Skip to main content
Tíðindi

Vanda sig aðeins meira takk

  30/01/2013janúar 13th, 2014No Comments

Vart hefur farið framhjá lesendum Fararheill að fátt gerir okkur fúlari í skapi en þegar fólk vinnur ekki vinnuna sína. Einhver hjá Úrval Útsýn er sekur um það og af því að hjá Fararheill starfar góðhjartað fólk látum við þau hér með vita af vitleysunni svo viðskiptavinir þeirra verði ekki pissfúlir seinna meir.

Ferðaskrifstofan auglýsir nú Costa Brava ferðir sínar í sumar sem nánar tiltekið eru til strandbæjarins Lloret de Mar sem segja má gróflega að sé svona mini-útgáfa af Benídorm nokkru sunnar í landinu. Lesa má ítarlega um bæinn og nágrenni í ferðavísi Fararheill hér.

Við látum ýmis konar vitleysu í ferðakynningu ÚÚ á þessari ferð alveg vera þó við skiljum ekki hvers vegna farþegum er flogið til Barcelóna þegar tveir alþjóðaflugvellir eru staðsettir mun nær Costa Brava og Lloret de Mar. Óskiljanlegt að þvæla farþegum sínum beint í rútu í rúma klukkustund strax eftir flugið.

Það hins vegar er ekki það sem er þyrnir í augum okkar heldur þetta atriði hér:

Aðeins tekur um eina klukkustund að fara með lest frá miðbænum í Lloet de Mar til miðborgar Barcelona og gefur það skemmtilegan möguleika á því að sameina sumarfrí í sól og heimsókn í stórborg.

Þetta er svo mikið rugl að engu tali tekur. Það er ENGIN lestarstöð í Lloret de Mar því þangað ganga ENGAR lestir.

Þeir viðskiptavinir Úrval Útsýn sem áhuga hafa að kíkja til Barcelóna hafa um tvo möguleika að ræða og báðir eru örlítið vesen.

  1. Annars vegar þurfa þeir að taka rútu, Sarbus, frá rútustöðinni í Lloret de Mar en vagnar fara tólf sinnum á dag til Barcelóna rösklega á klukkustundarfresti. Fram og til baka tekur rútuferðin tvær klukkustundir og miðaverð á mann báðar leiðir kostar 3.500 krónur. Sú rúta fer rakleitt að Estacio del Nord rútustöðinni í norðurhluta Barcelóna. Þó Barcelóna öll sé æði skemmtileg er þessi hluti hennar sennilega ekki það sem fólk fer klukkustund í rútubíl til að sjá en til að komast í miðborgarstemmninguna á sem ódýrastan máta þarf að labba yfir á jarðlestarstöðina Arc de Triomf í nokkurra mínútna fjarlægð. Þar verður að kaupa miða og taka rauðu línuna, L1, að Plaza Catalunya torginu í miðborginni. Hægt er að taka leigubíl líka sem kostar um 1500 krónur aðra leið eða strætisvagn 54 sem fer að Plaza Universitat. Þaðan er fimm mínútna labb að Plaza Catalunya. Hér verður að gæta þess að síðasti vagninn til baka til Lloret de Mar fer klukkan 21.
  2. Hinn möguleikinn er að taka rútu frá Lloret de Mar til nágrannabæjarins Blanes. Sú rúntur tekur tæpar fimmtán mínútur og kostar um 300 krónur aðra leið. Í Blanes er hins vegar lest sem fer fram og aftur til Barcelóna að minnsta kosti tólf sinnum daglega, linea R1, en þetta eru hægfara lestir og túrinn tekur eina og hálfa klukkustund. Prísinn báðar leiðir er um 1.800 krónur. Að þessu sinni er endastöðin Barcelona Sants lestarstöðin. Sú er heldur ekki alveg í miðbæjarstemmningunni og þarf að taka jarðlest, græn lína L3, að Plaza Catalunya. Síðasta lestin fer til Blanes um klukkan 22:54 eins og sjá má á vef Renfe.

Svo fer að verða spurning að senda Úrval Útsýn reikning fyrir að vinna vinnuna þeirra…