Í slendingar margir hafa lengi gagnrýnt það á Íslandi að erlendir íbúar vilja gjarnan safnast saman á einum og sama staðnum. Þeir hinir sömu ættu kannski að stoppa í vikustund eða svo í smábænum Torrevieja á Costa Blanca í Alicante.

Það væri fullsagt að þar sé ekki þverfótað fyrir Íslendingum en þeir eru vissulega fjölmennir á þessum stað og þó nákvæmar tölur séu vandfundnar er talið að hér séu ekki færri en tæplega eitt þúsund sumarhús eða villur í eigu Íslendinga. Ef við gefum okkur augnablik að  tíu einstaklingar noti hvert og eitt hús yfir árið þar sem sum þeirra eru leigð út er því fjöldi sem hér dvelur árlega töluverður og líklega stærsta byggð Íslendinga utan Íslands.

Bærinn sjálfur telur í heildina rúmlega hundrað þúsund íbúa sem margir lifa á ferðamennsku af einum eða öðrum toga. Um 50 prósent íbúa eru aðfluttir útlendingar sem hér hafa keypt eignir og búa hér árið um kring.

Það kann að vera hart til orða tekið en í samanburði við marga aðra staði á Spáni er bærinn ekki frámunalega merkilegur. Ástæða vinsælda hans lengi vel var að hér kom fasteignabólan töluvert seinna en víða annars staðar og fasteignaverð var hér afar gott vel fram á öldina. En auðvitað eru margir hér aðeins að leita að ljúfu loftslagi og það finna þeir sannarlega.

Sérstaklega margir eru líka á þeirri skoðun að andrúmsloftið hér sé hollara en gengur og gerist sökum tveggja stórra saltvatna sem við borgina liggja. Ritstjórn Fararheill hefur eytt nokkrum tíma hér á mismunandi stöðum og ekki orðið vör við þetta en sitt sýnist hverjum.

Torrevieja er í um það bil 50 mínútna akstursfjarlægð frá Alicante borg sjálfri og 40 mínútna fjarlægð frá Alicante flugvelli.

Til og frá

Helsti alþjóðaflugvöllurinn á þessu svæði er Aeropuerto de Alicante 40 mínútum til norðurs og er nýtískulegur og góður. Í brottfararsal eru tveir barir og einir sex sæmilegir veitingastaðir. Frítt þráðlaust netsamband er í boði en reykherbergi eru engin.

Fyrir utan að leigja eigin bíl er aðeins tvær leiðir færar til og frá flugvellinum.

Leigubíll fer aðra leið til Torrevieja fyrir 11 til 12 þúsund krónur eftir umferðarþunga hverju sinni. Viðbótarkostnaður getur komið til vegna farangurs. Fræðilega er hægt að prútta um verðið en fáir bílstjórar eru hrifnir af því. Ívið fleiri eru sáttari við að gefa upp enn hærri verð en eðlilegt er og er þetta vandamál á þessum slóðum. Í öllu falli er best að fá verðið upp á borðið áður en haldið er af stað.

Öllu betri kostur er að taka sérstaka flugrútu sem hóf að aka milli flugvallarins og rútustöðvarinnar í Torrevieja sumarið 2012. Torrevieja Quickair eru þeir kallaðir og merktir þannig við flugstöðina. Fargjald aðra leiðina með þeim kostar 1.200 krónur á mann og hægt að kaupa miðann hjá bílstjóranum sjálfum. Eini gallinn við þetta fyrirkomulag er að þessir vagnar fara aðeins á tveggja klukkustunda fresti. Það þarf því að bíða nokkuð sé hann nýfarinn. Frá flugstöðinni fer hann frá klukkan 8 á morgnana á tveggja stunda fresti til 22 um kvöldið. Frá rútustöðinni í Torrevieja við Calle de Mar frá sjö á morgnana til 21 á kvöldin. Þessir vagnar keyra allan ársins hring.

Þriðji möguleikinn er að taka flugrútu, C6, eða leigubíl inn í Alicante og þaðan rútu til Torrevieja en þeir vagnar eru bæði lengur á ferðinni og ekki endilega meiri fjöldi ferða.

Séu margir að ferðast saman getur verið kostur að leigja stærri skutlu undir mannskapinn. Sendibíll fyrir allt að átta manns plús farangur ætti ekki að kosta meira en þrjú þúsund krónur á mann yfir sumartímann.

Annar nýr flugvöllur er að rísa skammt frá borginni Murcia og má ætla að lággjaldaflugfélög muni nota þann völl í vaxandi mæli þegar fram líða stundir. Frá honum að Torrevieja er vegalengdin svipuð og frá Alicante.

