Tíðindi

Beltin spennt með hobbitum

  09/11/2012No Comments

Gríðarlegar vinsældir kvikmyndanna um Hringadrottinssögu komu nýsjálenskum mjög á óvart hér fyrir nokkrum árum og þarlend ferðamálayfirvöld algjörlega með allt niður um sig þegar milljónir sýndu því áhuga að skoða nánar þá glæsilegu náttúru sem í þeim kvikmyndum sést og er að finna þar í landi.

Undarlegasta fólk um borð í vélum Air New Zealand sem kynnir nú land sitt sem föðurland hobbita eins og enginn sé morgundagurinn

Nú þegar styttist í að út komi kvikmyndin um Hobbitann sem gerð er eftir fyrstu bók Tolkien um þennan fríða flokk smáfólks ætla menn ekki að gera sömu mistökin.

Þegar hefur verið sett á stofn sérstakt hobbitaþorp eins og Fararheill hefur greint frá og nú verður varla komist til landsins með ríkisflugfélaginu án þess að verða fyrir áreiti. Nú hefur Air New Zealand tekið upp á því að kynna öryggisatriði um borð í þotum sínum með hobbitasniði eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Fer það mjög í vöxt að flugfélög bryddi upp á ýmsum nýjungum við kynningar á öryggisatriðum þeim er kynna ber farþegum í áætlunarflugi enda þurrasta efni sem hægt er að bjóða fólki upp á fyrir utan kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins íslenska.