Skip to main content

U tan landsteinanna er borgin Poznan öllu minna þekktari en meðal Pólverja sjálfra. Sem er hið undarlegasta mál því enginn vafi leikur á að vandfundnar eru fallegri borgir í landinu auk þess sem segja má að Poznan séu Þingvellir þeirra Pólverja. Það helgast af því að borgin var fyrsta höfuðborg ríkisins og talin vagga Póllands af mörgum fyrir vikið.

Poznan er stærsta borgin í vesturhluta Póllands og þangað er tiltölulega stutt að fara frá borgum eins og Berlín en aðeins 800 kílómetrar eru milli borganna. Er reyndar Poznan fyrsta stopp þeirra sem leggja á sig lestarferðalag frá Evrópu til Rússlands.

Fyrir utan að vera á bólakafi í sögubókum landsins hafa bæjaryfirvöld í Poznan farið ýmsar óhefðbundnar leiðir síðustu árin til að bæta ímynd borgarinnar og heilla erlenda ferðamenn til að stoppa við. Óumdeilt er að í Poznan er fallegasta miðbæjartorg Póllands og þótt víðar væri leitað. En hér er líka ótrúlegur fjöldi safna miðað við þá 550 þúsund íbúa sem borgina kalla heimili. Þá skemmir heldur ekki fyrir að borgin stendur á bökkum Warta árinnar sem er hin fallegasta og ljáir Poznan ljúflegra yfirbragð en ella.

Ritstjórn Fararheill metur það svo að Poznan sé þriggja daga borg sé ætlunin að njóta lífsins en að sama skapi sjá flest það sem markvert getur talist.

Til umhugsunar: Þó Pólland sé í Evrópusambandinu notast heimamenn enn við zloty sem mynt en ekki evru. Hafa pólsk yfirvöld þó hugsað sér að taka upp evruna innan fárra ára. Evra er þó víða nothæf til að greiða fyrir þjónustu.

Til og frá

Borgin státar af sínum eigin alþjóðaflugvelli sem ber hið þjála nafn Port Lotniczy Poznan og er einungis í fimm kílómetra fjarlægð frá miðborginni. Þangað er auðveldlega komist með leigubílum á röskum fimmtán mínútum eða svo eða með strætisvögnum.

Leigubíll í miðborgina kostar ferðamanninn um það bil 1.900 krónur. Tveir strætisvagnar fara þá leiðina líka. Strætisvagn 59 er 25 mínútur á ferðinni á 25 mínútna fresti og kostar farið 220 krónur. Aðeins fljótari er strætisvagn L sem fer beint að lestarstöðinni í miðborginni og 20 mínútum en kostar 360 krónur á mann.

Hingað er líka komist með lest og má sem dæmi nefna að frá Berlín tekur ferðalagið þrjár klukkustundir aðra leiðina og kostar þegar þetta er skrifað aðeins 3.800 krónur. Lestarstöðin er í gamla miðbænum í göngufæri frá velflestum hótelum. Sömuleiðis er komist til Varsjár á þremur klukkustundum, Gdansk á 4,5 stundum og til Kraká á sex tímum.

Samgöngur og snatterí

Það svæði sem heillar ferðalanga mest í gamla miðbænum er auðveldlega farið á tveimur jafnfljótum sé fólk við fulla heilsu. Sé ekki nenna fyrir því ganga sporvagnum um gamla miðbæinn meðan strætisvagnar fara um utan hans.

Ef einhver heldur að nafnið Strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins sé flókið fyrir útlendinga er ráð að reyna að bera fram Miejskie Przedsibiorstwo Komunicaynje sem rekur samgöngukerfið innan borgarmarkanna. Kort af kerfinu má finna hér.

Miðaverð fer eftir lengd ferðalags hverju sinni og því ekki einfalt að skýra það í þaula. Gróflega má þó segja að styttri ferðir, 5 – 15 mínútur, kosti manninn 180 krónur meðan lengri leið en það kostar um 220 krónur. Gildir þetta bæði um strætis- og sporvagna. Hver miði gildir þó aðeins þá ferð sem farin er og engir skiptimiðar í boði.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Ókeypis aðgangur er að öllum opinberum söfnum í borginni á laugardögum.

