Tíðindi

Til Bangkok fyrir rúmar 30 þúsund krónur

  09/11/2012febrúar 4th, 2014No Comments

Spútnikflugfélagið Norwegian kemur reglulega með bombur inn á hinn norræna flugmarkað og nú kemur ein enn. Flugfélagið hyggst bjóða frá næsta sumri beint flug frá Osló og Stokkhólmi til Bangkok og New York sem eru öllu lengri flug en venjan er að lággjaldaflugfélög bjóði. Verðin eru sömuleiðis vel undir því sem gerist og gengur.

Ritstjórn Fararheill fylgist reglulega með flugfargjöldum til Asíu og allra bestu tilboð þangað frá Bretlandi eða meginlandi Evrópu síðustu misserin hafa vart farið niður fyrir 95 til 110 þúsund krónur báðar leiðir til Kína eða Tælands. Fargjöld Norwegian til Bangkok verða allt niður í 34 þúsund krónur aðra leiðina.

Þá á auðvitað eftir að greiða nokkur aukagjöld og farangursgjald en engu að síður er þetta töluvert undir því sem gengur og gerist og ekki síst er þetta áfall fyrir SAS sem hefur mikið til verið einrátt á lengri ferðum frá Norðurlöndunum til Asíu. Hefur SAS þar staðið sig vel og reglulega boðið ágæt tilboð sem keppa þó ekki við þau verð er Norwegian auglýsir. Þá mun Norwegian einnig keppa við Thai Airways og Emirates sem einnig bjóða áætlunarflug frá Norðurlöndunum til ýmissa borga í Asíu.

Ekki er heldur amalegt að til þessara langferða, flugið aðra leiðina tekur ellefu klukkustundir, hyggst Norwegian nota glænýjar Boeing Dreamliner vélar en flugfélagið á að fá afhentar fyrstu slíku vélarnar í vor.

Trixið er því að fylgjast vel með tilboðsfargjöldum til Oslóar frá Reykjavík næsta vor eða sumar en þessa leið fljúga bæði Icelandair og SAS og fljúga þaðan til Tælands. Miðað við leit Íslendinga á flugleitarvél Dohop er Bangkok annar vinsælasti áfangastaður landans og því væntanlega góðar fréttir fyrir fjölmarga.

Heimasíða Norwegian hér.

Heimasíða SAS hér.

Heimasíða Icelandair hér.