S jaldan er ráðlegt að fara yfir lækinn eftir vatninu en á köflum getur það margborgað sig fjárhagslega. Það á sannarlega við um allsérstæðan Krísuvíkurtúr alla leið til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku sem við rákumst á.

Borg Jóhannesar er litrík og skemmtileg tímabundið.

Hollenska flugfélagið KLM er að bjóða, nánast allt þetta árið, flug fram og aftur til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku allt niður í 378 evrur á kjaft. Sem er rúmlega 50 þúsund krónur þegar þetta er skrifað og er súperverð á því fluginu.

En auðvitað hængur á hjá Hollendingnum fljúgandi. Hængurinn sá að tilboðið er aðeins í boði frá Ríga í Lettlandi!!!

Með öðrum orðum: flugtilboðið til Suður-Afríku dekkar líka flug fram og aftur milli Ríga og Amsterdam. Sem auðvitað gerir þetta súpertilboð að súper-súpertilboði.

Lygilega gott verð. Skjáskot

Og hvað kemur þetta okkur við?

Jú, fyrir ævintýragjarna á Fróni er vel hægt að taka þetta flugið því héðan er beint flug með Wizz Air til Ríga. Þangað auðvelt að komast fyrir þetta 25 til 30 kall eða svo sem svo þýðir að ef fólk böggast ekki yfir nokkrum millilendingum getur Jóhannesarborg orðið okkar kringum 85 þúsund krónur eða svo. Í ofanálag við það er hægt að eyða tíma í aldeilis ágætri Ríga og þar hægt að gera afar fín kaup ef dvalið er tvo, þrjá daga fyrir eða eftir.

Til samanburðar þá finnum við ekkert undir 130 þúsund krónum ef þú flýgur héðan til Amsterdam og þaðan áfram með KLM til Suður-Afríku. Sparnaðurinn er næstum 50 þúsund krónur á kjaft.

Það er safaríkt að okkar mati. Jafnvel þó flækjustigið sé töluvert. Nánar hér.