>> Miðbæjartorgið (Stary Rynek) – Fallegasta miðbæjartorg Póllands og með þeim fallegri í Evrópu allra er álit flestra sem hér staldra við. Það virðist heyra sögunni til en gerir það aðeins í þykjustunni því það var algjörlega endurbyggt eftir Seinni heimsstyrjöldina en gamla torgið eyðilagðist að öllu leyti í því stríði. Litríkar byggingar og fínir veitingastaðir og barir eru hér um allt og yndislegt að eyða tímanum.

>> Ráðhúsið (Ratusz) –  Fallegasta byggingin af mörgum við Stary Rynek er án efa gamla Ráðhúsið. Það hýsir nú Sögusafn borgarinnar. Stórfínt og ómissandi safn um liðna tíð hér í bæ. Þá vekur alltaf lukku þegar klukka ráðhússins slær á hádegi en þá birtast tvær vélrænar geitur og nudda saman hornum sínum. Í kjölfarið fylgir svo lúðrablástur. Hrein snilld. Safnið er opið alla daga 10 til 16 og 10 til 15 á sunnudögum. Aðgangseyrir er 240 krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkjueyja (Ostrów Tumski) – Á þessum bletti nákvæmlega varð borgin Poznan til í fortíðinni og segir sagan að það sé vegna þess að hér hittust þrír bræður eftir margra ára aðskilnað en pólska orðið fyrir endurfundi er poznac. Hér stendur líka fyrsta kirkjan sem byggð var á pólsku yfirráðasvæði og jafnframt sá staður sem Pólverjar gerðust formlega kaþólskir árið 966. Þetta er lítil og falleg eyja og hér býr enn biskup borgarinnar. Fyrir utan kirkjuna sjálfa er hér Biskupasetrið, Ignacego Posadzego, þar sem saga kaþólsku kirkjunnar í landinu er rakin en óvíða er kirkjusókn meiri en meðal Pólverja. Kirkjan opin skoðunar daglega 8 til 16 nema þegar þjónusta stendur yfir. Sporvagnar 4 eða 8 frá miðbænum.

>> Fornleifasafnið (Muzeum Archeologicszne) – Fornleifasafn í betri kantinum og þá sökum þess að ekki aðeins er um að ræða leifar frá næsta nágrenni heldur litið yfir skóginn í heild. Hér má finna fróðlega muni frá Afríku og Asíu þó megináherslan sé á fornleifar frá Evrópu. Safnið stendur við Wodna götu. Opið virka daga nema mánudaga 10 – 16, 10 – 18 á laugardögum og 10 – 15 á sunnudögum. Frítt inn á laugardögum en annars er miðaverð 260 krónur. Heimasíðan.

>> Handverkssafnið (Kazimiera Illakowiczówna) – Handverk stórt og lítið frá héraðinu og Póllandi í heild. Forvitnilegt stopp við Góra Przemysla götu. Opið 10 til 16 virka daga nema mánudaga og 10 til 15 um helgar. Aðgangur 250 krónur. Heimasíðan.

>> Henryk Sienkiewicz safnið (Henryk Sienkiewicz Muzeum) – Hér er rifjuð upp saga frægasta skáldsagnahöfundar Pólverja sem hér bjó. Sienkiewicz hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1905 og er þekktastur fyrir epíska skáldsögu sína Quo Vadis um kristna menn þegar rómverska heimsveldið var á hátindi sínum. Safnið er á miðbæjartorginu Stary Rynek. Opið virka daga 10 til 17. Miðaverð 190 krónur. Heimasíðan.

>> Hljóðfærasafnið (Muzeum Instreumentów Muzycznych) – Enn eitt safnið við Stary Rynek og hið eina sinnar tegundar í Póllandi. Nafnið segir allt sem segja þarf. Yfir þrjú þúsund hljóðfæri hvaðanæva að úr heiminum. Þriðjudagar til laugardaga milli 11 og 17. Fullorðnir punga út 210 krónum fyrir aðgang. Heimasíðan.

