Þ að fer kannski ekkert ýkja mikið fyrir henni í veraldlegu samhengi en Toronto í Kanada er ívið merkilegri en hún fær kredit fyrir. Sem er sennilega ástæða þess að hún er vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Kanada og meira að segja sívinsæl Vancouver kemst ekki með tærnar þar sem Toronto hefur hælana.

Það helgast þó ekki vegna þess hve Toronto er ægifögur og skemmtileg sérstaklega heldur hefur nálægð borgarinnar við hina frægu fossa Niagara töluvert um vinsældirnar að segja.

Borgin er mikill suðupottur mannlífs sem sést hvað best á þeirri staðreynd að vel yfir hundrað tungumál eru töluð að staðaldri innan borgarmarkanna. Hvergi annars staðar í veröldinni rekja íbúar einnar borgar rætur sínar til jafn margra þjóðlanda.

Þá er Toronto miðstöð fjármála í landinu en fjórðungur allra íbúa Kanada búa í 160 kílómetra radíus um borgina. Sú staðreynd gerir borgina reyndar dálítið kalda því hér er asi á fólki líkt því og gerist í öðrum stórum viðskiptaborgum. Mörgum kemur líka á óvart að Toronto er fimmta fjölmennasta borgin í Norður Ameríku.

Alls teljast fjórar og hálf milljón manna búa í Toronto að úthverfum meðtöldum og borgin hefur um árabil þótt einn besti staður heims að búa á.

Segjast verður eins og er að sé fólk á höttum eftir yndislegheitum er Toronto sennilega ekki góður áfangastaður. Til þess er of lítið markvert að sjá og íbúar eru frosnari en víðast annars staðar í landinu.

Loftslag og ljúflegheit

Toronto er afar köld á veturnar en þar er furðulega heitt á sumrin svo segja má að vorin og haustin sé langbesti tíminn til heimsóknar. Yfir hávetur getur hitastig farið vel niður fyrir frostmark en heitustu sumardagarnir geta hlaupið langt yfir 30 gráður. Þá eru sumrin hér afar molluleg.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Toronto er Pearson International Airport og samanstendur af tveimur flugstöðvarbyggingum. Einhverra hluta vegna kallast þær flugstöð 1 og 3 en hvergi bólar á flugstöð númer 2.

Til og frá vellinum eru fimm leiðir fyrir ferðalanga sem ekki eru í skipulögðum ferðum. Í fyrsta lagi bílaleigubílar og lítið mál að leigja einn svoleiðis á flugvellinum án fyrirvara. Þó fást jafnan betri verð ef pantað er nokkru áður. Bílaleigubíll er að heita nauðsyn ef þvælast á um héraðið eða landið en varla góð hugmynd í borginni nema fyrir kunnuga.

Flugrútan er líklegasta besta leiðin í eða úr miðbænum. Toronto Airport Express býður slíkar ferðir á 20 mínútna fresti á daginn og 30 mínútna fresti kvöld og helgar. Strangt til tekið á 40 kílómetra aksturinn að taka um 40 mínútur en traffík getur verið mikil og má gera ráð fyrir að rútan sé allt að klukkustund á leiðinni. Miðaverð er 2.600 krónur aðra leið en það borgar sig að kaupa báðar leiðir.

Hefðbundnir strætisvagnar fara líka að flugstöðinni og einar fjórar mismunandi leiðir í þokkabót. Aðeins ein þeirra fer þó áleiðis í miðbæinn milli 5:30 á morgnana til 02 á næturnar. Er það leið 192 milli flugvallarins og Kipling stöðvar en sú ferð tekur 25 mínútur. Frá Kipling verður þó að taka jarðlest inn í miðbæinn. Miðaverð er 390 krónur og verður að hafa nákvæma mynt.

Hvað leigubíla varðar er fast verð milli flugvallarins og miðbæjarins en einungis ef pantað er með fyrirvara. Er verðið þá 2.600 krónur. Sé tekinn næsti leigubíll á vellinum við komu er líklegra að gjaldið sé nær því að vera milli 5 og 6 þúsund krónur.

Það er annar flugvöllur hér skammt frá miðborginni. Sá, Billy Bishop Toronto City Airport, er þó nánast eingöngu notaður af einkaflugvélum og á stöku innanlandsleiðum.