Loftslag og ljúflegheit

Engum blöðum er um það að fletta að loftslag hér er ansi hreint ljúft fyrir kaldann Íslendinginn. Hér getur vissulega orðið kalt og hráslagalegt yfir hávetrartímann en sá tími er mjög skammur og ekkert til að hafa áhyggjur af.

Samgöngur og skottúrar

Þó Torrevieja sé ekki ýkja fjölmennur bær þá er hann ansi dreifður og flestar villur Íslendinga og annarra eru nógu miklum úthverfum til að þörf sé á bifreið ætli fólk að gera meira en hanga.

Hægt er að bjarga sér með strætisvögnum en það er vesen. Alls fara sjö vagnar sjö mismunandi leiðir um borgina. Þeir fara um á fimmtán mínútna fresti yfir hásumarið en aðeins á 40 mínútna fresti yfir vetrartímann.

Það þarf enginn að hræðast að stíga upp í strætó hér. Bærinn hvorki stór né hættulegur og hver veit hvað maður finnur í ólíklegustu hverfum.

  • Leið A: Torreveija til La Mata
  • Leið B: La Mata til Torrevieja
  • Leið C: Torrevieja til Torretas
  • Leið D: Torrevieja til Lomas
  • Leið E: Torrevieja til Rocio del Mar
  • Leið F: Torreveija til Los Altos
  • Leið G: Torrevieja – La Siesta
* Torrevieja á í þessum tilfellum við um miðborgina.

Söfn og sjónarspil

>> Sjávar- og Saltsafnið (Museo del Mar y de la Sal de Torrevieja) – Þjált og gott nafn en þetta safn er í raun mjög forvitnilegt enda er svæðið hér, Torrevieja og Orihuelo, þekkt fyrir mikil saltvötn og mikla saltvinnslu úr þeim hér áður fyrr. Safnið skiptist niður í nokkur mismunandi söfn. Calle Patricio Perez. Opið 10 – 13 og 17 – 20 alla daga nema mánudaga. Aðgangur ókeypis að flestu. Heimasíðan.

>> Páskasafnið (Museo Semana Santa) – Þeir sem þvælast um Spán í Páskavikunni vita að þarlendir taka þá hátíð alvarlega. Á þessu litla safni má sjá það safn muna sem menn þvælast um með í göngum þá daga til að minnast fórnar Jesú Krists á sínum tíma. Calle Formentera. Opið 10 – 19 alla daga nema sunnudaga og lokað í Páskavikunni sjálfri. Punga þarf út 800 krónum fyrir herlegheitin. Heimasíðan.

>> Þjóðagarðurinn (Jardin de las Naciones) – Í borginni er að finna almennings/skemmtigerð tileinkaðan þjóðum Evrópu. Sá er í laginu eins og Evrópa og er skemmtilegur heimsóknar. Skammt utan við bæinn sjálfan er þessi skemmtilegi frístundagarður. Eðalfínt að slaka á hér og margt að sjá og nóg um að vera fyrir börnin. Calle Villa de Madrid. Opinn frá 10 – 19 daglega. Enginn aðgangseyrir.

>> Bryggjusporðurinn (Paseo Dique de Levante) – 1500 metra löng göngubryggja við höfnina í bænum og frægur skúlptur við endann. Yndislegur röltstaður og rómantískur ekki síst að kvöldlagi þegar ljósin kvikna í bænum.

>> Vatnsleikjagarðuinn Aquopolis (Parque Acuático Aquopolis) – Einn af stærri vatnsleikjagörðum í Evrópu og hér geta börn á öllum aldrei eytt tímanum við sprikl og busl í allar áttir. Garðurinn er aðeins opinn frá júní og fram í miðjan september. Miðaverð 4.200 krónur fyrir fullorðna en 3.000 fyrir börn og unglinga undir 1.40 á hæðina. Heimasíðan.

>> Gamli turninn (Torre de Moro) – Þessi tilþrifalitli turn var fyrsta byggingin á þessu svæði í fyrndinni og ástæða þess að hér reis byggð í upphafi. Turninn var mun nærri sjó þá en hann er núna nánast inn í miðju íbúðahverfi. Hann er opinn skoðunar en ekki ýkja margt að sjá í rauninni.

>> Flotsafnið (Museos Flotantes) – Ekki safn í þeirri merkingu heldur hluti af Sjávar- og saltsafninu. Hér má sjá gamlan úreltan kafbát frá spænska flotanum auk varðskips sem sömuleiðis hefur lokið hlutverki sínu. Hægt er að skoða í krók og kima en bátarnir liggja á einum stað við höfnina sem kallaður er Flotsafnið og er þokkalega merkt. 400 krónu aðgangur er að bátunum en aðeins opið milli 17 og 21 á sumrin.

