sem þar sátu löngum stundum á kaffihúsum, gláptu í gaupnir sér og réðu í lífið og tilveruna. Borg sem hin valdamikla Habsburg ætt gerði að sinni.

Viti menn! Vín býr ennþá yfir þessum miðaldarsjarma þó aðrir tímar séu gengnir í garð og ýmislegt í borginni sé nútímalegra en í öðrum nútímalegum borgum. Borgaryfirvöld og stjórnvöld hafa þó gætt þess vel gegnum tíðina að halda í sögu sína og menningu fyrri tíma og gestir gera því auðveldlega ímyndað sér hvernig lífið gekk fyrir sig í Vín þegar stórvesírar á borð við Haydn, Mozart og Strauss sátu við nótnagerð fram eftir nóttum hér áður fyrr.

Þó frægð borgarinnar hafi dvínað nokkuð í áranna rás er hún enn stærsta og mikilvægasta borg Austurríkis. Með 1.8 milljón íbúa er hún í minni kantinum í samanburði við borgir heimsins en fjöldinn er afskaplega temmilegur gegnum augu gesta. Hún er nógu lítil til að fá tilfinningu fyrir henni og komast leiðar sinnar án aragrúa manns á hverri götu. Nógu stór til að menningarlífið er fyrsta flokks og gerjunin mikil.

Borgarbúar eru almennt talað vinsamlegir gagnvart gestum og óhætt er að leita aðstoðar þeirra ef eitthvað bjátar á eða ef finna skal leiðina á áfangastað. Þeir eru stoltir af fortíð borgarinnar og skal enginn vera hissa á því. Ferðamenn sem vilja yfirgefa borgina fullvissir að hafa engu gleymt skulu ekki gefa sér minna en tvær vikur í Vín.

Borgarbúar eru líka einkennilega mikið með dauðann á heilanum eins og má glögglega merkja á vinsældum kirkjugarða fyrir gönguferðir, vinsælda Schrammertónlistar sem eingöngu fjallar um hina hinstu stund og hvað við tekur og ekki síst hversu mikil áhersla er að fá viðunandi grafreit og útför þegar þar að kemur. Spara foreldrar hér ekki aðeins fyrir háskólanámi barna sinna heldur einnig útförum þeirra. Þarna er meira að segja útfararsafn með vísindalegu ívafi. Kannski hefur þetta eitthvað með það að gera að ein helsta sjálfsmorðstíðni í Evrópu ár eftir ár er í Vín.

Kaffi er hér í hávegum haft og keðjur á borð við hina bandarísku Starbucks eiga hér erfitt uppdráttar enda vilja borgarbúar halda í sinn eigin kaffikúltúr.

Ratvísi

Borgin er þægileg fyrir aðkomufólk að því leyti að flestir merkisstaðir hennar eru í eða við miðbæinn. Gamli bærinn er Fyrsta hverfið þar sem Stephansdom og Stephansplatz er miðpunktur alls. Hringvegur, Ringstrasse, umkringum hann allan og þar eru margar af þekktustu og frægustu byggingum Vín.

Upplýsingaþjónustu fyrir ferðafólk má finna á flugvellinum og í miðbænum við Albertinaplatz.

Til og frá Vínarborg

Alþjóðaflugvöllur Vín er skammt frá smábænum Schwechat og ber völlurinn þar nafn. Nokkrir minni flugvellir þjónusta einnig Vín og nágrenni en eru í mun meiri fjarlægð. Mörg lágfargjaldaflugfélög nota þá velli.

Leigubíll er fyrsti kostur aðkomufólks á leið í bæinn. Nóg er af þeim og algengt fargjald inn í Vín er kringum 9000 krónur að þjórfé meðtöldu. Í flestum tilvikum er hægt að prútta nokkuð um gjaldið og á það sérstaklega við ef bíllinn er sérpantaður. Þannig er til dæmist hægt að hafa samband við Aiport Service Wien sem býður keyrslu hvert sem er í Vín á 5200 krónur en þá aðeins þrír í bíl.