Samgöngur og snatterí

Eru á heimsmælikvarða í borginni en hér ganga lestir, jarðlestir, sporvagnar, rútur og strætisvagnar og fjöldi leiða eru í boði allan sólarhringinn. Nauðsyn þess að nýta samgöngutækin er reyndar tiltölulega lítil því miðborgin er það svæði sem merkilegast er í borginni og fyrir ferðafólk er ekki ýkja miklu eftir að slægjast annars staðar. Helst eru það jarðlestirnar sem koma að notum ef þreyta færist í fætur.

Að þessu sögðu kostar stakur miði í jarðlest, sporvagn eða strætó 360 krónur. Kerfið í heild sinni er rekið af TCC fyrir hönd borgarinnar og á vef þeirra má sjá kort allra leiða í ýmsum stærðum.

Jarðlestakerfið samanstendur af fjórum leiðum eins og sést hér en það er fyrst og fremst sú gula sem ferðamenn geta notað hvað mest. St George og Bloor-Yonge eru meginstöðvarnar.

Vel á annað hundrað strætisvagna fara um borgina reglulega og í þá má greiða með peningum svo lengi sem rétt upphæð er við höndina. Sömuleiðis er fjöldi næturvagna gangandi allar nætur en þær vagnar byrja eru merktir frá 300 og upp í 385. Leiðakerfi strætó hér.

Söfn og sjónarspil

>> Sjónvarpsturninn (CN Tower) – Frægasta tákn Toronto borgar var jafnframt hæsti frístandandi turn heims um tíma. Ofarlega í honum í 345 metra hæð er útsýnispallur og ágætur veitingastaður þar fyrir neðan en turninn í heild er 553 metrar á hæðina. Útsýnispallurinn er ekki fyrir alla því hann er í gleri og margir lofthræddir sem þora upp yfirgefa ekki lyftuna. Þaðan er stórfenglegt útsýni yfir alla borgina. Í byggingunni er líka lítið kvikmyndahús. Aðgangur að útsýnisturninum einum saman kostar 2.700 krónur. Opið 10 – 21:30. Turninn er í göngufæri frá miðbænum en hann er staðsettur norður af Bremner breiðgötunni. Með jarðlest skal fara út við Union stöð. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Ef þú ert fyrir að lifa lífinu skaltu stökkva framaf CN turninum ef tækifæri gefst til. Það er raunverulega í boði í þartilgerðri öryggislínu og við getum vottað að upplifunin er mögnuð í þrítugasta veldi.

>> Ontario leiksvæðið (Ontario Place) – Einn vinsælasti áfangastaður heimamanna sem og ferðamanna er þetta hér svæði við Ontario vatn. Um er að ræða stórt afþreyingarsvæði með kvikmyndasölum, leiktækjum bátum, bílum og alls kyns tívolítækjum. Ágætir kaffi- og veitingastaðir og nálægð við vatnið gera Ontario Place að óvenju viðkunnalegum stað til að eyða deginum. Frá Union stöð taktu sporvagn 509 til Exhibition Place. Ontario Place er í tíu mínútna göngufæri þaðan. Opið alla daga milli 10 og 19. Aðgangseyririnn 2.200 krónur en aukalega kostar í velflest tæki. Heimasíðan.

>> Kajama skútan (Tall Ship Kajama) – Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að fara túristaferð með þessari seglskútu sem siglir á Stóruvötnum, Great Lakes, en hana er hægt að leigja við sérstök tækifæri. Heimasíðan.

>> Yonge Dundas torgið (Yonge Dundas Square) – Á þessu torgi hafa borgaryfirvöld byggt afþreyingarmiðstöð eina mikla og hér má reglulega sjá uppákomur eins og leikrit og tónleika. Þá er hér fjöldi upplýstra gosbrunna og fleira forvitnilegt fyrir augað en engan veginn ómissandi stopp. Jarðlest að Dundas stöð. Opið allan sólarhringinn.

>> Konunglega Ontario safnið (Royal Ontario Museum) – Þetta fjölbreytta safn í Queens Park garðinum er þess virði að skoða utan sem innan. Byggingin sjálf forvitnileg en ýmsar viðbætur verið byggðar síðan safnið opnaði fyrst 1913. Innandyra eru margvíslegar sýningar og ekki einskorðaðar við list heldur og líf á jörðu, tækni og vísindi og margt fleira. Fáum leiðist að eyða hálfum degi hér. Opið daglega 10 – 17:30 og til 21 á föstudögum. Jarðlest að Museum stöð. Aðgangseyrir 2.800 krónur. Heimasíðan.

