Skip to main content
Tíðindi

Undrast árásir á Iceland Express

  22/07/2011desember 4th, 2014No Comments

Stórmerkilegt má heita hversu harðar árásir íslenskir fjölmiðlar stunda gegn flugfélaginu Iceland Express og blása út kyrrsetningu vélar félagsins sem um heimsfrétt sé að ræða segir Ólafur Arnason, einn pistlahöfunda á vefmiðlinum Pressunni, í kjölfar mikillar umfjöllunar um miklar þrengingar farþega IE eftir kyrrsetningu eftirlitsmanna á einni vél þeirra í París um síðustu helgi.

Fer Ólafur mikinn í pistli sínum og er í litlum vafa að eitthvað einkennilegt skýri harðar árásir nánast allra fjölmiðla og vill benda fólki á að þrátt fyrir ýmislegt megi laga hjá IE sé engin spurning að flugfélagið veiti nauðsynlega samkeppni við Icelandair.

Undanfarið hafa fjölmiðlar farið mikinn gegn Iceland Express vegna tafa í flugi félagsins og augljóslega getur félagið bætt frammistöðu sína á því sviði. Þegar ég hef ferðast með félaginu hef ég ekki orðið var við tafir og því hef ég ekki persónulega reynt viðbrögð þess þegar seinkun verður á flugi.

Mér finnst hins vegar furðulegt hve fjölmiðlar á Íslandi virðast stökkva til og reyna að gera sér mat úr því þegar áætlanir félagsins raskast eða þegar eitthvað annað bjátar á. Nýlega var því slegið upp, sem heimsfrétt væri, að vél Iceland Express hefði verið kyrrsett í París eftir reglubundna skoðun. Ég minnist þess ekki að það hafi þótt eins fréttnæmt hér á landi þegar vél Icelandair var kyrrsett á sama flugvelli af sömu ástæðu fyrir nokkrum mánuðum.

Mér sýnist augljóst að bæði flugfélögin, sem bjóða upp á millilandaflug á Íslandi allan ársins hring, kappkosta að veita farþegum sínum eins góða þjónustu og kostur er. Iceland Express er lággjaldafélag og ég geri ekki sömu þjónustukröfur til þess og ég geri til Icelandair, sem gefur sig út fyrir að vera flugfélag með fulla þjónustu, þó að farþegar, sem ekki fljúga á Saga Class, þurfi núorðið að borga fyrir mat og drykk líkt og tíðkast hjá lággjaldaflugfélögum.

Það er hins vegar einkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að íslenskir fjölmiðlar skuli vera svo áhugasamir, sem raun ber vitni, um að flytja neikvæðar fréttir af lággjaldafélaginu, sem stendur fyrir verðsamkeppni á íslenskum flugmarkaði til hagsbóta fyrir neytendur. Getur verið að Iceland Express bjóði ekki upp á jafn flottar kynningarferðir fyrir íslenska fjölmiðlamenn og Icelandair? Eða, er það eitthvað annað?

Hvað finnst þér?

[polldaddy poll=“5255952″]