Betri hótel í Vín bjóða þjónustu hótelskutlu til og frá flugvellinum á verði sem oftast er betra en að taka leigubíl. Slíkt verður að panta fyrirfram ef í boði er.

Tvær flugvallarlestir ganga til og frá flugvellinum. City Airport Train fer með ferðafólk af flugvellinum og að Mitte lestarstöðinni á sextán mínútum. Miði aðra leið kostar 1700 krónur eða 3000 báðar leiðir. Þessi er dýr en borgar sig kannski ef fólk er á hraðferð.

Vænlegra er þó að taka S-Bahn lestina sem er seinni á ferð en mun ódýrari. Far með henni aðra leið kostar 1300 krónur og stoppar hún á nokkrum stöðum í borginni. Miða í þessar lestir verður að kaupa í sjálfsala fyrir brottför og gilda þarf miðann um leið. Þú þarft tveggja hverfa miða, 2 zone, til að fara alla leið í bæinn. Báðar lestir fara frá sama stöðinni en ekki frá sama brautarpalli.

Að lokum ganga flugvallarútur á hálftíma fresti frá vellinum og í miðbæinn. Tvær leiðir eru í boði. Önnur fer að Morzinplatz við miðbæinn sem er í fimm mínútna göngufæri frá miðbæjartorginu. Kostar far með þeirri 1100 krónur og tekur 20 mínútur. Hin stoppar við lestarstöðvarnar Südbahnhof og Westbahnhof sem einnig eru nálægt miðbæjarkjarnanum. Þær kosta það sama en eru 30 mínútur á leiðinni.

Frá öllum lestarstöðvum borgarinnar eru margvíslegir möguleikar að halda ferðinni áfram hvort sem er með strætó ellegar sporvögnum eða jarðlestum.

Samgöngur og snatterí

Samgöngukerfið er fyrsta flokks í Vín og ýmsir möguleikar í boði. Jarðlestakerfið er hvað einfaldast og fljótlegast og þar ferðu hvert sem er innan borgarmarkanna á örfáum mínútum. Stakt fargjald kostar 310 krónur en margs konar aðrir miðar eru til sölu. Sólarhringsmiði er vænlegur á rúmar þúsund krónur en aðrir miðar spara lítið nema dvalið sé viku eða lengur í borginni. Ein undantekning á þessu er Vínarpassinn, Wien Karte, á 3500 krónur en sá gefur einnig afslátt á mörgum söfnum. Miðana er hægt að kaupa í sjálfsölum ellegar í tóbaks- eða blaðaverslunum. Muna verður að gilda miðann þegar ferð er hafin. Sekt fyrir miðaleysi er 12 þúsund krónur.

Engar áhyggjur ef þörf er að komast leiðar á næturnar. Vín er með klassakerfi á næturnar líka og fyrir sama verð og á daginn. Ferðir þó aðeins færri eða á hálftíma fresti.

Til umhugsunar: Börn og unglingar að fjórtán ára aldri ferðast frítt með almenningsfarartækjum á sunnudögum og öllum hátíðisdögum.

Jarðlestakerfið, metró, samanstendur af fimm lestum. Leiðir þeirra eru sem hér segir:

U1 (suður-norður)

Reumannplatz – Keplerplatz – Südtirolerplatz – Taubstummengasse – Karlsplatz – Stephansplatz – Schwedenplatz – Nestroyplatz – Praterstern – Vorgartenstraße – Donauinsel – Kaisermühlen (Vienna International Centre) – Alte Donau – Kagran – Kagraner Platz – Rennbahnweg – Aderklaaer Straße – Großfeldsiedlung – Leopoldau

U2 (suður- norður)

Karlsplatz – Museumsquartier – Volkstheater – Rathaus – Schottentor – Schottenring – Taborstraße – Praterstern – Messe Prater – Krieau – Stadion

U3 (vestur)