>> Vísindasafn Ontario (Ontario Science Museum) – Þeir sem til þekkja vilja meina að þetta sé eitt glæsilegasta vísindasafn heims og víst er að hundruð þúsunda heimsækja safnið ár hvert. Eins og nafnið gefur til kynna eru vísindin hér kynnt í máli og myndum og fjölmargt athyglisvert til sýnis. Þá geta gestir og tekið þátt í ýmsum uppákomum. Þá er hér líka IMAX kvikmyndahús. Safnið er í úthverfi borgarinnar og taka þarf jarðlest að Eglinton og þaðan strætisvagn 34 að Don Mills vegi. Opið 10 – 17 daglega. Miðaverð 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Íshokkí frægðarsetrið (Hockey Hall of Fame) – Þjóðaríþrótt Kanadamanna er íshokkí og þar eiga þeir margar stjörnur bæði nú og fyrrum. Hér má sjá allt um þá frægu kappa og ekki síður mikinn fróðleik um íþróttina og uppgang hennar í landinu. Safnið er í miðborginni á horni Yonge og Front gatna nálægt CN turninum. Opið 9:30 til 18 daglega. Prísinn 1.800 krónur. Heimasíðan.

>> Innflytjendaþorpið (Black Creek Pioneer Village) – Til Ontario á sínum tíma komu hundruð þúsunda innflytjenda sem sóttust eftir betra lífi ekki ólíkt Íslendingunum sem héldu til Winnipeg á árum áður. Þetta safn er tileinkað þeim en hér komu margir þeirra sér fyrir og þær 40 byggingar sem hér standa eru nákvæmar eftirgerðir af húsum sem hér voru upphaflega byggð. Hér er líka líf því leikarar spássera hér um í gervum frá Viktoríutímanum. Nettur túristakeimur en þess virði. Jarðlest frá Jane stöð. Opið 9:30 til 17 alla daga. Aðgangseyrir 1.800 krónur. Heimasíðan.

>> Listasafn Ontario (Art Gallery of Ontario) – Glæsilegt safn í miðbænum hannað af Frank Gehry og ómissandi öllu listáhugafólki. Fjölbreytt verk hér til sýnis hverju sinni í mörgum mismunandi sölum en hlýlegt umhverfið er fullkomið til að njóta listaverkanna. Þá er ekki síður gott útsýni héðan til allra átta í borginni. Sporvagn 505 stoppar við safnið. Opið 10 – 17:30 alla daga nema mánudaga. Fullorðnir greiða 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Dýragarður Toronto (Toronto Zoo) – Þessi dýragarður er með þeim betri og sá stærsti í Kanada. Sérstaklega ómissandi stopp sé smáfólkið með í för. Garðurinn er spottakorn frá miðborginni en auðvelt að komast hingað með strætisvögnum. Annars vegar leið 86A frá Kennedy stöð frá 6 til 18 alla daga. Leið 85 frá Don Mills stöð stoppar einnig við dýragarðinn. Opið 9 – 19:30 yfir sumatímann en skemur á veturnar. Fullorðnir greiða 2.700 krónur og 13.ára og yngri helming þess. Heimasíðan.

>> Undralandið (Canada´s Wonderland) – Stór og mikill skemmtigarður skammt frá borginni sem rekinn er af Paramount kvikmyndaverinu. Leiktæki og tól í tonnavís hér, alls 200 talsins, og hætt við að smáfólkið vilji eyða hér töluverðum tíma og peningum foreldranna. Svokallaðar Express rútur fara reglulega frá Yorkdale og York Mills stöðvum beint að garðinum. Það gerir einnig strætisvagn 165A. Garðurinn aðeins opinn yfir sumartímann og þá milli 10 og 19 daglega en lengur um helgar. Aðgangseyrir kringum 3.000 krónur. Heimasíðan.

>> Miðaldir (Medieval Times) – Leiki hugur á að upplifa miðaldastemmningu er þetta staðurinn. Um er að ræða vinsæla leiksýningu sem eingöngu á að heilla ferðamenn en vel uppsett og alveg hægt að njóta kvölds hér í mat, drykk í viðbót við sýninguna. Staðsett í Exhibition Place garðinum skammt frá Ontario Place. Ekki gefins þó því aðgöngumiðinn kostar 8.400 krónur fyrir fullorðna og 5.500 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Ráðhúsið (Toronto City Hall) – Ráðhús borgarinnar er ein af fallegri byggingum borgarinnar og sem slík sjón að sjá. Hönnuð af finnska arkitektinum Viljo Revell og þykir afar vel heppnuð. Jarðlest að Queen eða Osgood stöðvum og pínulítill labbitúr að Bay stræti. Skoðunarferðir eru í boði hvort sem er á eigin spýtur eða með leiðsögn. Heimasíðan.

