M argt smátt gerir stórt. Það vita forráðamenn Icelandair sem hafa enn einn ganginn hækkað töskugjöld sín svo lítið beri á.

Allt að hækka hjá Icelandair þessa dagana. Skjáskot

Fyrir réttu ári síðan kostaði það einstakling 3.850 kall að grípa með eina 20 kílóa töskudruslu með í flug aðra leiðina innan Evrópu. Sama taska í dag kostar manninn 3.900 krónur.

Ahhh. Hvað er Fararheill að væla yfir svoddan smotteríi? 50 kall er jú ekki upp í nös á jólaketti.

Þrennt sem hér skiptir máli:

A) Icelandair hefur skorið rekstrarkostnað niður hjá sér um 40-50 prósent síðan í mars í fyrra. Fengið tæpa 30 milljarða inn í reksturinn gegnum hlutafjárútboð, sagt upp hundruðum starfsmanna og fengið ríkið til að dekka laun hundruða líka mánuðum saman. Þess utan losað sig við bæði rellur og hótelkeðju sínu eins og hún lagði sig. Flugfélagið ætti að vera helmingi samkeppnishæfara en fyrir ári síðan. Allar verðhækkanir eru á skjön við bætta samkeppnishæfni.

B) Kostnaður hefur ekki aukist á síðustu tólf mánuðum. Að launum frátöldum, sem hafa vissulega hækkað lítillega en sökum fjöldauppsagna hefur það lítil áhrif haft, er eldsneytisverð á nákvæmlega sama stað og það var í mars 2020. Það er annar stærsti kostnaðarliður flugfélaga.

C) Ekki má gleyma að árið 2012 gat almenningur flogið með Icelandair hingað og þangað með eina fimmtán kílóa tösku í farrýminu og aðra 20 kílóa druslu með í skottinu án þess að greiða krónu fyrir.

En gott að vita að eina flugfélag landsins skuli sýna lit svona á þessum síðustu og verstu. Bíðum spennt eftir Play en þangað til muna eftir easyJet, Wizz Air, Norwegian og Transavia.