Ottakring – Kendlerstraße – Hütteldorfer Straße – Johnstraße – Schweglerstraße – Westbahnhof – Zieglergasse – Neubaugasse – Volkstheater – Herrengasse – Stephansplatz – Stubentor – Landstraße (Wien Mitte) – Rochusgasse – Kardinal-Nagl-Platz – Schlachthausgasse – Erdberg – Gasometer – Zippererstraße – Enkplatz – Simmering

U4 (suðvestur – norður)

Hütteldorf – Ober Sankt Veit – Unter Sankt Veit – Braunschweiggasse – Hietzing (Tierpark) – Schönbrunn – Meidling Hauptstraße – Längenfeldgasse – Margaretengürtel – Pilgramgasse – Kettenbrückengasse – Karlsplatz – Stadtpark – Landstraße (Wien Mitte) – Schwedenplatz – Schottenring – Roßauer Lände – Friedensbrücke – Spittelau – Heiligenstadt

U6 (suður – norður)

Siebenhirten – Perfektastraße – Erlaaer Straße – Alterlaa – Am Schöpfwerk – Tscherttegasse – Meidling – Philadelphiabrücke – Niederhofstraße – Längenfeldgasse – Gumpendorfer Straße – Westbahnhof – Burgasse–Stadthalle – Thaliastraße – Josefstädter Straße – Alser Straße – Michelbeuern–Allg. Krankenhaus – Währinger Straße–Volksoper – Nußdorfer Straße – Spittelau – Jägerstraße – Dresdner Straße – Handelskai – Neue Donau – Floridsdorf

Einhverja heillar kannski að þvælast um borgina á bíl en ekki er mælt með því. Engar götur eru lokaðar bílaumferð en margar þeirra eru þröngar eða einstefnugötur og að rata getur verið flókið. Þá er og dýrt og erfitt að finna stæði í miðbænum. Þá eru umferðarteppur algengar snemma á morgnana og síðdegis.

Sért þú á bifreið er vert að hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga alltaf allan rétt. Líka þegar þeir ganga yfir götu sem ekki merkt sem gangbraut.

Hjólreiðar eru ágætur kostur líka. Vín er ekki stærri en svo að á hálftíma geturðu hjólað á flesta staði í borginni.

Hjólaleigur eru staðsettar á nokkrum stöðum. Citybike er einn slíkur staður.

Tveir fætur eru þó besti ferðamátinn enda alltaf besta leiðin til að kynnast borgum og borgurum. Auðvelt er að fara um í Vín og á röltinu rekst maður ávallt á eitthvað merkilegt sem ferðahandbækur minnast ekkert á.

Maus og mállyska

Innfæddir borgarbúar tala sína eigin mállýsku en hefðbundin skólaþýska skilst alls staðar. Langflestir í ferðabransanum tala ensku en það mál er þó ekki jafn algengt og norðar í álfunni. Frönsku tala flestir.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Hafið í huga ef fjölskyldan er að ferðast saman að mörg safna hér bjóða sérkjör fyrir fjölskyldur. Er hægt að spara talsvert þannig ef mörg söfn eru heimsótt.

>> Listasögusafnið (Kunsthistoriches Museum) – Eitt allra fremsta listasafn heims og alls ómissandi. Safnið er stórt og mikið og byggingin sem yfir öllu er er ekki af verri endanum. Hér er mál að gefa sér heilan dag hið minnsta sé áhugi á listum yfir meðallagi. Jafnvel betra er að koma oftar en einu sinni enda tekur á að dvelja langstundum inni á söfnum. Fjölmargir stórmeistarar í listasögunni eiga hér verk og það fleiri en eitt. Kaffi og skyndibitar fást hér en eru í dýrari kantinum. Þriðjudagur til sunnudagur frá 10 – 18. Lokað mánudaga en opið til 21 á fimmtudögum. Aðgöngumiði 1800 krónur en 3600 fyrir fjölskyldumiða. Heimasíðan.