>> York virkið (Fort York) – Safn til minningar um styrjaldir þær er áttu sér stað um landsvæði Kanada fyrr á öldum. Þetta endurgerða virki var sett upp sérstaklega til að vernda hinu nýju byggð í Toronto á sínum tíma og hér var háð ein mikil orrusta þegar Bretar gerðu hér mikla árás 1813. Hér eru reglulega uppákomur til að minnast þessa tíma og á stundum er umrædd orrusta sett á svið fyrir gesti. Sporvagn 511 til Bathurst. Hafa skal í huga að þaðan er eilítið rölt að virkinu og er það nokkuð upp á við. Miðaverð 1.100 krónur. Opið 10 – 17 daglega. Heimasíðan.

>> Dómkirkja heilags Mikjáls (St.Michael Cathedral) – Ein af elstu byggingum í miðborg Toronto en sem slík hvorki sérstaklega fögur né forvitnileg miðað við dómkirkjur almennt. Þó er drengjakór kirkjunnar heimsþekktur og þeir syngja ávallt við laugardags- og sunnudagsmessur í kirkjunni. Staðsett við Kirkjustræti nema hvað.

>> Inúítasafnið (Museum of Inuit Art) – Forvitnilegt safn tileinkað Inúítum og hið eina safn sinnar tegundar í sunnanverðu landinu. Fjölmargir merkilegir gripir til sýnis og safnið sjálft á besta stað við höfnina í Queens Quay ferjumiðstöðinni. Sporvagnar 509 eða 510 frá Union stöðinni að York strætinu og þaðan yfir götuna að hafnarsvæðinu. Opið daglega 10 – 18. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.

>> Kálbær (Cabbagetown) – Kálbær er sá bæjarhluti kallaður sem eitt sinn var kjörlendi fyrir grænmetisræktun fátækra innflytjenda og þar var kál í meiri metum en annað. Nú er hér að finna eitt skemmtilegasta hverfi borgarinnar með byggingum velflestum í Viktoríustíl og stóra og mikla garða við öll hús. Reyndar vilja borgaryfirvöld meina að hér sé stærsta samfellda byggð húsa í þeim stíl í allri Norður Ameríku. Töluvert er hér líka af smærri börum og matsölum. Hverfið nær gróflega frá Queen strætinu og norður að Wellesley stræti.

>> Brugghverfið (Distillery District) – Annað svæði þar sem byggingar frá Viktoríutímabilinu standa enn og heilla fólk er Brugghverfið en munurinn á þessu og Kálbæ sá að þetta var fyrst og fremst iðnaðarsvæði á sínum tíma. Nú er þetta vettvangur listamanna og öldurhúsa og er án efa einn þægilegasti borgarhluti Toronto. Nafnið er tilkomið vegna þess að á tímabili var hér stærsta bruggverksmiðja á byggðu bóli. Þetta er ennfremur eina hverfi borgarinnar þar sem engin ökutæki eru leyfð.

Matur og mjöður

Sem stórborg sæmir er hér að finna fjölbreytt og gott úrval veitingastaða og bara og heimamenn duglegir að heimsækja hvoru tveggja. Árið 2010 voru í borginni skráðir vel yfir tíu þúsund veitingastaðir en 2.300 þeirra er að finna á miðborgarsvæðinu.

Miðborgin er eðlilega mekka matarháka og er þar sennilega Litla Ítalía við College stræti fremst meðal jafningja. Þá er King West ekki síðra hvað fjölda veitingastaða varðar. Annars er vandfundin sú gata á miðborgarsvæðinu þar sem ekki eru veitingastaðir af einhverju taginu.

Sem fyrr mælir Fararheill.is ekki með sérstökum veitingastöðum enda sýnist sitt hverjum um mat og drykk. Hér eru hins vegar þrír mismunandi veitingahúsavefir þar sem finna má það sem leitað er að.

  • Toronto.com – Tíu bestu nýju veitingastaðirnir í borginni.
  • Dine.to – Dómar um hina ýmsu veitingastaði.
  • Zagat.com – Viðskiptavinir segja sitt.

Verslun og viðskipti

Þegar rætt er um verslun í Toronto eru nokkrir staðir sérstaklega sem standa upp úr. PATH er einn þeirra sen það er heiti stærstu verslunarmiðstöðvar heims sem er alfarið neðanjarðar. Munu hér vera 28 kílómetrar af verslunum, veitingastöðum og annarri afþreyingu og hægt að dunda sér hér óháð veðri og vindum hvenær sem er. Gnótt verslana af ýmsu tagi. Kort hér.

