Ólíkt því sem ritstjórn Fararheill hélt er hreint ekkert auðvelt að finna „allt innifalið“ ferðir til Spánar þetta sumarið. Langflestir bjóða aðeins morgunmat eða hálft fæði.

Einu sinni var fátt heitara en Torremolinos en nú er staðurinn að ganga í endurnýjun lífdaga. Mynd Andalucia.com
Sem vekur nokkra furðu því margir þeir sem komast á bragðið með umræddar allt innifalið ferðir geta vart hugsað sér annan ferðamáta. Undarlegt líka hvers vegna velflestar ferðir til Tyrklands eru „allt innifalið“ en Spánn ekki.
Þá verður að leita utan landsteina og við rákumst á ágætt tilboð bresku ferðaskrifstofunnar Bookable Travel til Torremolinos á Costa del Sol. Við leituðum sérstaklega að allt innifalið ferðum á háannatíma í júlí og þó verið geti að einhvers staðar leynist betra verð á slíkri ferð þá er tilboðið fjandi gott sé fólk reiðubúið að láta sig hafa millilendingu í Gatwick. Til Gatwick er einmitt hægt að komast héðan fyrir rúmlega 30 þúsund á mann fram og aftur með smá fyrirvara.
Um er að ræða tíu daga túr þar sem gist er á fjögurra stjörnu Gran Hotel Blue Sea Cervantes sem fær ágæta dóma á netinu. Matur og innlendir drykkir innifaldir í verði. Verðmiðinn er 94 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman í júní og júlí og enn ódýrara vilji fólk sama pakka í maí. Túrinn kostar því parið 188 þúsund alls plús kostnaður frá Íslandi. Ef við gefum okkur að það finnist far fram og aftur á 30 þúsund á mann er heildarkostnaðurinn um 250 þúsund krónur.
Við sjáum ekki annað en þetta sé að minnsta kosti 50 til 70 þúsund krónu lægra verð en finnst hjá stærri ferðaskrifstofunum hérlendis.