>> Spilavítið (El Casino de Torrevieja) – Fyrir utan að vera staðurinn til að eyða eða græða peninga þá er þetta spilavíti hýst í einu af elstu byggingum sem enn eru upprunalegar í borginni. Kemur því ekki á óvart að húsið er ívið fallegri en flest önnur og sama á við innanhúss. Spilavítið heyrir reyndar sögunni til og er húsið notað undir samkomur ýmsar í dag. Þangað er oftast hægt að kíkja inn. Spilavítið er staðsett við strandgötuna Paseo Vistalegre.

>> Molina garðurinn (Parque de Molina de Aqua) – Í La Mata hluta Torrevieja lengst til norðurs er þennan garð að finna sem á að vera kenndur við ýmis konar vindmyllur. Frír aðgangur.

Verslun og viðskipti

Já og nei. Hér er vissulega að finna margar vinsælar verslanir, H&M meðal annars, og hægt að gera ágæt kaup en verðlag er í hærri kantinum miðað við Spán og úrvalið jafnast ekki á við það í stærri borgum. Mun betri kaup er hægt að gera í nágrannaborgunum Alicante eða Murcia.

Habaneras heitir stórt verslunarsvæði við Avenida Rosa Mazón Valero í úthverfi borgarinnar skammt frá saltvatninu. Helsta verslunargatan í miðborginni er Calle Caballero de Rodos. Þá er mökkur af túristaverslunum við strandgöturnar allar.

Tveir markaðir eru hér reglulega. Annar er í La Mata alla miðvikudagsmorgna og hinn á föstudagsmorgnum rétt við rútubílastöðina í Calle del Mar.  Hætt við að erfitt sé að gera stórkostleg kaup en hver veit.

Matur og mjöður

Enginn hellingur er af safaríkum matsölustöðum er hér að finna. Þvert á móti virðast langflestir vera þessir dæmigerðu ferðamannastaðir sem eru gleymdir um leið og fólk labbar út.

Ritstjórn Fararheill veit þó um þrjá staði sem við sjálf mælum með og fá ágætar einkunnir í bókum Michelin og Tripadvisor.

Djamm og djúserí

Sannarlega nóg um að vera eftir að skyggja tekur á miðborgarsvæðinu og reyndar allan daginn ef sá gállinn er á fólki. Klúbbar, barir og pöbbar af ýmsum stærðum og nær allir við sjávarsíðuna við þær strendur sem hér eru. Torrevieja er þó ekki á pari við allra mestu djammbæina en ívið nóg við að hafa fyrir flesta.

Hátíðir og húllumhæ

Eins og víðar er raunin er ótrúlegur fjöldi bæjarhátíða í Torrevieja. Fyrir utanaðkomandi hafa margar þeirra takmarkað aðdráttarafl enda í flestum tilvikum verið að heiðra dýrlinga og guðlegar verur.

Þær helstu sem þess virði er að vitna sé fólk á staðnum er Maíhátíðin, Feria de Mayo, sem er þó rammstolin að öllu leyti. Maíhátíðin er nefninlega frægasta hátíð ár hvert sem haldin er í borginni Sevilla ár hvert og er tileinkuð flamenco, dansandi hestum og vel skreyttum Andalúsíubúum. En Torrevieja, af öllum stöðum, ákvað að bjóða upp á sína eigin Maíhátíð sem er mikið til með sama þema og sú stærri í Sevilla. Maíhátíðin fer vitaskuld fram í maí en dagsetningar eru mismunandi milli ára.

Golf og gleði

Hér eins og annars staðar við vinsæla ferðamannastaði spretta golfvellir upp eins og gorkúlur. Frá Torrevieja er innan við hálftíma akstur að einum fjórum mismunandi golfvöllum.

>> La Marquesa

>> La Finca

>> Villamartin Golf

>> Las Ramblas

Líf og limir

Nokkuð er um þjófnaði hér og innbrot og flokkar misyndismanna fylgjast grannt með yfirgefnum sumarhúsum útlendinga. Innbrotin taka aðeins augnablik og því skal hafa allan vara á sér og geyma verðmæti í kyrfilega læstum peningaskápum eða í mittisbelti á sér.

Velflest það sem í boði er hjá götusölum lítur vel út en er fals meira eða minna. Lögregla hefur átt það til að taka rassíur meðal þeirra og ekki síður meðal kaupenda.

View Torrevieja á Spáni in a larger map