Fyrir þá sem kjósa að versla annars staðar en í keðjuverslunum sem alls staðar finnast ættu að finna eitthvað við hæfi kringum Queen strætið. Þar er sérstaklega mikið af smærri fataverslunum sem enn sem komið er eru óþekktar að mestu. Þar hafa margir hönnuðir borgarinnar komið sér fyrir og bíða uppgötvunar.

Í það sem heimamenn kalla midtown við Yonge og Eglinton stræti er helstu keðjuverslanir að finna og það í dýrari kantinum. Þá er ekki minna úrvalið í Kínahverfinu, Chinatown, en þótt einir sex slíkir séu í borginni er venjulega átt við svæðið við Dundas stræti þegar átt er við hið raunverulega Kínahverfi.

Að síðustu er Orfus stræti í miðborginni möst stopp fyrir kaupglaða því segja má að gatan sú sé outlet gata. Þar er töluvert lækkað verð alltaf í mörgum verslunum.

Verslunarmiðstöðvar aðrar en sú neðanjarðar eru víða. Þær helstu eru:

Útsöluverslanir, outlets, eru hér í töluverðum mæli en flestar þeirra vel utan borgarmarkanna og oftar en ekki vænlegast að komast þangað með bíl enda óhægt um vik að þvælast með tonn af pokum í rútum og strætóum. Sjá leiðbeiningar á heimasíðum. Þær helstu eru:

Markaðir eru hér þó nokkrir og ber þar hæst fjölda bændamarkaða sem njóta mikilla vinsælda. Eru þeir margir víða um borgina og finna má þá hér. Stærsti markaðurinn þar sem áherslan er ekki á eitthvað matarkyns er St.Lawrence markaðurinn sem staðsettur er á Front og Jarvis strætum. Þar selja 120 aðilar allt milli himins og jarðar og þykir hann með betri mörkuðum í Norður Ameríku.

Djamm og djúserí

Af nógu að taka í þessum málaflokki enda borgin meðal allra fjörlegustu borga heims hvað næturlíf snertir. Stórir klúbbar eiga vinsældum að fagna og skipta tugum og barir óteljandi því sem næst.

Gróflega má skipta næturlífinu í þrjá parta eftir aldri og fyrri störfum. Fólk á miðjum aldri, eða besta aldri eftir atvikum, hópast oft saman á skemmtistöðum og börum við Kings West eða College strætin í miðbænum. Þá er ætíð töluverður fjöldi fólk samankomið við Yorkville við Cumberland stræti sem eitt sinn var mekka hippa og frjálsra ásta í Kanada.

Toronto er ekki síður fjörleg fyrir unga fólkið en þá er aðalstaðurinn svokallað Entertainment hverfið, Entertainment district, en þar hefur fjölda gamalla verksmiðja og geymsluhúsa verið breytt í skemmtistaði og klúbba. Hverfið er á milli Queen og Kings strætanna örskammt frá St.Andrews jarðlestarstöðinni.

Stór fjöldi samkynhneigðra búa í borginni og eiga sitt eigið hverfi á kvöldin og um helgar. Gay Village kallast sá hluti borgarinnar og vísar til hluta Kirkjustrætis sunnan við Bloor stræti. Þar er sjaldan dautt andartak.

Hátíðir og húllumhæ

Yfir sumartímann líður varla helgi án þess að einhvers staðar í borginni sé einhvers konar hátíð, tónleikar eða aðrir stærri viðburðir. Einn viðburður þó sker sig úr sökum vinsælda en það er hin árlega Caribana hátíð sem er stærsta karabíska hátíðin utan Karabísku eyjanna.

Ekki mikið síðri er Gay Pride hátíðin en sú hátíð gerist vart mikið stærri og vinsælli en hér.

Líf og limir

Toronto, líkt og velflestar kanadískar borgir, er merkilega örugg sé mið tekið af þeim fjölda sem þar býr. Toronto er snöggtum öruggari en sambærilegar bandarískar borgir. Heimamenn sjálfir hafa litlar áhyggjur af glæpum en sé gengið á fólk eru flestir sammála um að svæðið kringum Queen stræti sé ekki heppilegasti staðurinn eftir að dimma tekur.

Þá sýnir tölfræði lögreglu að þjófnaður og minni háttar brot eru algengust á Finch breiðgötunni, hluta Parkdale og Jane stræti fær ekki góða dóma.

Að þessu sögðu vilja margir meina að alltof mikið sé gert úr hættum í borginni.

View Larger Map