>> Schatzkammer – Þetta safn tilheyrir Listasögusafninu en staðsett annars staðar, Neue Hofburg, og er annað ómissandi safn í borginni. Þar eru til sýnis skart- og dýrgripir þeir er tilheyrðu Habsburg stórveldinu sem öllu réði í Evrópu um langt skeið. Opið daglega 10 – 18. Miðaverð 1800 fyrir fullorðinn. 3600 fyrir fjölskyldumiða. Heimasíðan.

>> Nýhöll (Neue Hofburg) – Yngsti hluti Konungshallarinnar glæsilegu. Þar má finna Þjóðháttasafn og nokkra hluta Listasafns Vínar. Merkilegast er stríðstólasafn sem er mikið og gott safn vígtóla frá fyrri tíð. Söfnin bæði opin 11 – 18 daglega nema á mánudögum.

>> Belvedere – Sumarhús Prinsins af Savoy er öllu stærra í sniðum en fyrrverandi forstjórar Kaupþings létu sig nokkurn tíma dreyma um þrátt fyrir töluverðar loftborgir á þeim bænum. Þarna eru einnig tvö söfn til staðar. Annars vegar borgarlistasafn tileinkað myndum af Vín en hins vegar Austurríska gallerísins sem er safn verka frá síðustu þremur öldum.  Opið daglega 10 – 18. Verðmiðinn 2400 fyrir fullorðinn á bæði söfnin. Heimasíðan.

>> Konunglega húsgagnasafnið (Hofmobiliendepot) – Stærsta húsgagnasafn heims með munum frá öllum merkustu húsgagnasmiðum heims um aldir. Ansi merkilegt safn muna og margt athyglisvert sem þar ber fyrir augu. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. 1200 krónur fyrir fullorðna, 800 fyrir börn. Heimasíðan.

>> MAK – Skemmtilegt safn sem ennfremur er vinnustofur fyrir listnema. Nýlistin á höfði að halla hér en hönnum og arkitektúr er tekinn fyrir einnig. Lokað mánudag en opið 10 – 18 þriðju- til sunnudags. Opið til miðnættis á fimmtudögum. Aðgangur 1800 krónur nema á laugardögum þegar frítt er inn. Heimasíðan.

>> Listasafn Vínarborgar (KunstHaus Wien) – Undarlegur andi leikur yfir mununum á þessu sérstaka safni listaverka sem stærir sig af að geta snúið jafnvel mestu hatursmönnum listaverka í unnendur. Láttu reyna á það enda ekki kallað Disneyland fyrir fullorðna fyrir ekki neitt. Opið alla daga 10 – 19. 800 krónur kostar inn fyrir fullorðna fólkið. Heimasíðan.

>> Safnahverfið (Museumsquartier) – Nýlegt hverfi í borginni sem skírt var Safnahverfið af þeirri ástæðu að þar áttu að rísa söfn á söfn ofan. Finna má þar allnokkur minni söfn en einnig besta andrúmsloftið til að slaka á í Vín með afbrags kaffi- og veitingastöðum. Vænlegast er að kaupa einn miða á öll söfnin en miða á hvert og eitt safnanna.

>> Læknavísindasafnið (Pathologisch Anatomisches Bundesmuseum Wien) – Afskaplega stutt og þjált nafn á þessu undarlega safni þar sem læknavísindi fyrri alda eru í forgrunni. Sjá má líkamsleifar, fóstur og þaðan af verra ásamt ýmsum þeim verkfærum sem sjálfsögð þóttu hjá læknum hér áður fyrr. Ekki fyrir alla en forvitnilegt. Staðsett í því sem áður var geðveikraspítali og getur verið dálítið mál að rata á staðinn. Aðeins opið miðvikudaga frá 15 – 18 og fimmtudaga frá 8 – 11 á morgnana og milli 10 – 13 fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Aðgangseyrir þó aðeins 380 krónur. Heimasíðan.

