A llt vitiborið fólk veit að nauðsynlegt er að bera á sig sólarvörn undir brennheitri sólinni á vinsælum sólaráfangastöðum og flestir bera jú á sig reglulega. En þú ert pottþétt líka að bera of lítið á þig.
Alvöru sólarkrem eða olíur eru ekki mjög sexí á ströndinni. Kremin oftast nær hvít að lit og olían á það til að leka og lyktin ekki svo brilljant heldur.
Svo hvað gerum við flest sem erum meðvituð um nekt okkar á sólarströndum? Jú, við nuddum kremunum og olíunni á líkamann eins fast og lengi og þarf til að kremin eða olíurnar séu nú ekki mega-áberandi á okkur. Enginn vill hafa hvítar klessur eða olíubrákir um allan líkamann. Ekkert sexí við það.
Nákvæmlega þar liggur dauður hundurinn grafinn.
Vísindamenn hafa komist að því með rannsóknum að næstum enginn ber á sig það magn sólarvarna sem til þarf til að uppgefinn SPF-stuðull veiti þá vörn sem lofað er á umbúðunum.
SPF-stuðull, sem finnst á öllum sólarvörnum, segir til um vörnina sem viðkomandi vara veitir gegn harmlegum geislum sólarinnar. Æði margir, og ekki síst Íslendingar sem ekki sjá sólina svo mikið, kaupa gjarnan sólarvörn með lágu SPF-gildi erlendis til að fá lit fljótt og örugglega. Útlitið skiptir jú miklu máli hjá okkur flestum.
En vísindin segja okkur að til að uppgefin sólarvörn virki nákvæmlega eins og lofað er þarf að maka kreminu eða olíunum svo vel á líkamann að 1,5 – 2,0 millimetra lag sé yfir húðinni áður en hlaupið er út í sólina.
TVEGGJA MILLIMETRA lag af sólarvörn til að vörnin virki sem skyldi!!!
Ekkert smáræði og þarf litla stærðfræðikunnáttu til að átta sig á að slíkt lag af sólarvörn merkir að ósexí hvíta kremið eða olíubrákirnar er LÁGMARKIÐ til að sólarvörnin virki.
En ók. Enginn hefur áhuga á að valsa um sólarstrendur þakinn hvítri sólarvörn eða svo löðrandi í olíu að forstjóri N1 hefur samband og vill samstarf.
Það er ráð við því og það er að kaupa miklu, miklu sterkari sólarvörn en þú heldur að þú þurfir. Tvöfalt sterkari að minnsta kosti. Því með nuddinu inn í húðina dregurðu mikið úr varnareiginleikunum. Með öðrum orðum; þú átt að kaupa sólarvörn með SPF 50 eða jafnvel 60 þegar þú telur þig þurfa SPF 30.
Víst mun það minnka oggupons þann flotta brúnkulit sem þú elskar að koma heim með úr fríinu. En það minnkar líka stórlega líkurnar á að þú komir heim með ólæknandi sortuæxli. Og ef valið stendur milli þess að vera brún og flott til sextugs eða hvít og vofuleg til áttræðs er valið auðvelt.