>> Stríðssafnið (Wielpolskie Muzeum Walk Niepodleglociowych) – Meira kannski hersafn en stríðssafn en hér er allt um hernað og stríð í þessum landshluta Póllands gegnum tíðina. Heillandi fyrir stríðsáhugamenn en varla marga aðra. Stutt að fara þar sem þetta safn stendur líka við torgið eina Stary Rynek. Annað safn tengt stríði er staðsett í borgarvirki Poznan, Poznan Citadel, en þar er áherslan á miðaldavopn. Opið 9 til 16 alla daga nema mánudaga. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Fornbílasafnið (Motor Muzeum) – Skammt frá miðbænum en í göngufæri við Rondo Kaponiera er þetta safn sem nýtur vinsælda. Þar eru til sýnis fornbílar ýmsir en safnið er lítið og takmarkast við eina 30 bíla. Virka daga 10 til 16 og helgar milli 10 og 15. Miðinn kostar 220 krónur.

>> Dzialynski höllin (Pałac Działyńskich) – Við vesturenda Stary Rynek er áhrifamikil bygging í barrokkstíl. Þetta er höll Dzialynskis sem nú hýsir meðal annars bókasafn og vísindaakademíu borgarinnar. Aðgangur ókeypis virka daga þegar húsið er opið.

>> Wielkopolska þjóðgarðurinn (Wielkopolski Park Narodowy) – Fimmtán kílómetrum utan borgarinnar er einn af fallegri þjóðgörðum Evrópu, Wielkopolski þjóðgarðurinn, en sá hefur verið friðaður frá árinu 1957. Ýmislegt forvitnilegt að sjá gert af mannahöndum, timburkirkju, og flóru og fánu af náttúruvöldum. Hápunkturinn fyrir marga er þó lestarferðin frá Poznan og að garðinum en þá leið fer eina gufulestin sem enn er starfandi í Evrópu allri. Sú er tímanna tákn og minnistæð þeim er prófa. Frá lestarstöðinni í Poznan skal taka lestina sem fer til Stęszew. Ferðalagið tekur um 35 mínútur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Fyrir Íslendinga er Pólland almennt betra til verslunar þar sem verðlag er aðeins fyrir neðan það sem gerist hjá Evrópuþjóðum vestar í álfunni. En það er ekki svo að hægt sé að gera einhver stórkostleg kaup og Poznan er einfaldlega of lítil til að þar sé fjölbreytt úrval verslana.

Að því sögðu er enginn skortur heldur. Hér eru margar af helstu verslunarkeðjum heimsins og þær flestar í eða við Polwiejska götuna. Þar eru líka tveir verslunarkjarnar, Stary Browar og Kupiec Poznianski, með ágætt úrval verslana.

Verslanir almennt eru opnar fram eftir kvöldi til 20 eða 21 virka daga en sérverslanir loka jafnan dyrum sínum fljótlega eftir hádegið um helgar. Það á þó ekki við um stórverslanir eða verslunarmiðstöðvar.

Fjöldi sölumanna reyna að pranga drasli inn á ferðamenn á sjálfu Stary Rynek torginu. Er það leiðigjarnt til lengdar enda fjandi ágengir margir hverjir en inn á milli má þó finna sölumenn sem selja alvöru muni en ekki glingur og glyðrudrasl.

Matur og mjöður

Nóg er af veitingastöðunum hér þó engir fari í heimsmetabækur fyrir stórkostlegheit. Þrír staðir sem fá fínustu einkunn ferðamanna á googl.com eru:

Líf og limir

Svipuð staða og í öðrum evrópskum borgum. Nóg af vasaþjófum og sérstaklega kringum Stary Rynek torgið og nálægar götur. Harðari glæpir fátíðir og sjaldan sem ferðafólk lendir í alvarlegri hlutum en þjófnuðum. Þó er ekki ráð að þvælast um ölvaður eftir myrkur því slagsmál eru nokkuð tíð og misyndismenn á ferð á helstu djammsvæðum.