>> Tæknisafnið (Technisches Museum Wien) – Risasafn og margt merkilegt sem þar ber fyrir augu. Uppruni ýmissa tækninýjunga og þróun þeirra og þróun og vaxtarsaga Vínarborgar sýnd í máli og myndum. Mjög flott og auðvelt að gleyma sér þarna. Opið 9 – 18 virka daga en 10 – 18 um helgar og hátíðisdaga. 1600 krónur fyrir fullorðna, þúsund fyrir börn og unglinga og frítt fyrir fimm ára og yngri. Heimasíðan.

>> Náttúrufræðisafnið (Naturhistorisches Museum) – Flott safn um sögu og þróun jarðar og fjölmargir áhugaverðir hlutir. Risaeðlubeinagrindur heilla ungviðið meðan brot úr loftsteini eða hin 25 þúsund ára gamla stytta af Venus frá Willendorf. Sterklega mælt með þessu. Opið milli 9 og 21 á miðvikudögum en 9 – 18:30 aðra daga nema þriðjudaga þegar safnið er lokað. Prísinn1500 krónur, helmingur þess fyrir börn 5-16 ára og frítt fyrir börn yngri en það. Heimasíðan.

>> Tónlistarhúsið (Haus der Musik) – Nýtt safn í Vínarborg sem tileinkað er tónlist og þá ekki síst að opna þann töfraheim fyrir gestum sem geta skoðað, fiktað og jafnvel lært þar innandyra. Saga Sinfóníuhljómsveitar Vínarborgar kynnt og margt annað sem heillar gesti. Opið 10 – 22 alla daga. Verð 1900 fyrir hávaxið og gamalt fólk en þúsund sléttar fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

>> Albertina – Enn ein af kostulegum gömlum höllum Vínar sem hefur verið breytt í safn. Í þessu fyrirfinnast aðallega teikningar eftir þýskættaða endurreisnarmálara. Höllin sjálf safn út af fyrir sig. Opið 10 – 18 alla daga og til 21 á miðvikudögum. 1800 króna aðgangseyrir en frítt fyrir börn sex ára og yngri. Heimasíðan.

>> Skoska klaustursafnið (Schottenstift) – Lítið og kósí safn í gömlu klaustri. Barrokkmyndir eftir austurríska málara hér í aðalhlutverki. Opið þriðju- til laugardaga frá 11 til 17. Þúsund króna aðgangseyrir. Heimasíðan.

>> Liechtenstein safnið (Liechtenstein Museum) – Einkasafn prinsins af Liechtenstein hýst í sumardvalarhúsi hans í Vín. Málverk frá barrokktímanum fyrirferðamest. Opið föstu- til þriðjudaga 10 – 17. Lokað miðvikudaga og fimmtudaga. Punga þarf út 1800 krónur. Heimasíðan.

>> Freud safnið (Freud Museum) – Ekki ruglast á þessu safni og öðru með sama nafni í London. Þetta var heimili sálfræðingsins heimsfræga og hér gerði hann sínar rannsóknir í sálarlíf manna. Engin hellingur að sjá reyndar annað en skjalasafn karlsins.

>> Stríðsminjasafnið (Heeresgeschictliches Museum) – Stríðstól og tæki héðan og þaðan bæði ný og gömul. Þar má líka sjá bílinn sem Franz Ferdinand, síðasti prins Austurríkis, sat í þegar hann var skotinn en sú atburðarás setti Fyrri heimsstyrjöldina af stað. Ómissandi safn fyrir áhugamenn um stríð og erjur. Opið alla daga frá 9 – 17. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.

>> Gyðingasafnið (Jüdisches Museum Austria) – Saga gyðinga er nátengd sögu Vínarborgar og hér er stiklað á því helsta. Tengt safninu er eitt einasta bænahús gyðinga sem slapp við eyðileggingu af hálfu nasista í Seinni heimsstyrjöldinni en aðeins sökum þess að það er neðanjarðar. Opið sunnudaga til föstudaga 10 – 18. Lokað á laugardögum. Gjald 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Mozartsafnið í Vín (Mozarthaus Vienna) – Þetta segir sig sjálft. Heimili tónskáldsins sem er vafalaust frægasti sonur Vínarborgar. 10 – 19 alla daga. 1600 krónur fyrir stóra fólkið, 550 krónur fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

>> Hundertwasshaus – Sennilega áhugaverðasta nútímabyggingin í þessari gömlu borg er þetta stórskrýtna fjölbýlishús. Tíu mínútna gangur frá Mitte metró stöðinni.

