Fátt leiðinlegra í háloftunum en flugdólgar hvers kyns. Skítapakk sem veður uppi með hávaða og læti, þreifar á afturendum flugþjóna, missa sig í áfenginu og þar fram eftir götum. En þeir gætu gert enn meiri usla en það eftirleiðis.

Límdur yfir skemmtilegu efni á skjánum. Ekki alveg enda frægasti flugdólgur Íslands. Skjáskot

Evrópudómstóllinn hefur komist að því að flugfélög séu almennt EKKI bótaskyld ef uppistand flugdólga verður til þess að ferðalög annarra um borð riðlast með tilheyrandi kostnaði fyrir tengifarþega.

Dómstóllinn tók nýlega fyrsta sinni fyrir mál er beinlínis varða flugdólga vegna kæru farþega portúgalska flugfélagsins TAP.

Viðkomandi hafði misst af tengiflugi sökum vandræðagangs flugdólgs í fyrra fluginu sem varð til þess að rellan lenti á miðri leið til að losa sig við dólginn. Sú töf varð til þess að tengiflug datt um sjálft sig. Umræddur aðili kærði og vildi bætur enda þurfti að punga út að nýju fyrir næsta flugi

Æðsti dómstóll Evrópu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri við flugfélög að sakast ef einn eða fleiri farþegar gerðu óskunda í flugi. Slíkt væri ófyrirséð að stærstu leyti og flokkast því undir þann lið eftirleiðis að því gefnu að öllum eðlilegum varrúðarráðstöfunum hafi verið fylgt.

Dómstóllinn hafnaði því bótum til handa farþega TAP sem sat uppi með tjón vegna fávitaháttar alls ókunnugs aðila. Það er auðvitað ekki til eftirbreytni per se en það er heldur ekki hægt að gera þá kröfu á flugþjóna að þeir sjái á augabragði við innritun að X-einstaklingur verði hugsanlega til vandræða.

Ofangreint ýtir enn meira undir það sem við höfum bent á áður hér á þessum síðum; gáfulegt að gera ráð fyrir seinkunum á flugi fremur en að ganga út frá að allt gangi smurt. Betra að hinka klukkustund lengur í flugstöð en að punga út morð fjár fyrir nýtt tengiflug.