>> Schloss Schönbrunn – Líkt og hinir illræmdu íslensku útrásarvíkingar sem bárust mikið á á tímabili gilti hið sama um Habsburg ættina í Austurríki á þeirra tíma. Efist einhver um það nægir að kíkja á sumarhöll þeirra, Schloss Schönbrunn, sem er ein stórkostlegast höll í veröldinni, alls ekki síðri en Versalir, og sér höllin yfirþyrmandi er þarna dýragarður og lystigarðar sem gera menn máttlausa af undrun og hrifningu. Höllin og garðurinn voru skráð í Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna 1996. Höllin er aðeins fyrir utan Vín sjálfa en þangað er auðveldlega komist með neðanjarðarlest U4 ellegar sporvögnum 10 eða 58. Opið 8:30 til 18 alla daga á sumrin en skemur um eina klukkustund á veturna. Annar tími gildir fyrir garðana, gosbrunna og dýragarðinn. Aðgangur frá 1800 krónum fyrir fullorðna og 1200 fyrir börn og unglinga og uppúr eftir því hversu mikið á að skoða. Myndatökur algjörlega bannaðar og bakpokar ekki leyfðir. Algjörlega ómissandi! Heimasíðan.

>> Hofburg höllin (Vienna Hofburg) – Sé sumarhöll Habsborgaranna tilþrifamikil er aðalhöll þeirra vart síðri. Íburður á alla kanta og það er ekki lítið í þessari risahöll sem fleiri daga tæki að rölta um og hvað þá að skoða í þaula. Það gæti nú farið fram hjá gestum en þarna eru líka staðsett þrjú söfn tileinkuð Habsburg og eigum þeirra. Næsta Metró stöð er Herrengasse og sporvagnar 1 og 2 fara þarna framhjá. Opið 9 – 18 á sumrin en 9 – 17:30 á veturna. Aðgöngumiðinn frá 1800 krónum og uppúr. Heimasíðan.

>> Kirkjur – Nokkrar fallegar kirkjur prýða Vín og nágrenni. Mikilmennskubrjálæði Habsburg ættarinnar var svo að fjórar kirkjanna geyma mismunandi hluta líkamsleifa margra kynslóða ættarinnar. Þær helstu eru þessar:

>> Þjóðarbókasafn Austurríkis (Österreichische Nationalbibliothek) – Það segir sig sjálft að höfuðbókasafn landsins geymir ógrynni merkilegra verka frá merkilegri sögu landsins. Mjög grimmir að deila eins miklu og hægt er á vef sínum hér.

>> Þinghúsið (Republik Österrich Parlament) – Ferðir um bygginguna með leiðsögufólki en aðeins þegar þingið er í fríi. Nánar hér. Aðgangseyrir  800 krónur.

>> Sædýrasafnið (Haus des Meeres) – Fallegt, fjölbreytt og skemmtilegt sædýrasafn í gömlu loftvarnarbyrgi frá Seinni heimsstyrjöldinni. Metró U3 og út hjá Neubaugsgasse. Opið 9 – 18 alla daga og til 21 á fimmtdögum. Ekki alveg ókeypis á 2000 krónur miðinn og 1100 fyrir börn en þess virði. Nánar.

>> Ríkisóperan (Wiener Staatsoper) – Óperur fyrir Vínarbúum eru á pari við Hollywood kvikmyndir fyrir íbúa Los Angeles. Glæsilegt mannvirki sem var að öllu leyti endurbyggt í stríðslok. Þarna stíga engir aukvisar á stokk og upplifun að sitja undir góðu verki þar hvenær sem er. Á heimasíðunni má sjá dagskránna framundan.

>> Prater – Helsti garður borgarbúa er Prater í norðurhluta Vínar. Er sá opinn á sumrin frá 9 – miðnættis alla daga og er fjölsóttur mjög. Þar er eitt helsta tákn borgarinnar, hinn 64 metra háa Parísarhjól Risenrad, og gondólaleigu má hér finna einnig. Þá er þar líka helsta táknið um að Austurríkismenn hafi húmor. Kugelmugel er hringlaga bygging eftir arkitektinn Edwin Lipburger sem gerði sér lítið fyrir og lýsti yfir sjálfstæði frá Austurríki þegar borgaryfirvöld neituðu að gefa honum leyfi fyrir byggingunni. Er Kugelmugel þannig strangt til tekið Lýðveldið Kugelmugel.

>> Secession – Undarleg húsakynni sem reist voru fyrir tveimur öldum í art nouveau stíl og þótti hrein viðbjóður af klassískum borgarbúum. Þar eru reglulega listsýningar og gjörningar. Dagskráin hér.

>> Schmetterlinghaus – Dýrðlegt gróðurhús þar sem um hitabeltistré flögra fiðrildi héðan og þaðan úr heiminum. 10 – 17 virka daga en 10 – 16 um helgar. 1100 fyrir fullorðna en 600 fyrir börn.

>> Hringstrætið (Ringstrasse) – Svokallað hringstræti vefur sig um íburðarmesta verslunarhverfi borgarinnar en áðurfyrr stóðu borgarveggirnir þar sem strætið liggur nú. Þetta er rándýrt hverfi en sjón er sögu ríkari og þarna eru fjölmörg kaffihús sem ekki setja gat á veskið þó sest sé niður.

>> Gasometer – Ímyndaðu þér augnablik að borgarstjórinn Davíð Oddson hafi ekki sett veitingastað ofan á hitaveitutankana í Öskjuhlíð heldur breytt þeim í íbúðir, verslanir, gallerí og vinnustofur. Það er nefninlega það sem nokkrir einstaklingar stóðu fyrir í Vín við sams konar aðstæður. Reyndar voru það fjórir gamlir gastankar öllu stærri en hitaveitutankar Reykvíkinga en árangurinn frábær og gömlu lúnu ryðguðu tankarnir eru nú aðdráttarafl fyrir ferðamenn og þrælskemmtilegt svæði fyrir íbúanna.

>> Zentralfriedhof – Kannski á ekkert að koma á óvart að aðalkirkjugarður Vínarborgar sé einn vinsælasti áfangastaður göngufólks og ferðamanna. Þar liggja jú Mozart, Beethoven, Brahms, Strauss, Schönberg og Schubert auk minni spámanna. Reyndar liggja leifar Mozarts annars staðar en minningargrafreitur hans er hér. Margt annað merkilegt í þessum dauðans garði. Opinn frá 7 – 19 alla daga á sumrin en skemur á veturna. Metró U3 til Simmering og sporvagn 71 þaðan.

>> Dónáreyja (Donauinsel) – 20 kílómetra löng eyja meðfram borginni á Dóná en aðeins tvö hundruð metra breið þar sem hún er breiðust. Mikið íþróttasvæði, göngustígar og mikið úrval bara og skemmtistaða. Það er hér sem stærstu útitónleikar Evrópu fara fram ár hvert í enda júní. Þar eru einnig nektarnýlendur ef það skyldi heilla.

>> Naschmarkt – Stærsti markaður borgarinnar fer fram við metró stöðina Kettenbrueckengasse. Alltaf gaman þar. Á laugardögum bætist heill flóamarkaður við það sem fyrir er.

>> Drengjakórinn í Vín (Wiener Sängerknaben) – Kórinn þekkja allir og hann kemur reglulega fram í borginni. Nánar.

Verslun og viðskipti

Engum blöðum er um að fletta að úrvalið í verslunum Vínar er síst verra en í öðrum stórborgum heims. Hér úir og grúir af verslunarmiðstöðvum og sérverslunum og margt sem glepur augað. En vín er dýrt og Vín er dýr. Í borg þar sem þræða þarf sex hundraðkalla úr veskinu fyrir kaffisopann segir sig sjálft að allt annað er á svipuðum kjörum. Virðist dýrtíðin líka gilda um smáar sérverslanir og engar eru outlet verslarnir í borginni enda þykir það heldur ófínt. Virðisaukaskatturinn í Austurríki er 13% og hann getur þú fengið endurgreiddan aðeins ef varan kostar meira en 75 evrur.

En séu peningar ekkert vandamál er málið að tölta niður Mariahilfer Straße sem er stærsta verslunargatan í Vín. Allar heimsþekktu keðjurnar eru þar og veigameiri austurrískar verslanir einnig. Innst í miðbænum er Kartner Straße góð til brúksins líka og nær helstu ferðamannastöðum. Þar er þó dýrtíðin meiri enda aðeins klassaverslanir þar að finna. Kohlmarkt er önnur gata sem allur dýrari varningur fæst í úrvali.

Tvær verslunarmiðstöðvar eru í Vín. Millennium City er nálægt miðbænum við Dóná. Er sú miðlungsstór og laus við lág verð. Hin er öllu stærri enda stærsta verslunarmiðstöð Evrópu sé miðað við fjölda gesta. Er það Shopping City Süd. Mikil úrval en verð sambærileg og inni í borginni.

Allnokkrir ávaxta og grænmetismarkaðir eru starfræktir í borginni og minnst tveir í grennd við miðbæinn.

Annað áhugavert

Áberandi er hve enska er lítið töluð í Vínarborg og þó alltaf finnist einhver á ferðamannastöðum er kannski annað á teningnum á veitingastöðum eða kaffihúsum. Þar er jafnvel ekki til matseðill á ensku og enginn heilvita heimamaður pantar sér „bara“ kaffi. Handhæg vasabrotsbók í þýsku kæmi því að nokkrum notum hér. Einnig er hægt að prenta út þýska vasabrotsútgáfu Fararheill.is.

Annað sem gæti valdið Íslendingum vandræðum er að kreditkort eru ekki ýkja algeng í Vín. Hafðu alltaf einhvern pening á þér fyrir kaffi og með því ef staðurinn skyldi ekki taka slíkt.

Þjórfé er venjulega um 10% á veitingastöðum og betri kaffihúsum.

Reykingar eru leyfðar í meirihluta veitingastaða og bara en fleiri og fleiri staðir bjóða einnig reyklaus borð.

Þótt Austurríki sé ekki hátt á blaði fyrir vínframleiðslu í heiminum framleiða þeir þó heil ósköp af því og eru hrifnari af hvítu en rauðu. Vínbarir, Heurigen, eru algengir um alla borg og er ráð að prófa ef sá gállinn er á manni.

Næturlíf Vínarborgar fær engar fimm stjörnur en þar má að sjálfsögðu finna ágæta staði inn á milli. Grimm klúbbamenning fyrirfinnst ekki. Þeir klúbbar sem fyrirfinnast eru í raun lounge barir og lítið fer fyrir húllumhæi á dansgólfum. Þessir fjórir þykja með þeim skemmtilegri í borginni:

   • Flex – Stærsti klúbbur Vínar við Wien Kanal.
   • Fluc – Annar klúbbur en öllu minni og ódýrari.
   • Roxy – Pínulítill en skemmtilegur.
   • Club Habana – Nafnið segir allt sem segja þarf.
   • Camera Club og Why Not eru helstu staðir samkynhneigðra.

Líf og limir

Vínarborg er mjög örugg borg á alþjóðlegan mælikvarða. Óhætt á að vera að rölta um flest svæði borgarinnar eftir að skygga tekur en að sjálfsögðu að nota heilbrigða skynsemi hvar sem maður er staddur.

View Larger Map